15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (3246)

213. mál, skurðgröfur

Frsm. (Jónas Kristjánsson):

Frv. þessu fylgdi allítarleg grg., er það var lagt fyrir hv. Nd., og þarf ég því fáu við að bæta. Frv. er talsvert merkilegt, því að markmið þess er að auka ræktunina í landinu og leggja undir hana ónumin lönd. Svo hagar til hér á landi, sem kunnugt er, að mikið af grasi grónu landi er mýrlendi og óræktað. Er talið, að 6 hektarar af mýrlendi gefi af sér kýrfóður, en af ræktuðu landi 1½ hektari. En til þess að hægt sé að rækta, er framræsla mýranna nauðsynleg, og með mannafla einum er hún mjög kostnaðarsöm. Þess vegna er mikil framför að því að fá vélar til að hjálpa til við þennan gröft, þegar þær gera verkið ódýrara. Við höfum nú fengið tvær slíkar skurðgröfur hingað til lands fyrir fáeinum árum. Hefir önnur verið norður í Skagafirði, en hin var notuð við Skeiðaáveituna. Mér er betur kunn sú skurðgrafan, sem verið hefir nyrðra. Henni er ætlað að vinna á sléttlendum og blautum mýrum, og þarf hún vatn undir sig til að geta unnið. Hefir hún reynzt bæði stórvirk og ódýr í rekstri. En þetta eru þó svo dýr verkfæri, að ekki er á færi einstaklinga að afla sér þeirra. Nú er mér sagt, að í uppsiglingu séu fleiri tegundir svona véla, sem geti unnið á hallandi mýrum, en þær eru oft einmitt mjög vel fallnar til túnræktar. Hér vantar enn reynslu fyrir þessum skurðgröfum, og þarf að fela ráðunautum Búnaðarfélagsins tilraunir í því efni. Þegar til kemur, höfum við þörf fyrir margar slíkar skurðgröfur.

Í frv. þessu eru fyrirmæli um kaup og rekstur á skurðgröfum. 1. gr. heimilar stj. að kaupa fyrst um sinn eina skurðgröfu á ári, og jafnvel að láta smíða þær, ef hentara þykir. Í 2. gr. er síðan gert ráð fyrir, að rekstur skurðgrafnanna verði falinn Búnaðarfélagi Íslands. Mun það sjá um undirbúning allan, tilraunir og áætlanir. Þá eru í frv. fyrirmæli um félög, sem bændum er ætlað að stofna til að fá skurðgröfurnar til að vinna fyrir sig, og loks er sagt fyrir um styrki úr ríkissjóði til starfrækslunnar. Á hann að greiða 1/3 kostnaðar af rekstrinum og auk þess allan flutning af einum stað til annars.

Ég treysti mér ekki til að segja um það, hve mikil árleg útgjöld verða af frv. þessu, ef það verður að lögum, en ég fullyrði, að þau verða ekki mikil móts við það gagn, sem af því hlýzt fyrir landbúnaðinn.

Landbn. leggur óskipt til, að frv. verði samþ. óbreytt.