15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2389 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

32. mál, vegalög

Halldór Steinsson:

Hæstv. dómsmrh. taldi líklegt, að hæstv. forseti mundi taka gilda afsökun hans fyrir því að greiða ekki atkv. Getur verið, að hann geri það, en ég geri það ekki. Hæstv. ráðh. tók jafnóðum aftur með annari hendinni það, sem hann gaf með hinni. Öll ræða hans snerist um það að sanna, hver nauðsyn væri á þeim vegi, er ég flyt brtt. um, og framkoma hæstv. ráðh. í Nd. benti í þá átt, að hann væri veginum hlynntur. Því skil ég ekki, af hverju hann vill ekki fylgja málinu til streitu. Ef hæstv. ráðh. hefði beitt áhrifum sínum innan síns flokks í þessu máli eins og hann hefir gert í mörgum öðrum, gat hann hæglega komið brtt. fram í hv. Nd. Og hér ætti hún vissan sigur með stuðningi hans. En það ber vitni um, að hann hafi fylgt málinu heldur utangarna, að hann kemur nú með það að vilja ekki greiða atkv. Það er engin mótbára, að þetta geti orðið til þess að fella frv. Þótt það fari aftur til hv. Nd., þarf enginn að segja mér, að þessi breyt. geti leitt til þess, að frv. falli. Það er svo mikið áhugamál margra hv. þm. þar, að þeir mundu áreiðanlega sjá fyrir framgangi þess.