04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (3204)

202. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég hefi leyft mér að bera þetta frv. fram eftir tilmælum bæjarstj. í Vestmannaeyjum. Eins og hv. þdm. vita, hefir verið heimilað fé á undanförnum þingum til viðgerðar og umbóta á höfninni í Vestmannaeyjum. Þetta hefir þó stundum verið meira í orði en á borði, vegna þess að ríkisstj. hefir lagt fram minna fé til þessa en hún hafði heimild til. Í fyrra t. d. var stj. heimilað að leggja fram 70 þús. kr. gegn 2/3 annarsstaðar að. Var þá unnið að dýpkun hafnarinnar og lagfæringu á görðum fyrir 95 þús. kr. og að bryggjugerð fyrir 38 þús. kr. En styrkur sá, er stj. hefir veitt, hefir enn ekki farið fram úr 25 þús. kr. Þetta bendir á, að ekki er alltaf hægt að reiða sig á þær tölur, sem standa í slíkum heimildum. Ég verð að láta óánægju mína í ljós yfir því, hve lítinn skilning hæstv. stj. hefir á þörfinni fyrir því að fullgera slíkt mannvirki sem höfnin í Vestm.eyjum er. Þegar athugað er, hve mikið fé bæði ríkið og bærinn er búið að leggja fram, þá er það illa farið að ganga ekki svo frá höfninni, að hún geti gefið fullan arð, sem hún gerir þá fyrst, þegar stærri skip geta lagzt við bryggjur þar. Eins og er, þá erum við Vestmannaeyingar hlaðnir þungum hafnargjöldum. En ég vil enganveginn mæla okkur undan þeim, meðan okkur er ekki ofboðið og meðan þau ganga að nokkru leyti til endurbóta á höfninni. Aðeins vona ég, að landsstj. líti á nauðsyn okkar til að gera þessi mannvirki trygg og arðberandi. Þess ætti líka að mega vænta af hverri réttlátri landsstj., ekki sízt þegar þess er gætt, að hér er um eign ríkisins að ræða.

Vestmannaeyjaflotinn er nú um 100 mótorbátar, sumir um 50 smál. að stærð. Auk þess 3–4 gufuskip. En þau verða að eiga heima og afgreiðast hér í Reykjavík, meðan ekki er bryggja til, sem þau geti lagzt við hjá okkur. Þörfin fyrir bryggju er því mikil. Síðastl. vor byrjuðum við á svonefndri Básaskersbryggju, eins og getið er um í grg. á þskj. 202. Væntum við samkv. heimild síðasta þings, að landsstj. myndi styrkja þá framkvæmd og fara að dæmi fyrrv. stjórna um slíkt. En þessi von brást. Stj. dró okkur allt sumarið á langinn og gaf engin bein svör um það, hvort hún myndi nota lagaheimildina að því er bryggjubygginguna snerti, og neitaði loks, þegar komið var haust, algerlega um þátttöku ríkissjóðs.

Ég vona, að hér verði einhver stakkaskipti á hjá hæstv. stj. Það er áreiðanlega ekki rétt að hlaupa ekki undir bagga við framhaldsbyggingu þessara hafnarmannvirkja, eftir allt það fé, sem landið og bærinn eru búin að leggja í þau. Oft hefir verið minnt á það hér á þingi, hvað landið sé búið að leggja mikið til Vestmannaeyjahafnar. Ég hefi fengið það framan í mig, þegar ég hefi verið að minna á nauðsyn okkar Vestmannaeyinga. Ég skal gefa Alþingi þakklætisviðurkenningu fyrir því, sem það hefir lagt til þessa máls undanfarið. Og það er ekki úr vegi að upplýsa, að það er nálægt einni millj. króna, sem ríkissjóður er búinn að láta af hendi rakna frá því vorið 1914, er fyrst var byrjað á verkinu samkv. lögum frá árinu á undan. En aðeins síðasta áratuginn, að árinu 1920 meðtöldu, hefir ríkissjóður fengið frá Vestmannaeyjum með beinum skattgjöldum til ríkisins 3.876.200 kr., eða nærri fjórar millj. Ég tel þar ekki tekjur landhelgissjóðs, sem innheimtar hafa verið í Vestmannaeyjum. Og tvö síðustu árin hafa tekjur ríkissjóðs þar numið um hálfri þeirri upphæð, sem ríkissjóður hefir alls látið af hendi til hafnarinnar. Tekjurnar voru árið 1928 nærri 568 þús. kr. og árið 1929 570 þús. kr. Svo að þar er komin á tveimur árum sú upphæð, sem svo oft og ítarlega hefir verið minnt á.

