03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (3158)

32. mál, vegalög

Jón Sigurðsson:

Við eigum brtt. á þskj. 39, ég og hv. samþm. minn og hv. 2. þm. Eyf., þar sem við berum sérstaklega fyrir brjósti veg frá Siglufirði að Fljótaárbrú í Fljótum. Það hefir ekki komið fyrr til umr. að taka þennan veg upp í þjóðvegatölu, og tel ég því rétt að fara um þessa brtt. nokkrum orðum, þó að fámennt sé í deildinni. Þessi vegur er mörgum kunnur af afspurn, og er hann með réttu talinn einn af erfiðari fjallvegum, þar sem hann liggur nú, nefnilega yfir Siglufjarðarskarð. En nú hefir einn af verkfræðingum ríkisins rannsakað vegarstæði á þessum slóðum og notið aðstoðar kunnugustu manna. Telur hann að álitlegasta leiðin sé um Almenninga út undir Dalabæi og þar yfir fjallið og niður svokallaðan Skjöld Siglufjarðarmegin, og telur hann líklegt, að ef vegur væri lagður svo sem nú hefir verið skýrt frá, þá mundi hann fær 6–8 mánuði ársins. Ég hefi borið þetta undir bændur í Fljótum, sem kunnugir eru þarna, og sömuleiðis var rætt á fundi, sem ég hélt þar í haust, og þar voru allir á einu máli, að þessi leið væri sú líklegasta og töldu engan vafa á, að þegar upphleyptur vegur væri kominn þessa leið, þá væri þar fenginn öruggur bílvegur frá Siglufirði og inn í Fljót meiri hluta ársins. Líka má benda á það, að ef snjóbíllinn reynist svo vel sem nú eru horfur á og Fljótamenn og Siglfirðingar fá sér einn slíkan, þá mundu fastar ferðir geta haldizt þar yfir árið um kring. Það er óþarfi að fjölyrða um nauðsyn þessa vegar; það liggur í augum uppi, hve nauðsynlegt það er kaupstaðnum að geta komizt í fast viðskiptasamband við næstu héruð, svo að kaupstaðarbúar geti keypt þar nauðsynjar sínar. Það er líka afarþýðingarmikið fyrir bændur í Fljótum, Sléttuhlíð og jafnvel inni á Höfðaströnd að geta komizt í beint samband við jafnstóran kaupstað og Siglufjörður er og geta fengið þar markað fyrir vörur sínar árið um kring.

Sambandi á landi er aðeins hægt að halda uppi við Siglufjörð 2–3 mán. á ári. En samgöngur á sjó eru erfiðar, vegna þess hve brimasamt er þar úti fyrir. Samgöngur eru því ótryggar þar. Nú er mikill framfarahugur í mönnum í þessum sveitum og margir eru þar nú, sem mikils má vænta af, einkum ef afstaða er bætt með slíkri samgöngubót sem hér er um að ræða. Það er því nauðsynlegt að hjálpa þessum mönnum eitthvað. Og ef þessi vegagerð kæmist í framkvæmd, þá væru þessum sveitum, og þó einkum Fljótum, opnaðir miklir nýir möguleikar. Siglfirðingar verða að líkindum að kaupa bæði mjólk og fleiri landbúnaðarafurðir dýrara en allir aðrir á landinu, en ef þessi vegagerð kæmist í framkvæmd, mundi aðstaða þeirra í því efni batna mjög mikið, því að Fljótin eru ágætlega fallin til nautpeningsræktar, hafa viðáttumikil og grasgefin engjalönd og ágæta búfjárhaga, og mundi því auðvelt fyrir Fljótabændur að fullnægja þörfum íbúa Siglufjarðar fyrir mjólk og aðrar búsafurðir, sem nú er ekki hægt að koma til þeirra, nálega hvað sem er í boði, vegna samgönguleysis. Það er því stórmikil þörf fyrir veginn, bæði fyrir kaupstaðarbúa og sveitarbúa norður þar. Alþingi hefir hingað til talið það skylt, að lagður væri vegur eða akbraut út frá stærri kaupstöðum, þar sem hefir annars verið nokkurt viðlit að gera það. Nefndin hefir í till. sínum tekið tillit til þessa, ekki með kaupstaði, heldur með smærri kauptún. Vegurinn, sem liggur frá Höfn í Hornafirði, og eins vegurinn frá Kópaskeri leggur samgmn. til, að séu teknir upp í þjóðvegatölu, því að þeir eru taldir nauðsynlegir vegna viðskipta við sveitirnar þar í kring. En hér er alveg um það sama að ræða. Um þennan veg segir vegamálastjóri í bréfi því, sem prentað er með nál. meiri hl., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel víst, að rétt sé að leggja í þann kostnað að gera akveg milli Skagafjarðar og Siglufjarðar, enda þótt hann verði vitanlega mjög dýr. Má nefna sem lauslega áætlun 180 þús. kr. Þætti mér mjög eðlilegt, að ríkissjóður kostaði vegagerðina að mestu, en hinsvegar er ekki ósanngjarnt að gera ráð fyrir einhverju framlagi til vegagerðarinnar frá hlutaðeigendum, sérstaklega frá Siglufjarðarkaupstað“.

