16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Torfason:

Því miður hafði ég, sakir annara þingerinda, ekki tækifæri til að heyra hina snjöllu ræðu hv. þm. N.-Þ. um sjálfstæðismálið. Ég kom ekki inn fyrr en hann var að enda mál sitt, en ég hafði mikla ánægju af því, sem ég heyrði.

Hv. þm. drap lítið eitt á aðstöðu okkar beggja, þegar sambandslögin voru samin og lýsti henni alveg rétt. Ég vil samt benda á eitt atriði til skýringar. Það var að heyra á hv. þm., að mínar till. í málinu hefðu verið linari en hans till. Ég vissi ekki, hvað hann hafði sagt um þetta áður, en við vorum á sínum tíma alveg sammála í þessu efni, og ég hygg, að hv. þm. hafi að mestu samþ. það nál., sem ég bjó til í Ed. En að mínar till. í Ed. fóru nokkuð skemmra en hans till. í Nd., var af því, að ekki hlýddi að fara í sama farið. Ég leit svo á, að ástæða væri til að koma fram með þær till., er sem flestir gætu fallizt á. Og jafnmerkur sjálfstæðismaður og séra Kristinn Daníelsson gaf líka till. mínum þann vitnisburð, að mér þætti mjög fyrir því að þurfa að fella þær.

Þá vildi hv. þm. N.-Þ. halda því fram, að 6. gr. sambandsl. væri hættuleg fyrir okkur nú. Ég lýsti yfir því um daginn og vil endurtaka það nú, að ég álít minni hættu stafa af 6. gr. nú en 1918, sérstaklega eftir að till. 1928 var samþ. Ég skal þó fullkomlega játa að, að það er fræðilegur möguleiki þess, að Danir geti komið hingað og sezt hér að, en það er heldur ekki meira. Nú eru liðin 12 ár af tíma þeim, sem sambandsl. gilda um, og því minni hl. tímabilsins eftir, og ég er sannfærður um það, að Danir gera enga tilraun til að þyrpast hingað héðan af, af ástæðum, sem ég tók fram á eldhúsdaginn og þykist því ekki þurfa að endurtaka nú.

Það er nefnilega sá mikli munur á aðstæðum nú og 1918, að við höfðum þá enga tryggingu fyrir því, að við mundum halda saman í sambandsmálinu, en eftir að till. 1928 var samþ., á að vera fullkomin trygging þess. Þess er líka að gæta, að með ákvæðum stjskr. um fimm ára búsetutíma er mjög girt fyrir þennan leka.

Hv. þm. Dal. lýsti yfir því, að hann liti enn svo á, að rétt hefði verið að samþ. sambandslögin 1918, vegna þess að ekki hefði verið á betra völ. Get ég verið honum samþ. í þessu að nokkru leyti, en alls ekki að öðru leyti. Ég játa, að sjálfstæðism. í landinu þá voru ekki nógu sterkir, eins og þingið var skipað, og má því til sanns vegar færast, að ekki hafi verið hægt að komast lengra 1918. En veilan lá hjá okkur, og er ég ekki í minnsta vafa um það, að ef ekki hefði vantað kjark og þor og samtök með okkur Ísl. 1918, hefðum við getað fengið mun betri kosti en raun varð á. Við stóðum þá vel að vígi, eins og hv. þm. Dal. líka játaði, og hv. þm. N.-Þ. drap á í sinni ræðu. Þá voru uppi í heiminum háværar raddir um rétt smáþjóðanna. Danir voru eins og milli tveggja elda. Þeir gátu ekki sem smáþjóð sótt rétt sinn í hendur Þjóðverja samtímis því, sem þeir neituðu okkur um okkar rétt. Þeir fengu skika af Suður-Jótlandi með öllum gögnum og gæðum, án nokkurra skuldbindinga og hins sama áttum við kost, ef rétt hefði verið á haldið, ekki sízt þar sem Danir gengu í gildruna og aðalflokkurinn þar í landi sendi sína beztu menn hingað með J. C. Christensen í fararbroddi, sem þá var voldugastur í danskri pólitík. Ef við hefðum verið nógu fastir fyrir; hefðum, við getað fengið meiru framgengt, því að þessir menn vildu ekki fara erindisleysu og máttu það heldur ekki. Fékk ég staðfestan í sumar þennan grun minn um að við hefðum getað fengið mun betri kosti, ef við hefðum kunnað að halda á okkar málum. (JJós: Hv. þm. hefir þá ekki siglt til einskis!). Ég varð margs vísari í utanför minni, og þótt ég telji ekki rétt að skýra frá því nú, má vel vera, að nokkur vitneskja fáist um það á sínum tíma.

Hv. þm. Dal. hneykslaðist á því, að hæstv. dómsmrh. skyldi tala um endurskoðun sambandslaganna, þegar hann var ytra í sumar. Ég var dálítið kunnugur því, sem fram fór, og get því fullvissað hv. þm. Dal. um það, að það lá ekkert í orðum hæstv. dómsmrh., sem gæti skilizt sem merki þess, að við ætluðum að slaka á klónni. Auk þess mælti hæstv. dómsmrh. ekki sem utanríkismálaráðh., eða fyrir stj. yfir höfuð, heldur lýsti hann aðeins yfir sinni eigin skoðun og hafði sambandsl. fyrir sér og notaði orð þeirra. Var slíkt viturlega gert, því að með þessu móti gat hann verið viss um að segja hvorki of né van, þar sem hann hélt sér við orð sjálfra l. En það ætti öllum að vera ljóst, að endurskoðunin verður að fara fram, áður en til uppsagnar kemur.

Við hv. þm. N-Þ. getum verið ánægðir með það, hvernig menn hér á landi hafa snúizt í þessu máli, því að ég lít svo á, að með yfirlýsingunni 1928 höfum við lagt þingið undir okkur. Mér heyrðist á hv. þm. Dal., að hann vildi láta sem hann stæði mun, framar í sjálfstæðisbaráttunni en hv. þm. N.-Þ., en ég hefi ekki getað fundið þetta enn í neinum hans till., enda er ég viss um, að hann gengur aldrei fetinu framar en hv. þm. N.-Þ., og má þakka fyrir, ef hann gengur jafnhliða honum í fylkingu.

Ég skal enda með því, að ég held, að það sé ekki til góðs fyrir þetta mál að vera að rífast um smámuni og einstök orð, sem kunna að hafa verið viðhöfð. Það er réttara að leggja áherzluna á það, hvað þingflokkarnir og Íslendingar yfirleitt standa fast saman í þessu máli, og gera allt, sem unnt er, til þess að erlendar þjóðir, og þá sérstaklega Danir, sjái, að við erum virkilega sammála og látum engan smákrit hafa áhrif á þá afstöðu, sem tekin hefir verið í sjálfstæðismálinu 1928 og er þjóð og þingi til hins mesta sóma, og verður bezta fararnestið, er við hittumst á Þingvelli í sumar.