04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (3209)

202. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég vil leyfa mér að þakka samnm. mínum í sjútvn. fyrir þær till., sem þeir hafa gert, og hversu þeir hafa hraðað framgangi þessa máls að athuguðum málavöxtum. Ég hefi svo litlu við þetta að bæta nema vísa til álits n. á þskj. 378.

Eins og kunnugt er, hefir hafnarnefndin í Vestmannaeyjum gert ráðstafanir til, að þetta frv. er flutt hér. Það kom í ljós á línuvertíðinni, sem var óvenju fengsæl, og síðan hefi ég líka fengið fregnir af því, hve mikill bagi er af því, hvað bátum gengur illa að afferma sig og verða að bíða vegna þess að ennþá vantar bryggju.

Hin svokallaða bæjarbryggja er að vísu ágæt, en þegar 70–80 bátar koma að um svipað leyti, er það skiljanlegt, að þrengslin eru ógurleg. Og þó að til séu þrjár bryggjur auk bæjarbryggjunnar, sem einkafyrirtæki eiga, er það ekki nægilegt. Ég hefi nýlega fengið upplýsingar um það, hversu ákaflega bagalegt það var, að nýja bæjarbryggjan gat ekki komizt upp síðastl. sumar, eins og til stóð. Þröngin er svo mikil við bryggjuna, að bátaröðin er oft 5- eða 6-föld og töfin á afgreiðslunni verður því mjög mikil. En af því leiðir aftur, að sjómenn, sem ættu að njóta hvíldar meðan á uppskipun stendur, komast ekki til þess, svo sem þeir ættu rétt á, vegna þess hve tafsamt er að komast að bryggjunni.

Ég vil geta þess, að n. gerir ráð fyrir því, að samningar verði gerðir milli hæstv. stj. og bæjarstj. Vestmannaeyja um þeirra eldri skuldaskipti, en það er vegna ábyrgða, sem ríkissjóður hefir gengið í fyrir Vestmannaeyjahöfn. Það er náttúrlega eðlileg ósk beggja aðilja, að um leið sé athugað, hvort setja eigi þessi viðskipti í samband við framkvæmdir innan hafnar eða ekki. Um þetta vildi ég mega segja það frá mér sjálfum, að ég vona, að þessir samningar takist nú í náinni framtíð, og þá verði það haft fyrir augum, að á þeim árum, sem skuld hafnarsjóðs við Monberg var stofnuð, var tillag ríkissjóðs til Vestmannaeyjahafnar aldrei meira en ¼, en Vestmannaeyjabær greiddi ¾ hluta, eða svo var til ætlazt.

Eins og kunnugt er, hefir þingið síðan horfið frá þessari stefnu, og nú er kannske hægt að segja, að það sé aðalreglan — eða a. m. k. finnast þess nokkur dæmi —, að ríkissjóður greiði 1/3 eða jafnvel 2/5 hluta kostnaðar. Ég geri því ráð fyrir, að það væri sanngjarnt gagnvart Vestmannaeyjabæ, að afstaða hans til ríkisins væri endurskoðuð. Það er endurskoðun á þeim hluta kostnaðar, sem ríkissjóður í raun og veru ætti að bera vegna Vestmannaeyjabæjar. Ég býst við, að Alþingi álíti það sanngjarnt, að Vestmannaeyjahöfn verði sett á bekk með öðrum hafnarmannvirkjum. Það er t. d. fyrirhugað miklu meira framlag úr ríkissjóði til bryggjugerðar í Borgarnesi en lagt var fram úr ríkissjóði til Vestmannaeyjahafnar. Ég held líka, að mér sé óhætt að segja það, að sú skoðun kom fram í n., að við uppgerð þessa máls yrði að taka tillit til þess, hvað greitt hefði verið úr ríkissjóði á árunum 1914–1924.

Þá er annað atriði, sem er þýðingarmikið og afdrifaríkt mál fyrir Vestmannaeyjar, en ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í það nú mjög ítarlega, en vil þó drepa á það að nokkru.

Það er vitanlegt, að kostnaðurinn við hafnargerðina í Vestmannaeyjum stafar aðallega af hafróti eða skemmdum af völdum þess, en meðfram af því, að hafnarmannvirkin voru upphaflega fyrirhuguð allt of veik. Það hefir sýnt sig síðan.

Þegar byrjað var á hafnarbótum í Vestmannaeyjum árið 1914, vildu Vestmannaeyingar fá þangað norskan verkfræðing til þess að segja fyrir um, hvernig byggingu hafnargarðsins skyldi hagað. Þeir litu svo á, að staðhættir í Noregi líktust svo íslenzkum staðháttum, að það væri sennilegt, að norskur verkfræðingur mundi gera heppilegar till. um það, hvernig garðinn skyldi leggja. Þessu fengu Vestmannaeyingar ekki ráðið. Þáv. stj. leitaði til Danmerkur og fékk þar gamlan danskan verkfræðing, Helsingör, og réði hann mestu um, hvernig garðurinn var byggður. Meðan þessi verkfræðingur dvaldi í Vestmannaeyjum, var einstök veðurblíða. Afleiðingin af þessu var sú, að hafnargarðurinn var allt of veikur eins og hann fyrst var ákveðinn, og hefir ríkið og bærinn orðið að borga dýrt þá reynslu, sem fengizt hefir í þessu atriði.

Ég veit ekki, hvernig núv. hæstv. ríkisstj. lítur á þetta atriði, en ég lít svo á, að hinn stórkostlegi kostnaður, sem hefir orðið við hafnargerð í Vestmannaeyjum, stafi að mestu frá því, að skakkt var efnt til verksins í fyrstu, og eiga Vestmannaeyingar enga sök á því, eins og ég hefi þegar bent á. Landsstj. hafði yfirráðin um það, hvernig verkinu skyldi hagað. Þessu má ekki gleyma, þegar talin er skuld okkar Vestmannaeyinga.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál að sinni, nema tilefni gefist. Vestmannaeyjar eru svo dýrmæt og arðberandi ríkiseign, að þingið mun að sjálfsögðu vilja stuðla sem bezt að at vinnulífi mann, er þær byggja.