03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

32. mál, vegalög

Sigurður Eggerz:

Ég á hér brtt. á þskj. 394, þar sem gert er ráð fyrir, að Laxárdalsvegur, frá Búðardal um Laxárdal og Laxárdalsheiði að vegamótum þjóðvegar utan Borðeyrar, verði tekinn í þjóðvegatölu.

Að því er snertir lengd þessa vegar, þá er hann hér um bil 14 km. fjallvegur, en hitt er sýsluvegur. Nauðsyn þessa vegar er allmikil, vegna þess að gegnum hann er hið bezta samband við Borðeyri, en þar á að koma upp stóru kælihúsi, og skiptir því miklu fyrir Laxdælinga og fleiri sýslubúa, að þessi vegur verði lagður. Eins er það af því að skipagöngur til Búðardals eru svo óvissar, að þá er gott að geta komið kjötinu á haustin til Borðeyrar.

Ég skal leyfa mér að taka fram, að það dregur úr kostnaði við þennan veg, að vegamálastjóri hefir hugsað sér, að um alllanga leið muni ekki þurfa á sérstakri vegarlagningu að halda, heldur megi fara yfir mela. — Ég get ekki lagt fram nákvæma kostnaðaráætlun um þennan veg, en það er flestum hv. þm. kunnugt, að hann er mjög nauðsynlegur og mikil samgöngubót, liggur í gegnum frjósamt hérað, sem það kæmi sér ákaflega vel fyrir að geta sameinast öðrum um þetta kælihús fyrir norðan. Vil ég því leyfa mér að vænta þess, að hv. þd. taki vel þessari till. minni.