06.02.1930
Neðri deild: 16. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (3308)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Af því að ég gleymdi að stinga upp á n. áðan, vildi ég nú leggja til, að annaðhvort yrði málinu vísað til fjhn. sem fjármálaatriði, eða til sjútvn. sem atvinnumálefni, hvort sem hæstv. forseta þykir betur við eiga.

Svo vildi ég leiðrétta strax þann misskilning, að menn gætu haldið, að það væri meining núv. stj., að skipin eigi aldrei að koma nálægt Vestmannaeyjum. En það hefir verið haldið þeirri reglu, sem hv. I. þm. Skagf. sagði, að sér fyndist eðlileg, að þegar eitthvað kemur fyrir við Vestmannaeyjar, eins og átti sér stað fyrir skömmu, þá var Óðinn undir eins beðinn að fara þangað. En ég álít, að ekki megi gera það án samþykkis þingsins, að binda annað varðskipið lengi á hverjum stað, og get ég sagt það til sönnunar því, að þegar svo vill til, að bæði Óðinn og Ægir eru hér inni, eins og kom fyrir um jólin, þá flykktust togararnir inn í landhelgina fyrir Vesturlandinu, vegna þess að þeir vissu þá, hvar skipin voru. — En ég legg til, að forseti fresti umr. og vísi málinu til nefndar.