04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2416 í B-deild Alþingistíðinda. (3237)

213. mál, skurðgröfur

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég tel, að þetta frv. fari í rétta átt, það sem það nær. Ég veit, að það er mikil þörf á þessum stóru verkfærum, til þess að vinna hin stóru verk. En ég vil minna á í þessu sambandi, að enn hefir ekki tekizt að útvega hentugar skurðgröfur til að grafa með litlu skurðina. Fyrir slíkar skurðgröfur væri þó þörfin allra brýnust. Vil ég því skjóta því til hv. n., hvort hún álítur ekki rétt að veita ríkisstj. jafnframt heimild til að kosta nokkru til tilrauna með áhöld til að grafa smærri skurðina, og til að láta sníða nýjar tegundir af litlum skurðgröfum, með tilliti til íslenzkra staðhátta.