04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

202. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. þm. V.-Húnv. hefir nú látið fjármálaljós sitt skína í þessu máli eins og fleirum samskonar málum hér í þessari hv. deild. Ég held, að hann hafi nú talað í hverju einasta hafnarmáli af allmiklum myndugleik, og virðist enn ekkert af honum dregið.

Það var meining sjútvn., að skuldaskipti ríkissjóðs og Vestmannaeyja væru gerð upp. En ég get sagt hv. þm. V.-Húnv. það, að sjútvn. leit undantekningarlaust á þetta miklu vingjarnlegri augum en hv. þm. Hér ræðir um mjög aðkallandi framkvæmdir til þess að létta undir með atvinnurekstri manna og að stuðla að því, að verkamenn og sjómenn þurfi ekki að ganga fram af sér, heldur geti notið sæmilegrar hvíldar. En hv. þm. V.-Húnv. virðist ekki líta á annað en skuldahliðina og ríkissjóð.

Ég skal að svo stöddu ekkert fullyrða um þessar 200 þús. kr., sem hv. þm. talaði um. Það getur vel verið, að þegar hafnarnefnd tók þessar tölur upp úr landsreikningunum, hafi hún ekki haft síðasta landsreikninginn fyrir sér. En fyrst hv. þm. er svo tíðrætt um, hvað ríkið hafi látið af mörkum við Vestmannaeyjar, finnst mér, að jafnmikill fjármálamaður sem hv. þm. V.-Hún, sem allir vita að sýnt er um að fara með tölur, ætti að minnast þess, að síðastl. 10 ár hafa runnið í ríkissjóð frá Vestmannaeyjum nær því 4 millj. kr. Hér er því um þá þegna að ræða, sem vel borgar sig að styðja til framkvæmda. Ég held, að Vestmannaeyingar geti borið höfuðið hátt fyrir því, sem ríkið hefir ennþá orðið að láta af hendi við þá, því við höfum skilað drjúgum tekjum til ríkissjóðs.

Ég verð að segja hv. þm. V.-Húnv. eitt dæmi þess, hvaða erfiðleikar eru í Vestmannaeyjum vegna erfiðra staðhátta. Á sama tíma og í Reykjavík, Hafnarfirði og Ísafirði er greitt fyrir salt „frítt á höfn“ 26 sh., verðum við Vestmannaeyingar að greiða um 35 sh. Þessi munur er aðallega af því, að vátryggingarfélagið álítur höfnina svo hættulega. Væri hér um vörutegund að ræða, sem ekki þyrfti mikið af, væri þetta ekki þungbært, en þegar um er að ræða vörutegundir eins og salt og kol, kemur það hart niður á atvinnurekendum og öllum almenningi.

Ég geri ráð fyrir, að tekið verði á máli þessu með fullri sanngirni af beggja hálfu við samningsgerðina og að árleg greiðsla verði ekki svo há, að verulegum usla valdi og Vestmannaeyingar verði að leggjast undir höfuð nauðsynlegar hafnarbætur í framtíðinni

Ég skal svo ekki deila við hv. þm. V.Húnv. Ég ætla, að hæstv. stj. fylgist með þessu máli og sé samþykk þeim till., sem n. hefir gert um það.