03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (3165)

32. mál, vegalög

Gunnar Sigurðsson:

Ég vil segja örfá orð út af þeim ummælum, sem féllu frá hv. 2. þm. Eyf., þegar hann var að þakka samgmn. fyrir að vilja nú opna fyrir breytingar á vegalögunum. Ég skal taka það fram, að ég hefi fylgt þeim væng í nefndinni, sem frjálslyndastur hefir verið um það að opna fyrir þessar breytingar, þótt ég hinsvegar teldi lítinn skaða að því, að nokkuð drægist að gera breytingarnar. Út af drættinum í fyrra vil ég segja það, að þá vildi ég engu áliti skila, þar sem ekki var unnt að fá neinar upplýsingar eða álit frá vegamálastjóra, með því að hann var erlendis. Eins hefir staðið á nú, að nál. kemur svo seint vegna þess, að stóð á áliti vegamálastjórans. Ég álít að vísu alls ekki, að hann eigi að vera einráður um þessi mál, en hann er þeim þó manna kunnugastur, og því skylt að ráðgast við hann.

Ég tek það fram, að þótt ég hafi skrifað hér undir nál. með tveim hv. samnm. mínum, vegna þess að ég var þeim skyldastur í skoðunum, þá álít ég mig engan veginn bundinn við að vera aðeins með brtt. nefndarinnar. Ég býst við, að ég greiði atkv. með fáeinum fleiri vegarspottum. Menn verða að átta sig á því, að ekki er neitt hundrað í hættunni, þótt nokkrir vegir í viðbót séu teknir upp í lögin, því að þeir verða ekki lagðir fyrr en fjárveiting fæst til þeirra í fjárlögum.

Það fer því alveg eftir fjárhag ríkissjóðs, hvenær ráðizt verður í framkvæmdir.

Ég vil aðeins minnast á, að samgmn. flytur brtt. um tvo vegarspotta vegna míns kjördæmis. Brtt. um að taka Fljótshlíðarveg í þjóðvegatölu hefir nær enga fjárhagslega þýðingu fyrir ríkissjóð, þar sem annar álíka langur vegur fer í tölu sýsluvega í staðinn. — Nokkuð öðruvísi stendur á um Landbrautina. En í sambandi við hana vil ég minna menn á að svo er ástatt um Rangárvallasýslu, að hún hefir engar, eða þó öllu heldur verri en engar samgöngur á sjó. Þess vegna er það ekki nema sanngirniskrafa, að hún sé styrkt nokkru framar en sumar sýslur aðrar til samgangna á landi. Um þennan veg er þess þar að auki að geta, að hann er notaður á sumrin a. m. k. eins mikið af Reykvíkingum og öðru ferðafólki til skemmtiferða eins og af Landmönnum sjálfum.