04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

202. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Hannes Jónsson:

Mér þykir það einkennilegt, ef ekki má nefna þá fjárhæð með tölum, sem ríkið hefir varið í þarfir Vestmannaeyinga, án þess að hv. þm. þeirra rísi upp og brigzli manni um fjármálarembing eða eitthvað því um líkt. (JJós: Það dettur engum í hug að brigzla hv. þm. V.-Húnv. um slíkt). Hv. þm. var að tala um það í háði, að mér léti vel að fara með háar tölur.

Ég játa það, að ég nefndi háa tölu. Það er ekki hægt að tala um það fé, sem ríkið hefir lagt til Vestmannaeyja, nema fara með háar tölur. En hv. þm. getur ekki annan fremur ásakað fyrir það en sjálfan sig. Hann hefir sjálfur mest að því unnið, að þær tölur yrðu sem hæstar, og hann er alltaf að bæta við nýjum og nýjum ástæðum til þess, að nefna verður háar tölur í sambandi við fjárveitingar til Vestmannaeyja.

Hv. þm. notaði alllangan tíma til að svara minni stuttu ræðu. Talaði hann um, hvað þegnarnir í Vestmannaeyjum borguðu mikið til ríkissjóðs. Hann var nú búinn að nefna þær tölur áður, en mér finnst þær ekki hafa mikið að segja í þessu sambandi. Það kemur margt til greina, þegar fara á að gera upp á milli héraða um það, hvers þau eiga að njóta af ríkisfé, og væri það einkennileg regla, ef æfinlega ætti að miða við það, hvað mikið fé rennur í ríkissjóð úr hverju þeirra.

Mér finnst það ætti að tryggja það, að samkomulag náist milli ríkisstj. og bæjarstj. Vestmannaeyja um eldri skuldaskipti, með því að taka það fram í frv. sem skilyrði fyrir fjárveitingunni. Það er ekki nóg að taka það fram í nál., að það sé gert ráð fyrir því, að samkomulag náist um eldri skuldaskipti.

Ég held það sé ekki ástæðulaust, þó ögn sé á þetta minnzt, þegar í uppsiglingu eru lög um hafnargerðir hér og þar úti um landið, sem sumar munu jafnvel verða eins dýrar og höfnin í Vestmannaeyjum. Menn verða að gera sér ljóst, hvað ríkissjóði er fært að leggja til þessara framkvæmda.