Þar sem um er að ræða jafnstórfellt framleiðsluhérað og Vestmannaeyjar, verður þing og stj. að hafa við nokkra víðsýni. Og það er vitanlegt, að staður, sem á tveimur árum geldur eina millj. króna til ríkissjóðs, verður enginn ómagi talinn, þó að búið sé að leggja þá upphæð á svo löngu árabili, 15 árum, til hafnarbóta, svo að framleiðslan verði öruggari.

Hafnargarðarnir hafa löngum verið taldir vonarpeningur. Í vetur hefir verið mjög brimasamt, en þrátt fyrir allar illspár undanfarinna ára hafa þeir staðizt þá raun enn sem komið er. En þó er það álitið nauðsynlegt að tryggja nokkurn hluta Hringskersgarðsins, eins og gerð er grein fyrir í fskj. við grg. frv., fundargerð hafnarnefndarinnar. Og ef það verður gert, eins og hér er farið fram á, tel ég, að sá garður allur sé svo vel frá genginn sem yfir höfuð er hægt, úr því að hann var ekki gerður sterkari í upphafi. Ég skal ekki fara nákvæmar út í, hvernig þetta verður gert, því að það er allt tekið fram á þskj. 202.

Þegar þetta mál fer til n., eins og ég treysti, þá mun ég leggja fyrir hana uppdrætti yfir það, sem ógert er ennþá við hafnargarðana.

Þá kem ég að hinu atriðinu, Básaskersbryggju, sem byrjað var á í fyrra. Hún er orðin algerlega stórnauðsynleg. Og hún er hugsuð þannig, að stór skip geti notað hana. Vöruflutningaskip, þurfa að geta lagzt við endann á henni. Þannig hefir vitamálastjórinn látið útbúa uppdrættina. Bryggjuhausinn verður að vera nokkuð breiður, því að það er ómetanlegt að geta afgr. þar einhver af hinum stærri skipum, sem koma með kol, salt eða taka fisk og annan útflutning.

Jafnhliða því, sem garðarnir hafa verið styrktir, hefir undanfarið verið unnið að því að dýpka höfnina, um eitt skeið með dýpkunarskipinu Uffe, og bar það hinn bezta árangur, betri en annarsstaðar þar sem hann hefir unnið hér á landi. En síðan Uffe var tekinn til annara hafna, hefir hafnarnefnd látið kafara vinna að dýpkuninni. Og árangurinn af upptöku grjóts úr höfninni hefir orðið svo góður, að fyrir nokkrum dögum var farið þar inn með saltskip, sem ristir 20 fet. Þó að seint þyki ganga, þá mundi það hafa þótt fyrirsögn árið 1913, þegar fyrst var flutt frv. til laga um hafnargerð í Vestmannaeyjum; að eftir ekki fleiri ár en síðan eru liðin mundi verða farið með 4 þús. smálesta gufuskip þar inn. Nýjasta rannsókn á botnlaginu í Vestmannaeyjahöfn hefir sýnt, að dýpkun hennar er vel framkvæmanleg langt fram yfir það, sem áður var áætlað. En það er mál, sem ekki liggur fyrir nú. Mér virðist eftir atvikum tiltækilegast, að höfnin sé byggð áfram og fullkomnuð smátt og smátt með framlagi frá bænum og ríkinu.

En það, sem mesta nauðsyn ber til í bili, er að styrkja Hringskersgarðinn til fulls, halda áfram að dýpka höfnina og hreinsa með þeim hætti, sem verið hefir undanfarin ár, og koma upp einni hafskipabryggju fyrir allan stórflutning, sem kemur eða fer frá eyjunum.

Ég get þess til skýringar þeirri upphæð, sem ég hefi farið fram á, að heimilað sé að veita, 110 þús., að þar er tekið með nokkru meira en 1/3 af kostnaði þeirra framkvæmda, sem nú eru fyrirhugaðar, en það er af því, að síðastl. ár var kostað til bryggjubyggingarinnar um 40 þús. kr. úr hafnarsjóði. Ég leyfi mér að bæta við þessum parti af því, sem unnið var fyrir síðastl. sumar, í þeirri föstu von, að stj. muni ekki bregða þeirri venju, að veita nokkurn styrk til framkvæmda, sem svo stendur á um. Ég orðlengi ekki meira um þetta. Vona, að málið fái að ganga til n. og legg þá til, að því sé vísað til sjútvn.