06.02.1930
Neðri deild: 16. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (3299)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Tilefni þess, að till. til þál. um björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar er fram komin, eru atburðir þeir, er skeð hafa með strandi björgunar- og eftirlitsskipsins Þórs, og í sambandi við þann atburð. Sá atburður, að Þór strandaði rétt fyrir áramótin, hefir orðið til þess, að svo virðist, sem það sé skoðun hæstv. stj., að með þeim atburði sé sá samningur niður fallinn, sem gerður var milli ríkisstj. og björgunarfélags. Vestmannaeyinga 1926. Þetta hefir nú að vísu ekki komið alveg skýrt fram hjá hæstv. stjórn. En í skeytum þeim, sem Vestmannaeyingum hafa borizt frá stjórnarráðinu, lá nærri að ætla, að þessi skilningur lægi til grundvallar þeim úrskurði, er stjórnarráðið gaf. Ég verð því að álíta, að það atriði samningsins frá 1926, að ríkisstj. skuli halda Þór úti sem björgunar- og eftirlitsskipi við Vestmannaeyjar, „meðan skipið er vel til þess fært“, sé sá snagi, er ríkisstj. hengir hatt sinn á með þeirri neitun, er hún hefir gefið.

Hér gerist engin þörf að segja sögu Þórs né Björgunarfélags Vestmannaeyinga. Þegar Þór var fyrir 10 árum síðan keyptur sem björgunar- og eftirlitsskip, þá var það gert af ítrustu og brýnustu nauðsyn. Þetta var að nokkru gert fyrir hvöt og framlag einstakra manna, en bær og ríki studdu til framkvæmda. En brátt kom í ljós, að auk síns aðalhlutverks, þá fór skipið einnig brátt að vinna fyrir ríkið, með því að taka togara að ólöglegum veiðum. Og þótt Þór væri ekki góður til þeirra hluta, þá var það þó svo á þeim árum, að útlendu togararnir voru ekki vanir neinum skörungsskap um landhelgisvarnirnar og vöruðust því ekki gæzlu Þórs, enda varði skipið landhelgina vel.

Ég vil leyfa mér að halda því fram, að þetta framtak Vestmannaeyinga hafi orðið til þess að uppörva þing og stj. um að hefjast handa með björgun og vörn á fiskimiðum landsmanna. Og ég held, að einmitt þetta skip hafi vakið Íslendinga til umhugsunar um að taka sjálfir að sér strandvarnirnar og hvatt til framkvæmda í því máli. Það, sem gerðist 1926, að ríkið keypti Þór með þeim ákvæðum, að honum skyldi verða haldið úti við Vestmannaeyjar yfir vetrarvertíðina, vil ég einmitt skoða sem viðurkenningu á því mikla starfi og framlagi, sem héraðið hafði lagt í sölurnar fyrir þetta mál.

Ég vil áður en ég kem nánar að því atriði, hversu öfugt mér finnst hæstv. núv. stj. hafa snúizt við þessu máli nú, fara nokkrum orðum um þær forsendur, sem lágu fyrir þeirri samningagerð, er hér um ræðir.

Í þál. þeirri, er samþ. var 1926, kemur fram sama orðalag og sett var í samninginn. Vil ég því, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp:

„Alþingi ályktar að samþykkja kaup ríkisstjórnarinnar á björgunar- og eftirlitsskipinu „Þór“ fyrir allt að 80 þús. krónur, með því skilyrði, að ríkið láti skipið framvegis, meðan það er vel til þess fært, halda uppi á kostnað ríkissjóðs samskonar björgunar- og eftirlitsstarfsemi við Vestmannaeyjar í 3½–4 mánuði (vetrarvertíðina) árlega sem það hefir haft á hendi undanfarin ár, enda leggi bæjarsjóður Vestmannaeyjakaupstaðar árlega fram 15 þús. kr. til útgerðar skipsins“.

