06.02.1930
Neðri deild: 16. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (3309)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég verð að segja það, að ég er sannarlega hryggur yfir þeirri ógiftusamlegu andstöðu, sem hæstv. dómsmrh. hefir gegn þessu máli. Þótt hann ekki hafi stór orð um, er auðfundið, hvar hann er, því miður.

Það hefir víst átt að vera eins og nokkurskonar gildra þessi fyrirspurn, sem hæstv. dómsmrh. lagði fyrir mig, hvort ég hugsaði til að láta byggja nýtt skip, gildra til þess að koma í veg fyrir það, að málið fengi afgreiðslu í þessari deild. — Ég vil strax mótmæla því, að þetta mál þurfi endilega að ganga til n., a. m. k. ekki í báðum deildum, því að hér er aðeins um endurnýjun á samningi að ræða, samningi, sem ég skoða svo, að sé ennþá í gildi, en sem hæstv. ráðh. vill láta niður falla. Eftir því, sem í till. segir, verð ég að telja sjálfsagt að kaupa skip í stað Þórs, en ekki að láta byggja skip, því þá þarf ekki að verja til þess öðru fé en því, sem liggur til reiðu, nefnil. vátryggingarfé Þórs, svo að það er, að mínu áliti, engin sérstök ástæða til að tefja þetta mál með að þvæla því á milli deilda, og einkum og sér í lagi vil ég leggja á móti því, að málið sé tafið með þeirri aðferð, sem hæstv. dómsmrh. vildi hafa, vegna þess að nú stendur vertíð sem hæst og hvorki hægt fyrir mig né heldur hæstv. dómsmrh. að taka á sig þá ábyrgð, sem dráttur á afgreiðslu málsins um björgunarskipið kann að valda. Ég vil ekki taka á mig þá ábyrgð, frekar en bæjarstj. Vestmannaeyja vildi taka á sig ábyrgðina af því að hafa Hermóð fyrir björgunarskip.

Ég er áhyggjufullur vegna þessarar afstöðu, sem hæstv. dómsmrh. hefir tekið til málsins, vegna hins mikla fjölda manna, er sjó stundar frá Vestmannaeyjum, og vegna allra aðstandenda þessara manna. — Hæstv. ráðh. vildi svo sem hafa vaðið fyrir neðan sig, því að hann tók það líka fram, að þótt ég hefði aðeins viljað fá annaðhvort Óðin eða Ægi til starfsins, þyrfti málið líka að fara í n., svo að það virðist engin leið að þoka hæstv. ráðh. frá því að tefja málið.

Hæstv. ráðh. vildi hnekkja mínum góða málstað með því að fara að benda á blaðaskrif einhverra flokksmanna minna. Held ég, að hæstv. ráðh. hafi sízt þá aðstöðu í þessu máli, að hann ætti að tala um blaðaskrif í sambandi við það. Í blaði, sem var flokksblað hans fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar hér í Rvík, er grein, sem virðist vera eftir hæstv. dómsmrh. sjálfan, eða einhvern, sem hugsar, talar og skrifar alveg eins og hann. Þar er farið mjög hörðum orðum um einstaka menn í Eyjum, bornar sakir á þá og sagt, að íhaldsmenn í Eyjum rjúfi gerða samninga og hrifsi til sín 25 þús. kr. handa sér fyrir þriggja daga burtveru Þórs, breiði út ósannindi um vitaskipið og heimti, að nýtt strandvarnaskil sé keypt handa þeim. Þar segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En Íhaldið í Eyjum rýfur gerða samninga, svíkur um borgun fyrir Þór ár eftir ár, hrifsar 25 þús. kr. í bætur handa sér, fyrir þriggja daga burtveru Þórs, breiðir út vísvitandi ósannindi um vitaskipið og heimtar, að keypt sé þegar í stað nýtt skip og haldið við Eyjar, væntanlega með allt að 200 þús. kr. árskostnaði, til að þóknast hinum svikula íhaldsmeirihluta í Eyjum, sem svo illa hefir staðizt drengskaparprófið í sambandi við leigu Þórs“.

