30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (3139)

32. mál, vegalög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Samgmn. hefir hlotið töluverð ámæli af meðferð vegamála á þinginu í fyrra. Ég hygg, að færð hafi verið rök gegn flestu því, sem á hana hefir verið borið. Ég hefi því ekki ástæðu til að tala langt mál að þessu sinni, og það því síður, sem hv. 2. þm. Árn. hefir nú gert glögga grein fyrir viðhorfi þessara mála í heild. Var ræða hans sem töluð væri úr mínu brjósti, enda hafði ég hreyft ýmsu, er gekk í þá átt, í samgöngumálanefnd í fyrra. Hafði mér helzt dottið í hug, að skipuð væri milliþinganefnd til þess að koma heildarskipulagi á þessi mál. (PO: Ein milliþinganefndin enn!). Ef ekki væru sett heildarlög um þessi mál, myndi metingurinn og reiptogið ganga úr öllu hófi, og hver drepa fyrir öðrum. Það þarf styrka hönd til þess að skammta hverjum rétt undir þannig kringumstæðum. Hygg ég það nokkrum örðugleikum bundið fyrir nefndina að brjóta til mergjar, hvar þörfin sé mest og hvaða vegir eigi að sitja fyrir öðrum. Alstaðar er nauðsynin fyrir hendi og allir landshlutar vilja fá vegi.

Þess vegna væri heppilegt af samgmn. að vísa þessum málum til deildarinnar, með þeirri ósk, að skipuð væri milliþinganefnd til þess að gera fullnaðartillögu um þessi mál. (PO: Ég held að komið sé nóg af þessum nefndum). Það er ekki vonlaust um, að hv. þm. Borgf. gæti komizt í þá nefnd. (PO: Langar ekki!). Hér er um þjóðarnauðsyn að ræða, að málum þessum sé komið í betra horf hið bráðasta. Ég hreyfði þessu á síðasta þingi, en það þótti þá ekki nógu aðkallandi, en nú vona ég, að hv. þdm. sannfærist um, að þörfin er þegar orðin mjög brýn og aðkallandi, og má vart við svo búið standa öllu lengur. Tímarnir breytast og atvinnuhættir landsins breytast sömuleiðis. Samgöngumál landsins verða því á hverjum tíma að standa í samræmu hlutfalli við þarfir atvinnulífsins í landinu.