05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

32. mál, vegalög

Hákon Kristófersson:

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessa svokölluðu kurteisi, en vil þó lýsa yfir því um leið, að ég mun ekki ómaka hv. deild með brtt. minni og tek hana því aftur. Það er hvort sem er sýnilegt af því, hvernig um brtt. hv. þdm. hefir farið, að ekki er til neins fyrir minni hl. hér að ætla sér að koma fram neinum brtt. við vegalögin til hagsbóta fyrir sín héruð. Hér er það flokksofstæki eitt, sem ræður, enda fá ekki aðrir en framsóknarmenn brtt. sínar samþ. (SE: Og læt ég það nú vera). Það getur verið, að hv. þm. Dal. sé í einhverri sérstakri náð hjá stjórnarflokknum, en hann er líka þá sá eini af stjórnarandstæðingum.

Ég hafði gengið inn á það í samgmn., að halda ekki till. minni til streitu, og tók þar tillit til vegamálastjóra, sem á að hafa vegamálin í hendi sér. Annars veit ég ekki, hvað á að þýða, að ríkið hafi slíka menn í þjónustu sinni, því þegar hingað kemur, þá eru till. hans og annara, sem þekkingu hafa, einskis metnar, og má þakka fyrir, ef slíkir menn sleppa óníddir. Vegamálastjóri hefir oftsinnis orðið fyrir aðdróttunum og útásetningum hér í deildinni, þótt skömm sé frá að segja.

Það er nú komið sem komið er með framkvæmd á gildandi vegalögum, og úr því verður ekki bætt. Þeir, sem geta beitt flokksfylgi, koma sínum málum fram, en hinir ekki. Þetta má þó ekki skilja svo, að ég sé að barma mér yfir því, að mín brtt. var ekki samþ. Ég bar hana fram fremur til að fylgjast með straumnum en að ég teldi samþykkt hennar bráðnauðsynlega fyrir land og þjóð. En hún átti ekki minni rétt á sér en ýmsir skæklar, sem framsóknarmenn hafa tekið inn í vegalögin.

Ég sé að það hefir verið samþ., eftir till. meiri hl. n., að tekin væri í þjóðvegatölu leiðin frá Hnífsdal að Gemlufalli við Dýrafjörð. Nú hefir hv. þm. V.-Ísf. gert sig ánægðan með styttri leið en hann taldi nauðsynlega í fyrstu og fallizt á mína skoðun. (ÁÁ: Ég er ekki ánægður).

Hv. þm. má vera ánægður eftir atvikum, því að þessi leið er erfið yfirferðar meginið af árinu.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Vona ég, að meiri hl. sé ánægður yfir því, sem hann hefir áorkað um vegabætur fyrir sín kjördæmi, og líka með það, að hafa hamlað því, að aðrar brtt., sem ekki áttu minni rétt á sér, kæmust fram. (MJ: Heyr!).