06.03.1930
Efri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2423 í B-deild Alþingistíðinda. (3258)

78. mál, áfengislög

Jón Þorláksson:

Ég held, að ég hafi við 1. umr. þessa máls mælzt til þess við hv. allshn., að hún tæki það til athugunar, hvort ekki væri rétt að gera fleiri brtt. við þessa löggjöf, og þá einkanlega sektarákvæðin. Þetta virtist mér rétt að taka til athugunar í sambandi við dóma, sem fallið hafa.

Ég hefi heyrt það sagt af kunnugum mönnum, að dómurum virtust núgildandi sektarákvæði svo grimmdarfull, að þeim þætti þyngra að verða að beita þeim heldur en að hafa framið brotið, sem dæma á fyrir. Mér er kunnugt um eitt slíkt tilfelli, sem einmitt kom fyrir í kjördæmi hv. 2. þm. S.-M., en það var þannig, að maður nokkur bjó til öl til heimanotkunar, en eitt sinn varð það nokkru sterkara en lög leyfðu. Þetta komst upp og maðurinn var ákærður og var dæmdur, að því er ég held, í 1.000 kr. sekt, en þar sem þetta var fátækur maður, duldist það hvorki dómaranum né öðrum, að þetta myndi verða mjög þungt gagnvart konu og börnum. Ég hefi ekki kynnt mér þetta mál nægilega sjálfur, en hinsvegar hefi ég átt tal við dómara, sem hafa álitið þetta óhæfu. Nú vildi ég spyrja hv. n., hvort hún hafi athugað þetta mál og spurzt fyrir um það, og hvort henni virtist ekki rétt að breyta þessum ákvæðum nú, þótt það sé vitanlega leiðinlegt að breyta lögunum svo fljótt.