Þetta er það, sem hæstv. dómsmrh. lætur sér sæma að skrifa í kosningablað Framsóknarflokksins um okkur Vestmannaeyinga, en ég skal ekki þreyta hv. deild með því að lesa alla þá illyrðaromsu um Vestmannaeyinga, sem hæstv. dómsmrh. hefir látið frá sér fara í blaði þessu, flokki sínum til kjörfylgis hér í bænum. Það er hægt að koma því að við tækifæri.

Hæstv. ráðh. sagði, að samningurinn um Þór hefði verið athugaður af sér og „öðrum lagamönnum“. Ég hefi nú ekki heyrt það fyrr, þótt hæstv. dómsmrh. skipi það sæti, sem hann situr i, að hann hafi verið talinn lagamaður, en það getur verið, að í þessu máli skoði hann sig fullfæran til að vera kallaður lagamaður. Og skoðun ráðh. og lagamanna hans er þá sú, eftir því sem hann segir nú, að vegna þess að Þór strandaði séum við Vestmannaeyingar búnir að missa allt tilkall til ríkisins um björgunar- og eftirlitsstarfið. Mér þykir rétt að upplýsa, hverja skoðun hæstv. dómsmrh. hefir áður haft á þessum samningi. Ég get sannað það með tilvísun til þingtíðindanna, að á þinginu 1928 var skoðun hæstv. ráðh. á rétti. Vestmannaeyinga í þessu efni unnur en nú. Það raunalega við framkomu hæstv. ráðh. í þessu máli er, að alltaf síðan Þór var seldur ríkinu hefir hæstv. dómsmrh., sem áður virtist hlynntur björgunarmálum okkar, haldið uppi látlausum átölum fyrir þá ráðstöfun og ekkert tækifæri látið ónotað til þess að lasta skipið, vegna þess að það væri gamalt, ganglaust og illa útbúið. Ennfremur hefir hann mjög haft það á hornum sér, að Þór skuli hafa verið gerður út sem björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar. En nú kórónar hæstv. ráðh. fyrri framkomu sína í þessu máli með því að segja, að nú séu Vestmannaeyingar réttlausir með öllu, með því að skipið sé strandað. Ég skal nú leyfa mér að lesa upp úr þingtíðindunum frá 1928 nokkur ummæli hæstv. ráðh., til þess að varpa ljósi yfir fyrri afstöðu hans í þessu máli. Þar segir svo m. a.:

„Þetta er nú inngangurinn að því, sem gerðist á þinginu í fyrra, að því viðbættu þó, að íhaldsstjórnin lagði til, að Þór yrði keyptur af ríkinu. Henni þótti þá heppilegt að kaupa hann, þegar bersýnilegt var orðið, að hann fullnægði ekki þeim kröfum, sem gera verður til þess, að skipin séu fær um að elta uppi togarana. En hann var seldur með því skilyrði, að hann héldi sig við Vestmannaeyjar um vertíðina“.

Þetta segir hæstv. ráðh. eftir að hafa látið dæluna ganga um Óðin og smíðisgalla hans, þyngdarpunktinn o. fl. Ég skal skjóta hér inn í, til frekari skýringar, að Þór var af ríkinu aðallega keyptur til þess að vera eftirlits- og björgunarskip við Vestmannaeyjar, en eigi til landhelgisgæzlu. Því næst vitnar ráðh. í bréf frá skipherranum á Þór um að Þór væri of hægfara til strandvarna, og á þeim ummælum byggði hann síðan þá fullyrðing, að Þór væri ónýtt skip. Í lok þessara hugleiðinga um Þór og samninginn, sem ríkið og Vestmannaeyingar gerðu, segir hæstv. ráðh. þessi orð, sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„En niðurstaðan á þessum samningum er sú, að ríkinu ber skylda til þess að verja Vestmannaeyjar, hvort sem til þess verður valinn Þór eða annað dýrara skip. En ekki eru slíkir samningar gerðir af framsýni“.