Þetta var ályktun þingsins þá, og á þeim grundvelli var samningurinn gerður. En til þess að sýna, með hvaða huga Vestmannaeyingar gengu að þessu, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, einnig lesa upp ályktun Björgunarfélags Vestmannaeyja, og sem stendur í framsöguræðu minni frá 1926. Hún hljóðar svo:

„Í fullu trausti þess, að ríkisstjórnin haldi áfram í framtíðinni björgunar- og eftirlitsstarfsemi þeirri hér við Vestmannaeyjar, sem Björgunarfélagið hefir gengizt fyrir til þessa, samþykkir aðalfundur Björgunarfélagsins að gefa félagsstjórninni fullt umboð til þess að selja ríkisstjórninni björgunarskipið Þór, við því verði og með þeim skilmálum, sem teknir eru fram í bréfi forsætisráðherra til félagsins, dags. 3. des. 1925“.

Hér er það ljóslega sýnt, með hvaða hug við Vestmannaeyingar göngum að þessum samningi. Við gerum það í fullu trausti þess, að þetta mál sé vel tryggt í framtíðinni. En til þess að sýna, hvernig sú stj., er þá fór með völd, leit á þetta mál, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upphaf ræðu, er þáv. forsrh. (J. M.) hélt um þetta mál. Hann sagði svo:

„Þessi till. er borin fram af sjávarútvegsnefndum beggja deilda og í samráði við stjórnina. Það hefir þótt réttara og tryggara að öllu leyti, að Alþingi legði samþykki sitt á þennan samning. Að vísu hafði stjórnin heimild til að kaupa skipið samkv. lögum, sem. samþ. hafa verið fyrir löngu, og í þeim felst og heimild til þess að ráðstafa rekstri skipsins og notkun um sinn, en vegna þess að samningurinn við Björgunarfélag Vestmannaeyja lítur nokkuð fram á leið, þá þótti réttara að bera málið undir þingið“. .. .. Og í sömu ræðu segir ennfremur svo: „Eðlilega er ekki hægt að fara lengra hér en að binda samningana við þetta skip, en ég býst við, að þó annað skip yrði sett í stað Þórs, yrði fylgt svipaðri reglu“.

Hér kannast þáv. forsrh., Jón heit. Magnússon, við það, að stj. hafi í raun og veru haft vald til að ákveða kaupin á Þór án þess að kveðja þingið til þess. Sama skoðun kemur líka þá greinilega fram í ræðu núv. hv. 4. landsk. (JBald). En ég býst við, að ástæðan til þess, að þáv. stj. vildi þó leggja þetta mál fyrir þingið, felist einmitt í þeim orðum þáv. hæstv. forsrh., að „samningurinn lítur nokkuð fram á leið“ og að „þó annað skip yrði sett í stað Þórs, yrði fylgt svipaðri reglu“.

En ég ætla ekki að þreyta hv. deild með því að endurtaka öll hin vinsamlegu ummæli, sem þá féllu í garð Vestmannaeyinga vegna starfsemi þeirra í björgunar- og eftirlitsmálinu og um réttmæti þess, að ríkið létti þessum störfum af þeim að miklu eða öllu leyti. Þau ummæli er víða að finna. En ég vildi með því, sem ég hefi tilfært, sýna, í hvaða anda þessi samningur var gerður. Og ég vil vekja athygli manna á því, að orðalagið er einmitt miðað við það, að Þór var gamalt skip, en Björgunarfélagið hafði ekki um annað skip að semja. Það mun því hafa verið efst í huga allra, að björgunar- og eftirlitsstarfið væri aðalatriðið í málinu. Hitt væri aukaatriði, hvað skipið héti, sem til þess væri notað. Þá var hv. 3. landsk. fjmrh. Það var álit hans þá, og er enn, að aðalástæðan fyrir réttmæti þess, að ríkið keypti Þór og héldi honum úti sem björgunar- og eftirlitsskipi á sama hátt og áður hafði gert verið, væri sú, að með því gæti ríkið haft það í sinni hendi, að til þessa starfa væri ávallt notað nógu traust skip. Hætta lægi í því fyrir björgunarstarfið og skipverja sjálfa, ef haldið væri áfram að nota Þór til þess, ef til vill lengur en hann væri til þess fær. Hinsvegar ef ríkið ætti skipið, þá gæti það ávallt ráðið því, hvaða skip væri notað. Ég hygg og, að þáv. hæstv. atvmrh. (MG), sem enn á sæti hér í þessari hv. deild, hafi haft líka skoðun á þessu máli. Ég hygg, að hann sé sammála mér um, að í þessum anda hafi samningarnir þá verið gerðir. Og það er vitanlegt, að Vestmannaeyingar hefðu aldrei sleppt Þór úr sinni hendi, hefðu þeir ekki talið sig hafa fulla tryggingu fyrir því, að björgunar- og eftirlitsstarfseminni yrði haldið áfram við Eyjarnar. Ég tel, að við höfum siðferðislegan rétt til að krefjast þess, hvað sem þeim lagalega rétti kann að líða.

