15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (3182)

32. mál, vegalög

Frsm. (Páll Hermannsson):

Á undanförnum þingum hafa löngum komið fram brtt. við vegalögin frá 1924, en þessar till. hafa aldrei náð fram að ganga fyrr en nú, að þær hafa náð samþykki í hv. Nd. og allmiklar breyt. gerðar, sem nú eru til umræðu.

Eftir þeim upplýsingum, sem vegamálastjóri hefir gefið samgmn., þá eru vegir þeir, sem teknir hafa verið í þjóðvegatölu, um 2150 km., en þær breyt., sem samþ. hafa verið í Nd., gera ráð fyrir 300 km. í viðbót, eða um 14%. Að sumu leyti eru þessir vegir lagðir, eða ca. 1/3, en 2/3 ólagðir. Vegamálastjóri gerir ráð fyrir, að kostnaðurinn muni aukast um 30 þús. kr. á ári vegna þessar þjóðvega, og gizkar á, að viðhaldið muni aukast svo, að það geti numið allt að 50 þús., og stafar það af hinum nýju vegum. Í því sambandi vil ég þó geta þess, að sumir af þessum liðum hafa þó notið nokkurs fjárframlags úr ríkissjóði, eða þeir, sem sýsluvegasamþykkt er fyrir, og eiga því kröfu á nokkrum þætti viðhaldskostnaðar frá ríkissj. Hinsvegar gerir vegamálastjóri ráð fyrir því, að þessir vegir verði lagðir á 6–8 árum, en nú er það svo með sýsluvegi, að ríkið leggur fé að helmingi til þeirra, og því verða þetta ekki svo mjög aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Þegar svo er litið á það, að ríkið leggur fram ¾ til brúargerða, þá mætti gizka á, að kostnaðurinn myndi allur reynast um 300 þús. kr. Ég býst við því, að þessar óskir, sem þráfaldlega hafa komið fram, stafi af því, að þjóðin finnur fulla þörf á því, að vegalögunum sé breytt, enda verða sveitavegir mjög útundan samkv. þeim vegalögum, sem nú gilda. Það er nú svo með vegina hér á landi, að þeim má skipta í tvennt: Langvegi, sem mikið eru notaðir, og þá einkanlega af ferðamönnum, og hina, sem aðallega eru notaðir til aðdrátta að heimilunum, og mér skilst, að flestir þeir vegir, sem hér er um að ræða, tilheyri hinum síðari.

Ég hefi ekki margt að segja fyrir n. hönd um þetta frv. Afstaða hennar er algerlega mörkuð í þessu stutta nál., sem er að finna á þskj. 521. Allir nm. vilja samþykkja frv., en einn vildi láta samþykkja það óbreytt. Raunar vildu hinir það líka, en hafa þá einhverja sérstöðu, sem þeir munu gera grein fyrir. Auk þess hefir einn nm. borið fram brtt., sem ég veit, að hann mun gera frekari grein fyrir, og hv. 5. landsk. hefir borið fram aðra brtt. á þskj. 535, og býst ég við, að hann mæli fyrir henni. — Svo hefi ég ekki fleira um málið að segja í bili.