14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (3274)

78. mál, áfengislög

Magnús Guðmundsson:

Hv. frsm. minni hl., sem svo kallar sig, kom hér með dálítið einkennilega afsökun á afgreiðslu málsins í allshn. En af því að hann beiddist afsökunar á því, skal ég ekki fara út í það. Ég vil aðeins geta þess, að sama dag og þetta nál. er skrifað var haldinn fundur í allshn. og var þetta frv. þar til meðferðar, gegnumlesið og yfirfarið, en engin ákvörðun tekin. En þennan sama dag taka hv . 2. þm. Árn. og hv. 2. þm. Reykv. sig saman og skrifa nál. og þykjast þá vera minni hl. (MT: Það var á mánudag). Það var sama daginn. Hv. þm. hefir afsakað þetta frumhlaup, og sú afsökun hefir þegar verið gild tekin, og skal ég því ekki ræða þetta meira. Hv. 2. þm. Reykv. var ekki á fundi þegar þetta mál var fyrir tekið í n. og á því sennilega ekki sök á þessari aðferð.

Það, sem ég lét í ljós á nefndarfundinum, var einkum það, að ég vildi athuga, hvort rétt væri í lögreglumálum eins og hér er um að ræða að viðhafa refsireglur hegningarlaganna um hlutdeild. — Þetta hefir hv. 2. þm. Árn. fundið, að var athugunarvert og vill nú aðeins láta þessar reglur gilda um brot, framin í ávinningsskyni. Þetta verður reglugerðaratriði, og ég skal ekkert segja um, hvort sá ráðh., sem gefur út reglugerðina, fer eftir þessari ósk hv. 2. þm. Árn. En geri hann það ekki, þá skal ég segja hv. 2. þm. Árn. það, að sá verður brotlegur gegn þessum lögum, sem þiggur „snaps“ hjá öðrum, ef hann skyldi vera ranglega fenginn. Hv. frsm. á því þetta alveg undir ráðh., og furðar mig ekki, þó hann uni því sæmilega, þegar hann er farinn að kalla sig „Jónasarmann“.

Annars er það um þetta frv. að segja, að það gerir ýmist að herða á lögunum eða lina, eins og hv. frsm. tók réttilega fram. Það er t. d. herðing, að í 5. gr. frv. er svo ákveðið, að gjaldið, sem ákveðið er í 27. gr. laganna að greiða skuli, auk sektarinnar, fyrir hvern lítra af áfengi, sem inn er fluttur óleyfilega, skuli teljast sekt, því þá má einnig láta afplána hana í fangelsi. Efast ég um, að þetta sé rétt, þegar af þeirri ástæðu, að það er dýrt fyrir það opinbera að láta afplána mikið af sektum.

Aftur er það mikil linun á lögunum, ef 6. gr. er samþ., því áður varð að láta menn sæta fangelsi fyrir bruggun, þó þeir hefðu aðeins bruggað handa sjálfum sér. Tel ég þessa breyt. til bóta, að ekki sé refsað með fangelsi nema fyrir bruggun í gróðaskyni. Þekki ég þess ljót dæmi frá málafærslumannsstarfi mínu, hvað ákvæði þessara laga gátu komið óeðlilega hart niður.

Fátækir verkamenn, sem brugguðu öl handa sjálfum sér aðeins, urðu að sæta fangelsi.

Lakast er mér við það ákvæði frv., að setja megi reglur um að refsa fyrir hlutdeild. Ákvæðin um hlutdeild hafa ekki gilt nema um brot eftir alm. hegningarlögum. En annars eru svo mörg refsiréttar-„princip“ brotin með þessum lögum, að ég er ekki svo mjög hræddur við að bæta einu slíku broti við. Og ég vil raunar styðja að því, að sem mest sé farið eftir till. þeirra manna um þetta efni, sem halda vilja uppi ströngu banni, til þess að það sjáist fyrir víst, hvort gerlegt er að halda uppi banni eða ekki.