Þegar því fréttin um, að Þór hefði farið í strand barst til mín og ég hafði frétt, að skipshöfnin var heil á húfi, þá varð sú hugsun fyrst fyrir mér, að þetta þyrfti ekki að verða til tjóns, hvorki ríkinu né Vestmannaeyingum. Þór myndi hafa verið vátryggður og hægt mundi vera að fá jafngott skip aftur fyrir vátryggingarupphæðina.

Nú vil ég koma að því, að áður en Þór strandaði, hafði ég fengið bréf frá ríkisstj. um það, að ég sæi um, að það 15 þús. kr. tillag frá okkur, sem greiða átti samkv. samningnum frá 1926, yrði greitt. Þetta tillag var eigi farið að greiða nema að nokkru leyti, enda þótt það hefði verið sett á fjárhagsáætlun bæjarins öll árin. Ég skal taka það fram, að mér þótti mjög miður, að sá dráttur á greiðslunni hafði átt sér stað, að gjaldið hafði ekki verið greitt, eins og vera bar. Af þremur greiðslum var aðeins ein greidd, en tvær ógreiddar. En þar sem þetta hafði verið tekið á fjárhagsáætlun, er engu hægt um að kenna, að svo fór, öðru en drætti hjá þeim manni, er sjá átti um greiðsluna.

Ég tek þetta sérstaklega fram af því, að ég hefi rekið mig á þau ummæli í hlaði einu, sem hefir verið gefið hér út um hríð, að þetta hafi verið viljandi gert af mér. Það er hinsvegar alveg rangt, því að mér þykir það leiðara, að þetta skuli hafa dregizt, en þrátt fyrir þetta álít ég, að hér geti alls ekki verið um samningsrof að ræða. Ég fékk bréf frá ráðuneytinu rétt áður en Þór strandaði, og svaraði ég því svo að segja um hæl með símskeyti. Nokkru síðar var kallaður saman bæjarstjórnarfundur, sem samþykkti, að kostnaðurinn skyldi greiddur, og bæjarstjóra falið að annast málið. Hann svaraði síðan ríkisstj. og ákvað, að féð skyldi greitt verða á tilteknum degi.

Til þess að skýra málið nánar fyrir hv. þdm. vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þau skeyti, sem fóru milli stj. og Vestmannaeyinga. Fyrsta skeyti frá hæstv. dómsmrh. kom til Eyja 2. jan., og hljóðaði það svo:

„Út af bréfi yðar 19. f. m. um greiðslu 30 þús. króna skuldar bæjarsjóðs Vestmannaeyja til ríkisins vegna veru varðskipsins Þórs við Eyjarnar tekur ráðuneytið það fram, að greiðslufrestur sá veitist, er þér beiðist, sem sé til miðrar vertíðar. Ennfremur skal tekið fram: samningsskylda til að hafa skip við Vestmannaeyjar er að vísu fallin niður, að líkindum að fullu og öllu, en ráðuneytið sér nauðsynina á, að skip sé þar, og býðst því hér með til að hafa þar á næstu vertíð vitaskipið Hermóð sem varðskip þann tíma, er Þór mundi hafa verið látinn vera þar, og á sama hátt, gegn því að bæjarsjóður Vestmannaeyja greiði ráðuneytinu 15 þús. kr. fyrir. Svar umbiðst þegar“.

