06.02.1930
Neðri deild: 16. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (3307)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Sigurður Eggerz:

Það er aðeins örstutt aths., sem ég ætlaði að gera. Hvernig sem því er varið með þessa samninga ríkisstj. og Vestmannaeyinga, þá er það allt of mikill ábyrgðarhluti að taka þá vernd frá Vestmannaeyingum, sem þeir hafa haft. Þegar litið er á allan þann mikla fiskiflota, sem oft er úti í alveg ófærum veðrum, þá sýnist mér það ótvíræð skylda þingsins að láta Vestmannaeyinga ekki hafa minni vernd fyrir mannslífin en áður. Verður fyrst og fremst að leggja áherzlu á það. Þess vegna megum við ekki vera að deila um það hér á þingi, hvernig bókstafur þessa samnings er, en hitt er nær, að íhuga kjarna málsins, en hann er sá, að Vestmannaeyingar geta ekki verið án þess að hafa björgunarskip líkt og Þór við Eyjarnar á vissum tímum ársins. Og auðvitað er þetta ekki eingöngu nauðsynlegt vegna mannslífanna, en einnig vegna hins mikla útvegs, sem reynist ríkissjóði mjög drjúg tekjulind. Óttinn, sem hefir gripið menn í Eyjum við það, að þessi vernd verði tekin frá þeim, sést bezt á þeim áskorunum, sem Vestmannaeyingar hafa sent hingað, áskorunum frá 937 konum, sem skora á þingið að gera skyldu sína, og er eðlilegt, að áskoranir komi úr þessari átt, því að líklega finna engir betur til þess en konurnar, sem bíða í landi, hvað það er að vita af sjómönnunum úti í vondum veðrum. Það er hreint og beint siðferðisskylda að láta Vestmannaeyinga hafa ekki minni vernd en þeir hafa haft. Þótt ég sé þm. fyrir sveitakjördæmi, þá er ég alveg viss um það, að mínir kjósendur myndu hvetja mig til að taka fast á því máli, sem hér er á ferðinni.