03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2324 í B-deild Alþingistíðinda. (3111)

54. mál, lögskráning sjómanna

Ólafur Thors:

Ég held ekki, að seinni partur 7. gr. komi að sama liði og brtt. mín. Þar er ákveðið, að heimilt sé að fara úr höfn með óskráðan mann, en lögð sú kvöð á skipstjóra að senda lögskráningarstjóra skriflega tilkynningu og láta lögskrá næst, þegar í höfn er komið. Þetta vill oft dragast úr hömlu, og verða þessi ákvæði ekki annað en pappírslög.

Ég vil benda á það, að um vertíðina er stundum svo mikil þröng á skrifstofu lögskráningarstjóra, að heilar skipshafnir verða að bíða svo klukkutímum skiptir til þess að komast að. Þetta er meðfram af því, að skrifstofan er opin svo stuttan tíma, að tíminn endist ekki til starfsins. Hv. frsm. er fullkunnugt um þetta. Jafnvel af þessum ástæðum væri þörf að lengja skrifstofutímann.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði um það, að þess væri meiri þörf á Bretlandi að skrá jafnt á nóttu sem degi, af því að skipin þurfi að leggja úr höfn á ákveðnum tíma, þá er það náttúrlega svo hér á landi, að skipstjórar sækjast ákaflega mikið eftir að leggja af stað á ákveðnum tíma úr ísl. höfnum, til þess að vera komnir á mið á þeim tíma sólarhringsins, þegar mest aflast. Á Selvogsbanka aflast t. d. bezt að næturlagi. Og yfirleitt má segja um ísl. veiðiskip á vertíðinni, að þau megi ekki neina stund missa.

Á Englandi er ekki eins mikil þröng á lögskráningarskrifstofunum, sökum þess að þær eru opnar allan sólarhringinn; þannig mundi verða hér í Reykjavík, ef 1. brtt. mín verður samþ., sem veitir skráningarstjóra heimild til að fela öðrum skráningarstörfin hvenær sem er. Úti um landið kemur þetta aftur á móti sjaldan að sök, því að víðast búa lögreglustjórar í sama húsi og skrifstofan er í.

Það er sjálfsagt rétt, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, að þegar hann var lögskráningarstjóri, hafi hann oft skráð utan skrifstofutíma. En þetta sannar einmitt hina miklu þörf þess, að slíkar skrifstofur séu lengi opnar, en engin sönnun þess, að allir lögskráningarstjórar sýni sömu lipurð og hann á sínum tíma gerði. Ég álít þess vegna ummæli hans styrkja mitt mál og vera rök fyrir því, að rétt sé að samþ. þessa till.