Þessi er þá skoðun hæstv. ráðh. á þinginu 1928, og stoðar honum ekki að bera brigður á, því þessi ummæli eru skjalfest. Þá telur hann rétt Vestmannaeyinga alveg ótvíræðan, en nú kemst hann og „lagamenn“ hans að gagnstæðri niðurstöðu, og telur hann þær hafa tapað öllum rétti gagnvart ríkinu í þessum efnum. Ég hefi aðeins bent á þetta til þess að sýna, hve hæstv. ráðh. er glöggur(!) sem ,,lagamaður“ og sjálfum sér samkvæmur. Í þessu máli hefir hann kveðið upp tvo úrskurði, sem fara í gagnstæðar áttir.

Hæstv. ráðh. gaf mér þann sjálfsagða vitnisburð, að ég hefði talað með hógværð og stillingu um þetta mál. Ég get lofað því framvegis að tala svo um þetta mál sem góðum málstað hæfir, en þó mun mér veitast örðugt að tala með eins mikilli hógværð nú sem áðan, því að mér bókstaflega ofbýður sú takmarkalausa óskammfeilni hæstv. ráðh., að hann skuli leyfa sér, þvert ofan í fyrr yfirlýstar skoðanir sínar, að halda á máli þessu með þvílíkri hlutdrægni, sem raun ber vitni um. Vel væri, ef hæstv. ráðh. gæti fundið til þeirrar miklu ábyrgðar, sem á honum hvílir gagnvart þeim fjölda mannslífa, sem hér eiga allt í húfi:

Þá sagði hæstv. ráðh., að Vestmannaeyjar hefðu ekkert gefið landinu. Ég skal nú ekki deila við hæstv. ráðh. um rökstuðning þessarar fullyrðingar, enda er vant að sjá, hvað hann á við. En hitt ríki ég fullyrða, og get fært rök að, að Vestmannaeyjar hafa ekki hingað til staðið öðrum héruðum landsins að baki um framtak og hvergi legið á liði sínu. Höfum við óneitanlega lagt ríkulegan skerf til eflingar atvinnu í landinu og staðið í fullum skilum gagnvart ríkissjóði. Vestmannaeyingar áttu frumkvæði og verulegastan þátt í því að auka landhelgisgæzlu, eftirlits- og björgunarstarfsemi við Suðurlandið. Höfum við lagt mikið á okkur í því skyni. Það virðist því næsta lítil viðurkenning, þegar ráðh. strandgæzlunnar og björgunarmálanna í þessu landi lætur slík orð falla í okkar garð. Ég hygg, að þing og þjóð megi vera Vestmannaeyingum þakklát fyrir hið góða fordæmi, sem við höfum gefið í þessum efnum, og þá ósérplægni og áhuga, sem við höfum ávallt sýnt, þegar um eftirlits- og björgunarmál hefir verið að ræða. Hitt er að vísu rétt, að við gáfum ekki landinu Þór; við seldum hann fyrir það, sem á honum hvíldi, 80 þús. kr. Í þessu sambandi má og geta þess, að Vestmannaeyingar hafa árlega um 13 þús. kr. útgjöld til að afborga útgerð Þórs á þeim tíma er hún var dýrust.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að réttast væri, að við Eyjamenn keyptum sjálfir skip í þessu skyni og gerðum út. Gætum við það eins nú og áður. Þessum vinsamlegu (!) ráðleggingum hæstv. dómsmrh. vil ég svara með því að benda á, að þegar Vestmannaeyingar hófu björgunarstarfið og keyptu Þór, var enginn áhugi vaknaður hjá stj. eða þingi fyrir þessu máli. Vestmannaeyingar stígu fyrsta sporið og bentu með athöfnum sínum alþjóð manna á nauðsyn þessa máls. Aðgerðir þingsins, sérstaklega 1926, sýna það, að við höfðum þá opnað augu manna fyrir því, að hér þurfti ríkið að viðurkenna þjóðhollt starf. Ríkinu er nú innan handar að kaupa skip fyrir tryggingarupphæð Þórs hvenær sem er, og þangað til er mjög auðvelt að fullnægja eftirlitsþörfinni með Óðni og Ægi, á þann hátt, sem hv. 1. þm. Skagf. benti á, yfir mánuðina janúar, febrúar og fram í miðjan marz, án þess að landhelgisgæzlan þurfi hið allra minnsta við að líða, eins og bæjarstj. Vestmannaeyja hefir þegar bent ríkisstj. á, um leið og hún féllst á það, að Hermóður væri svo í bili notaður til gæzlu veiðarfæranna á netavertíð. Ef hæstv. ráðh. kynni að vilja afla sér raunréttrar þekkingar á þessum atriðum, ætti hann að snúa sér til sjófróðra manna, í stað hinna svokölluðu „lagamanna“, sem ráðh. vitnaði til. Þá myndi hann sannfærast um, að ég fer hér með rétt mál.

