03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2362 í B-deild Alþingistíðinda. (3159)

32. mál, vegalög

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég hefi nú hvert þingið eftir annað flutt till. um þjóðveg á Vestfjörðum, sem hefir jafnan verið felld. Og á undan mér hafa margir fyrirrennarar mínir og Vestfjarðaþingmenn flutt sömu till. án nokkurs árangurs. Þá hefi ég og stundum farið fram á ákveðna fjárhæð til Vesturlandsvegar án þess að tekin væri jafnframt ákvörðun um að taka hann upp í tölu þjóðvega, en að árangurslausu. Það er varla nokkurt hérað á landinu, sem er eins afskipt að vegafé og Ísafjarðarsýsla. Hún greiðir á hverju ári stórfé í ríkissjóð, en fær lítið á móti. Til þjóðvega þar er ekki veittur grænn eyrir, en eitthvað lítilsháttar til sýsluvega og brúargerða, en það er sem ekkert í samanburði við önnur héruð, sem gleypa tugi þúsunda. Hv. samgmn. hefir að þessu sinni fallizt á, að lagður verði örstuttur spotti af þessum vegi, en það er harla lítil fullnæging, því að af þeim spotta er ekki nema 6 km. kafli, sem er ófær bílum og vögnum.

Till. þær, sem ég flyt, eru tvær. Í fyrri till., sem er aðaltill., er lagt til, að aftan við B. 1. í 2. gr. bætist: „Frá Ísafirði að Gemlufalli við Dýrafjörð, frá Þingeyri að Rafnseyri“, en í hinni till., sem er varatill., stendur: „Frá Ísafirði að Gemlufalli við Dýrafjörð“. Ég get ekki gengið lengra í því að slaka á kröfum kjördæmis míns en gert er í varatill. Ef sú till. fellur, er mér sama þó frv. fari veg allrar veraldar. Þetta vegarstæði þarf ekki mikillar rannsóknar; það hefir verið athugað áður; mikið af því er í byggð, og hafa hreppar jafnvel nú þegar lagt nokkra vegarspotta, sem falla mundu inn í. Þessi leið er um 30 km., og ef á annað borð á að sinna kröfum Vestfirðinga að nokkru, þá tekur því ekki að taka upp skemmri þjóðveg.

Ég legg mikla áherzlu á, að þetta nál fram að ganga, og vona, að hv. samgmn. amist a. m. k. ekki við þessum lágmarkskröfum mínum, enda þótt hv. n. hafi af einhverjum ástæðum ekki talið sér fært að mæla með lengri leið en Breiðadalsheiðarvegi. Er ég og svo vongóður um, að varatill. mín verði samþ., að ég spara mér þann eldhúsdag, sem hv. Alþingi á skilið fyrir meðferð þessa máls undanfarið.