Þarna er sem sagt með tilmælum bæjarstj. og samþykki ríkisstj. sáttmáli ger, og þann sáttmála munu Vestmannaeyingar reyna að standa við. Stj. segir að vísu í skeytinu, að samningar séu að líkindum niður fallnir, en þau ummæli segja ekki, að svo sé, enda lítum við í Eyjum svo á, að svo væri ekki. Hinsvegar sáum við mætavel, að stj. fullnægði ekki kröfum okkar með því að láta okkur fá vitaskipið Hermóð, því að það var talið ófært af öllum sjómönnum og öðrum, sem til þekktu. Við vildum gjarnan sætta okkur við að hafa Hermóð til netagæzlu, þegar fram á kæmi og veður tæki að batna, því að vitanlega er hvorki hægt að binda Óðin né Ægi við slíkt. Sú gæzla er líka miklu staðbundnari en björgunargæzla, því að þá hefir skipið nóg svigrúm til að gæta landhelginnar líka. Netaveiðar eru hinsvegar reknar á vissu svæði úti í hafi, og það má svo að orði kveða, að þar hafi Vestmannaeyingar skapað sér nokkurskonar landhelgi fyrir sig, og þar getur ekki komið til mála að binda varðskipin. Þetta var bæjarstj. ljóst, og svaraði hún skeyti ráðuneytisins þann 7. jan. á þessa leið:

„Bæjarstjórn þakkar símskeyti ráðuneytisins viðvíkjandi greiðslufresti á því, sem ógreitt er fyrir veru Þórs hér við Eyjar undanfarið, sömuleiðis fyrir tilboð um annað gæzluskip í stað Þórs, og leyfir sér út af því að taka fram eftirfarandi:

Bæjarstjórnin lítur svo á, að til þess að hafa á hendi björgunarstarfið aðallega fyrri hluta ársins sé lífsnauðsyn að hafa skip, sem ekki sé minna né á neinn hátt lakara en Þór var, og fer því fram á, að ríkisstjórnin láti Óðin eða Ægi hafa á hendi björgunarstarfsemi fram á netavertíð, eða þar til ríkið hefir ráð á öðru skipi til þess, er sé a. m. k. jafnoki Þórs. Bæjarstj. lítur svo á, að þetta sé vel fært fyrir varðskipin, þó þau hafi á hendi landhelgisgæzlu við suðurströndina samtímis. Hinsvegar álítur bæjarstj., að vitaskipið Hermóður geti komið að nokkru gagni í bili við gæzlu netanna, þegar þar að kemur, svo fremi hann sé útbúinn með samskonar tækjum og Þór var. Þó vill bæjarstj. taka það fram, að hún telur, að gæzla Hermóðs, ef til kemur, sé aðeins bráðabirgðaráðstöfun, þangað til ríkið hefir skip til gæzlunnar, er komi að öllu leyti í stað Þórs og sé að öllu leyti eins hæft til þess, bæði hvað stærð og annað snertir, allt samkv. samningi þeim, er gerður var þegar Þór var seldur ríkinu. Bæjarstjórn vill taka það fram, að hún telur sér skylt að greiða ríkissjóði hina samningsbundnu upphæð fyrir björgunar- og eftirlitsstarfið framvegis eins og hingað til“.

Þessu skeyti svaraði hæstv. dómsmrh. næsta dag á þessa leið: ,.Samningsskylda ríkisstj. til að hafa sérstakt skip við Vestmannaeyjar er fallin niður. Óhugsandi að binda mánuðum saman á einu svæði, þar sem skip þessi, Óðinn og Ægir, verða að verja alla landhelgi landsins. Eina skipið, sem hugsanlegt er að staðbinda við Vestmannaeyjar, er Hermóður. Bæjarstj. Vestmannaeyja verður því að svara skýrt játandi eða neitandi, hvort hún æskir, að Hermóður verði nú í vetur gæzluskip við Eyjarnar eins og Þór var áður, með skilyrðum þeim, sem tilgreind eru í skeyti ráðuneytisins 2. jan.“.

Ég vil taka það fram, að þegar þetta skeyti kom, voru uppi raddir um það, að þetta væri algerlega ófullnægjandi, en aftur á móti samþ. meiri hl. bæjarstj. að beygja sig undir þetta valdboð stj., því að valdboð verður þetta að kallast. Ennfremur duldist það engum, að sá fyrirsláttur stj., að ekki væri hægt að staðbinda Óðin né Ægi, var ástæðulaus, því að þau eru svo hraðskreið, að þau geta auðveldlega gætt landhelgi við suðurströndina, þótt þau annist björgunarstarfið við Eyjar.

