06.03.1930
Efri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

78. mál, áfengislög

Jón Þorláksson:

Ég get ekki óskað mér neinnar betri málfærslu fyrir því, sem ég hafði gert að athugunarefni, heldur en þessa ræðu hv. 2. þm. S.-M. Hann segir, og það er rétt, að bannlögin gera yfirleitt í refsiákvæðum mjög verulegan mun á því, hvort brotin eru framin í atvinnu- og ágóðaskyni eða ekki, og allir eru sammála um, að svona á þetta að vera. Refsiákvæðin eiga að vera hörð, þegar brot eru framin í atvinnu- og ágóðaskyni, en vægari, þegar ekki er um það að ræða.

Nú veit ég ekki, hvort hv. þm. hefir átt við sama mál úr Suður-Múlasýslu og ég átti við. Hann fullyrðir, að sá maður hafi gerzt brotlegur við bannlögin með því að selja heimatilbúið öl, sem var sterkara en lög leyfa. En í því tilfelli, sem ég ræddi um, sannaðist það ekki í málinu, að hlutaðeigandi hefði selt neinum eða látið af hendi of sterkt öl. Og dómarinn, sem ég nefndi, tjáðist ekki hafa getað dæmt hann fyrir það, að hafa brotið bannlögin í ágóðaskyni. Því að hvað sem einn eða annar kann að álíta um brotið, verður dómarinn að heimta, að brotið sannist. En hitt sannaðist, að maðurinn hafði búið til og notað sjálfur sterkara öl en lög leyfðu, og þetta var hann dæmdur fyrir. En það er yfirsjón í lögunum, að í þessu tilfelli er ekki gerður greinarmunur á því, hvort brotið er framið í ágóðaskyni eða ekki. Þetta á að laga. En hitt er ákaflega léleg úrlausn á málinu, sem hv. 2. þm. S.-M. benti á, og sem hafi verið eða verði tíðkuð, að enginn vildi kæra og enginn vildi rannsaka, þegar heimabruggun færi fram eingöngu til eigin notkunar, þó að bruggað sé sterkara öl en leyft er.

Þarna gerir réttarmeðvitund almennings vart við sig. En það er ekki betra að hylma yfir og láta lögin sofa heldur en að breyta refsiákvæðum, sem eru svo ströng, að framkvæmd þeirra er meira brot á réttarmeðvitund almennings en sjálft áfengislagabrotið, sem verið er að refsa fyrir. Það, að hafa löggjöfina svona, er einmitt til þess að veikja hana. Það er æskilegast, að löggjöfin sé með svo samræmdum refsiákvæðum, að bæði almenningur og dómarar sjái sér fært að framfylgja þeim að fullu. En hv. þm. verða að kannast við, að svo er ekki.

Annars má segja, að mér farist ekki að tala um þetta við þessa umr., þar sem ég hefi ekki komið með brtt., og skal ég þess vegna láta hér staðar numið. En ég get alveg eins vel og hv. n. tekið til athugunar, hvort ekki sé rétt að bera fram brtt. við 3. umr., ekki til þess að veikja löggjöfina, heldur til þess að samræma hana og styrkja.