03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

32. mál, vegalög

Bjarni Ásgeirsson:

Ég á hér brtt. við vegalögin á þskj. 35, ásamt tveim öðrum hv. þm. Það, sem ég, ásamt hv. þm. Borgf., ber sérstaklega fyrir brjósti, er brautin, sem getur um í a-lið brtt. Ég hygg, að þær brautir, sem nefndar eru á þessu þskj., séu yfirleitt gamlar eftirlegukindur, þær einu, sem eftir voru skildar á þinginu 1924, en allar hinar voru teknar í þjóðvegatölu. Mér finnst það því dálítið einkennilegt, þegar hv. n. fer að velja úr þeim brtt., sem fyrir liggja, og þá eru teknar ýmsar aðrar till. og mælt með þeim, sem að minni vitund eiga alls ekki meiri rétt á sér um að vera í þjóðvegatölu en þær, sem hér er um að ræða, t. d. Fljótshlíðarbraut, Skeiðabraut og Landbraut, sem hv. n. leggur til, að allar verði teknar upp. Mér finnst sízt ástæða til að taka þær frekar í tölu þjóðvega en hinar aðrar, sem hér er um að ræða.

Það er haft á móti þessari braut, að þetta sé innansveitarvegur. Þetta er alls ekki rétt, því að auk þess sem þessi vegarspotti er tengiliður milli 7 eða 8 hreppa og kauptúns, er hann þar að auki orðinn tengiliður milli Norðurlands og Suðurlands, þegar farið er um Kaldadal. Þegar Kaldidalur er farinn, er þessi brautarspotti einn liður í þeirri löngu leið. Þegar auknar bilferðir hefjast um Hvalfjörð, verður þessi vegur farinn jöfnum höndum um Kljáfossbrú og Hvítárbrú, svoleiðis að þessi vegur er orðinn liður í tveim þjóðvegakerfum, auk þess sem þetta er stórkostlegur tengiliður á milli tveggja sýslna. Ég held því, ef ætti að vega það, hver till. ætti mestan rétt á sér, þá myndi það verða þessi.