Hitt var eins víst, að vitaskipið Hermóður er alveg ófullnægjandi til þess starfs, og ef það er ekki komið fram þegar, mun það koma fram síðar. Þar sem bæjarstj. virtist ekki eiga annars úrkostar, svaraði hún skeyti ráðuneytisins á þessa leið:

„Bæjarstjórnin samþykkir eftir atvikum að taka tilboði ríkisstj. um vitaskipið Hermóð, er komi hér í vetur í stað Þórs sem björgunar- og eftirlitsskip. Með skírskotun til þess, er bæjarstjórnin hefir sagt í skeyti 7. jan. síðastl., væntir hún þess fastlega, að ríkisstj. sjái svo um, að strandgæzluskipin Óðinn eða Ægir verði höfð að staðaldri á vetrarvertíðinni svo nálægt Eyjum, að þau geti komið fljótt til hjálpar bátum, ef Hermóði yrði björgunin ofvaxin vegna stórveðra eða af öðrum orsökum. Leyfir bæjarstjóri sér að vitna til samtals við skrifstofustjóra ráðuneytisins um þetta atriði“.

Ég hefi þá, með því að lesa upp þessi skeyti, sýnt glögglega fram á, hvaða afstöðu stj. tók til þessa máls eftir að Þór strandaði vestur á Húnaflóa, og í hvaða anda samningar voru gerðir 1926. Ég geng út frá því, að eina ástæðan fyrir ríkisstj. til að álíta okkur réttlausa, sé, að skylda ríkisins sé fallin burtu þegar Þór var ekki lengur fær til gæzlunnar, en hún getur ekki ásakað okkur fyrir að hafa trassað rétt úr hendi okkar með því að svíkjast undan greiðslum, því að um skuldina var búið að semja áður en Þór strandaði. Ég vil þá benda á það, að jafnvel þótt Alþingi vildi ekki líta á sanngirnishlið þessa máls, heldur vildi halda sér við orðalagið eingöngu, þá hlyti það að vera á annari skoðun en hæstv. stj., ef það vildi ekki haga sér eins og bragðarefur eða „prokurator“, sem leitar að smáglompum til að smeygja sér frá gerðum samningi. Vitanlega var ríkisstj. skyld til að annast um, að skipið væri haft til gæzlunnar svo lengi sem Þór gat séð um hana. Það, sem átt var við, var vitanlega traustleiki og aldur skipsins, en ekki þótt það yrði ófært til gæzlunnar vegna árekstrar eða vegna strands. Þetta mál er svo þýðingarmikið fyrir okkur Vestmannaeyinga, að við eigum ekki annað mál, sem er okkur þýðingarmeira eða hjartfólgnara. Það eru þó ekki Vestmannaeyingar einir, sem hér eiga hlut að máli, heldur fjöldi manns úti um land. Um vertíðina þyrpist fólk víðsvegar að til Eyjanna og mörg hundruð manns úr öllum landshlutum eru þar á skipum, svo að ráðstafanir verður einnig að gera þeirra vegna og þeirra ættmenna.

Hversu mjög þetta mál snertir hjartataugar svo að segja hvers einasta manns og konu, sýnir álit kvenfólksins þar eystra. Mér var nýlega sent símskeyti frá tveim ágætum konum, sem stóðu fyrir kvennafundi, sem haldinn var í Eyjum, og safnað hafa undirskriftum 937 kvenna að áskorun til ríkisstj. um að fá betra skip en Hermóð til gæzlunnar. Það sjá allir, að Hermóður er ófær, jafnvel konunum liggur það í augum uppi, því að skipið er bæði minna og eldra, en þótt það sé máske hraðskreiðara, sannar það ekki að það sé sjófærara. Vildi ég svo, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þetta skeyti:

„Biðjum yður að játa stjórn og þing vita, að á leiðinni sé almenn áskorun til þessara stjórnalvalda um, að hér sé ávallt á vertíðinni fullkomið björgunarskip til tryggingar lífi sjómanna og velferð heimila þeirra.

Áskorunin er undirrituð af 937 konum hér í Eyjum og borin fram af þeirri meginhugsun, að skipið Hermóður sé ekki nægilega fullkomið til björgunarstarfsemi hér, eins og fram kom á almennum kvennafundi um þetta mál 27. þ. m.“.

Skeytið er undirritað að frú Ingibjörgu Theodórsdóttur og frú Elínborgu Gísladóttur.