Þessa umsögn vegamálastjóra virðist mér ekki hægt að skilja nema á þann veg, að hann áliti í raun og veru, að veginn eigi að taka upp í þjóðvegatölu, því að hann tekur það einnig fram, að hann vilji ekki leggja það til nú, vegna þess að vegarstæðið sé ekki fullrannsakað.

Ég ætla ekkert að fara að deila á nefndina; þó að ég sé till. hennar ekki að öllu leyti sammála. Það virðist sem hún vilji leggja mikið upp úr áliti vegamálastjóra, og væri það ekki nema eðlilegt. Þess vegna hefði mátt ætla, að hún hefði að mestu leyti bundið sig við hans tillögur, en það hefir hún einmitt ekki gert, þar sem hún vill taka í þjóðvegatölu stóra vegakafla, sem vegamálastjóri hefir lagt á móti. Ég sé því ekki neina ástæðu til að fresta því, að Siglufjarðarvegurinn verði einnig tekinn upp í þjóðvegatölu, þar sem vegamálastjóri er því í raun og veru fylgjandi. Hv. nefnd má vera þess fullviss, að þó að það verði ekki samþ. nú að taka þennan veg upp í þjóðvegatölu, þá látum við fulltrúar Skagfirðinga ekki þar við sitja. Við munum áreiðanlega bera tillöguna fram aftur hér á þingi og ekki hætta fyrr en hún verður samþ.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en ég tel það þó skyldu mína að skýra frá því með nokkrum orðum, hvernig þessar framkvæmdir eru fyrirhugaðar og sýna fram á það, að hér er ekkert örðugra að leggja sæmilegan bílveg en víða annarsstaðar á landinu, þar sem nú hefir verið ákveðið að leggja vegi. Vegarstæðið er mjög gott, því að eftir því, sem þeir menn segja, sem eru þarna nauðakunnugir, þá festir ekki snjó þar uppi á hálendinu, þar sem vegurinn á að liggja. Þegar bændur úr Fljótum verða fyrir því óhappi, að stórhríðar skella á, er þeir eru staddir í Siglufirði með, hesta sína, þá er það þrautaráðið að fara þessa leið, eða sem næst því, þar sem vegurinn á að vera. Þetta sýnir glöggt, hvað heppilegt vegarstæði þetta er, þar sem það er þrautaráðið fyrir ferðamenn að fara þá leið í illviðrum, jafnvel þó að þar séu vegleysur, hvað þá ef þar væri kominn upphleyptur vegur.

Ég vona, að hv. deild sjái sér fært að samþ. þessa till., svo framarlega sem hún getur gengið að nokkrum þeim till., sem hér liggja fyrir. Ég er sannfærður um, að þessi till., ef hún verður samþ., verður til hagsbóta fyrir fleiri menn en nokkur þeirra till., sem nefndin hefir tekið upp á arma sína.