15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

32. mál, vegalög

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vona, að hv. þm. Snæf. meti að verðleikum þá hjálp, sem ég hefi veitt honum með því að sýna fram á nauðsyn vegarins. En þar sem nú er álitið, að aðeins sé einn dagur eftir af þingi, og hvor deildin samþykkir þau mál óbreytt, sem hún vill að gangi fram, og reynir engu að breyta, þá vona ég, að hv. þm. sjái, að það gæti orðið til að stöðva allt málið, ef ég færi nú að fallast á einhverjar brtt. Ég skil það vel, að hv. þm., sem ekki er landskjörinn, vilji tefla á tæpasta vaðið fyrir sitt kjördæmi. Það horfir dálítið öðruvísi við með mína afstöðu. Ég er með öllum vegum jafnt, hvar sem þeir eru á landinu. Og ég vil ekki tefla mörgum mjög nauðsynlegum vegum í hættu vegna eins vegar, sem einnig er mjög nauðsynlegur og á fyllsta rétt á sér.