04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2408 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

202. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það eru örfá orð út af deilu hv. þm. Vestm. og hv. þm. V.- Húnv. og um afstöðu mína til þessa máls.

Ég held það hafi verið einróma álit allra nm., að ekki mundi vera hægt að sporna á móti þessu fjárframlagi til hafnarinnar í Vestmannaeyjum, hvað sem gömlu skuldaskiptunum liði. Það er þegar búið að leggja svo mikið fé í þetta mannvirki, að nauðsynlegt er að ganga svo frá því, að það komi að fullum notum. Ég fyrir mitt leyti er frv. eindregið fylgjandi, einkum með tilliti til þarfa hins mikla sjávarútvegs á þessum stað.

Hinsvegar vil ég jafnframt láta gera það, sem hægt er, til þess að samningar náist um hin eldri skuldaskipti.