30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (3126)

32. mál, vegalög

Flm. (Magnús Torfason):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að vísu gamall kunningi, en þó má segja, að það sé nýtt að því leyti, að nú er því fylgt úr hlaði af 50 búendum, er búnað stunda á þessu svæði.

Síðan vegalögin voru samin, hafa komið fram óteljandi till. um að bæta við nýjum vegum, og er ekki nema von til þess. Því þó að ekki séu liðin nema 6 ár síðan vegalögin voru sett, hefir svo margt breytzt, að fyllsta ástæða er til að breyta lögunum að stofni til.

En aðalgallinn á vegakerfi landsins er, að upphaflega er það byggt sem sumarvegir. En á hverju ári kemur betur og betur í ljós, að margt af þessum vegum er ekki nothæft þegar er færð versnar, og þá alls ekki að vetrarlagi.

Verður þetta bagalegra ár frá ári, af því að vetrarflutningur afurða hefir færzt mjög í vöxt, eins og kunnugt er. Það má segja, að það sé ekki aðeins þörf fyrir að minnsta kosti ¼ hluta landsmanna, heldur hrein og bein nauðsyn að fá sæmilega vetrarvegi. Og á því svæði, sem ræðir um í frv. mínu, er þörf daglegra vetrarflutninga með afurðir, síðan Mjólkurbú Flóamanna var stofnað. Mjólkurbúið gerir það að verkum, að nauðsynlegt er að hafa bifreiðasamgöngur innan héraðsins, til þess að menn geti náð til búsins og notað sér það. Stofnun mjólkurbús í Flóanum er yfirleitt hrein og bein vitleysa, ef ekki er um leið séð fyrir, að menn geti flutt afurðir til búsins og frá því. Menn hafa ekki gefið þessu mikinn gaum, af því að árferði hefir verið svo óvenju gott, en nú hefir þessi vetur sýnt, að full þörf er á bættum vegum. Ég hefi oft fengið að heyra það, að við Árnesingar séum býsna heimtufrekir að því er snertir samgöngur, og ég skal játa, að það má til sanns vegar færa. En ég blygðast mín ekkert fyrir það. Þetta er nauðsyn, sem ekki verður undan komizt. Það stendur líka töluvert öðruvísi á í Árnessýslu en í mörgum öðrum sýslum. Ég skal geta þess, að á síðustu 8 árum hefir þar verið bætt við sýsluvegum, sem nema 189 km. Sýslusjóður, sem hefir litlu fé á að skipa, gerir ekki slíkt, nema brýn þörf reki á eftir. Hinsvegar er öllum vitanlegt, að viðhald slíkra vega eykst með ári hverju, og með þeim tekjustofni, sem sýslusjóðurinn hefir nú, er ekki sýnilegt annað en að hann eigi fullt í fangi með að halda við þeim vegum, sem fyrir eru, og er þá augljóst, að ekki muni honum vinnast að bæta við nýjum vegum. Í Árnessýslu eru verri vegarstæði en í öðrum sýslum. Í öllum sýslum eru spottar, sem lítillar aðgerðar þurfa við, en í Árnessýslu er alstaðar svo háttað, að byggja þarf upphleypta vegi yfir fen og foræði.

Alþingi hefir á síðustu árum tekið vel í það að bæta samgöngur, ekki sízt á sjó, og varið til þess miklu fé. Nú vita allir, að samgöngur á sjó eru miklu haganlegri og ódýrari en samgöngur á landi. Alþingi álítur nauðsynlegt að eyða miklu fé til að bæta góðu vegina. Þá er skiljanlegt, að oss Árnesingum finnist sanngjarnt, að lagt sé nokkuð af mörkum til að bæta vondu vegina hjá oss.

Ég ætla nú að treysta á velvild og sanngirni hv. dm. og legg til, að frv. verði vísað til samgmn.