Ég býst við, að það sé tæplega þörf fyrir mig að eyða tíma hv. þdm. í að flytja fleiri rök að þessu máli. Eins og liggur í augum uppi, hefir það hina mestu þýðingu fyrir atvinnulífið í Eyjum; þar sem bæði er um björgun manna að ræða og gæzlu netanna, því að í þau hafa menn veitt mestan afla undanfarin ár. Þetta tvennt vil ég biðja hv. þdm. að athuga.

Það er ekki lítil áhættan, þegar 500–700 manns fara á sjó og veðurfar vont, eins og t. d. sýndi sig nú um daginn, þegar bátur tapaðist með allri áhöfn. Sjórinn breyttist á einni klst. og varð svo vondur, að elztu menn muna ekki eftir öðru eins.

Hvað veiðarfærin snertir„ þá eru þau lengst úti í hafi og aðeins hægt með mikilli gæzlu að sjá um, að útlendu togararnir vaði ekki yfir svæðið. Það sýndi sig líka, að þótt Þór væri vopnaður, þá óttuðust þeir hann ekki eins og Óðin, meðan hann hafði gæzluna.

Fari nú svo, að ófullnægjandi skip verði haft við Eyjar, er það álit manna, að sjó verði að sækja á einhvern annan hátt og fyrirkomulagið hljóti að verða allt annað en það hefir verið, en af því leiðir, að vertíðin er ónýt fyrir okkur, eða í það minnsta partur af henni. Fjölmargir formenn hafa lýst yfir því, að ekkert vit sé í því að leggja net í sjó án þess að skip sé við hendina, sem sé fært um að annast gæzluna. Af þessum orsökum hefi ég leyft mér að koma fram með þessa þáltill. um endurnýjun sáttmálans frá 1926. Ég lít svo á, að það megi ekki vera lakara eða í nokkra staði verra skip en Þór, sem haft verður til að annast björgunargæzlu, og ég álít, að það sé stj. innan handar að afla sér jafngóðs skips og Þór var fyrir þá upphæð, sem hann var tryggður fyrir. Mér er fullkunnugt um það, að verð á skipum hefir breytzt svo mjög, að þetta ætti að vera auðvelt, en hinsvegar verð ég að segja það, að mér finnst það undarlegt, að ríkisstj. skyldi ekki hafa vátryggt Þór hærra en gert var. Fyrst og fremst höfðu miklar endurbætur verið gerðar á honum, og auk þess höfðu verið keypt til hans sjómælingartæki, sem kostuðu ærið fé, og má þetta því kallast óskiljanlegur sparnaður á iðgjöldum, sem stj. hefir þarna sýnt.

Þrátt fyrir það, að Þór var ekki vátryggður hærra en þetta, veit ég samt með vissu, að fyrir þá upphæð er hægt að afla sér eins góðs skips og Þór var. Því hefir verið varpað fram við mig af ýmsum þm., sem velviljaðir eru þessu máli, hvað nú ætti að gera, en ég hefi í rauninni sagt það. Það á að afla annars skips fyrir vátryggingarféð og það skip á að annast gæzluna við Eyjar í stað Hermóðs gamla, sem er vitanlega með öllu óhæfur til þess, ef ekki þykir fært, að Óðinn eða Ægir komi í stað Þórs. Flutningar og sjómælingar eru inntar af hendi um allt annan tíma árs, og því gæti skipið einnig sinnt þeim störfum. Ég skýt þessu til hæstv. stj., en hvað sem kann að verða, vona ég, að Alþingi líti á þá sanngirniskröfu, sem við eigum í þessu máli, og gangi ekki inn á að láta okkur gjalda þess, að Þór strandaði norður á Húnaflóa. Þegar ég segi þessi orð, tala ég fyrir munn þeirra mörg hundruð manna, sem eiga afkomu sína og jafnvel líf sitt undir þessu.

Ég treysti drenglyndi hv. þingdeildar, að hún skoði samningana frá 1926 eins og samninga, sem gerðir eru í fullu trausti beggja hlutaðeigenda, í velferðarmáli, sem eiginlega snertir allt ríkið í heild sinni, en ekki sem samninga, þar sem hver reynir að draga annan á tálar og beitir þeim brögðum, sem hægt er að koma við.

Þetta var það, sem ég vildi hafa sagt í máli þessu, og hygg ég, að ég þurfi ekki að rökstyðja það frekar.