Þá vitnaði hæstv. ráðh. til umsagnar vitamálastjóra um það, að Hermóður væri sterkt skip og að hann hefði ekki verið að því kominn að sökkva á leiðinni upp o. s. frv. Þetta má vel vera satt, svo langt sem það nær, en á það ber þó að líta, að Hermóður er einskonar óskabarn vitamálastjóra, enda keyptur af honum í upphafi. Auk þess sem því verður að taka þessum ummælum með hæfilegri varúð, eru þau engin sönnun fyrir því, að Hermóður dugi sem björgunarskip. Hermóður er helmingi minna skip en Þór var, og því stendur það óhrakið, að hann er allsendis ónógur til eftirlits- og björgunarstarfsemi um vetrarvertíðina. Ég þykist geta talað um þessi mál af töluverðri þekkingu, og hefi auk þess persónulega reynslu síðan ég var útgerðarstjóri Björgunarfélagsins í Vestmannaeyjum. Komu oft þau veður við Eyjar, að tvísýnt þótti, hvort tiltök væru að senda Þór út til þess að leita að bátum. Má þá af líkum ráða, að hvaða gagni bátur eins og Hermóður kæmi í slíkum veðrum. Ég vil því segja hæstv. dómsmrh. það, að okkur Eyjamenn skiptir litlu, hvað vitamálastjóri segir um þessi mál; við þykjumst þekkja veðrin við Eyjar alveg eins vel og betur en hann. Okkur eru í of fersku minni öll þau ægilegu slys og manntjón, sem orðið hafa við Eyjar, og við hljótum því að byggja meira á reynslu undanfarinna ára en á ummælum vitamálastjóra.

Hæstv. ráðh. fór með ísmeygilegar dylgjur um, að ég hefði í rauninni beint ásökunum mínum að skipshöfninni, er ég talaði um, að Hermóður væri ekki fullnægjandi skip. Mér er satt að segja ekki ljóst, hvað hæstv. ráðh. á við, eða hvaðan honum kemur slík speki. Ég hefi hvergi séð eða heyrt skipshöfninni á Hermóði ámælt, þótt Hermóður kæmist ekki út úr höfninni þegar báturinn fórst á dögunum. Sjálfum hefir mér aldrei komið slíkt til hugar. Í blaði sjálfstæðismanna í Eyjum, sem talar um atburð þennan, er farið lofsamlegum orðum um skipshöfnina á Hermóði, og það er það eina, sem ég hefi séð skrifað um þetta atriði. Þessa þáltill. her því alls ekki að skilja sem vantraust á skipshöfnina, enda hefir það verið skýrt tekið fram, áð það er skipið, sem er allsendis ónógt til þeirra starfa, sem það á að inna af hendi. Ég vil því vísa þessum órökstuddu dylgjum beina leið til föðurhúsanna. Ætti hæstv. ráðh. að spara sér þvílíkar glósur, ef hann getur ekki fært þeim neinn stað. Ég skal hinsvegar upplýsa það, að ég hefi sem formaður Björgunarfélagsins í Vestmannaeyjum haft bréfaviðskipti við skipstjórann á Hermóði um það, að við óskuðum eftir sem beztri samvinnu og samstarfi við skipið hvað björgunarmál snertir. Höfum við boðið honum alla þá hjálp og aðstoð, sem við getum í té látið, enda er okkur ljóst, hversu góð samvinna þeirra, sem í landi eru, við björgunarskipið er nauðsynleg til fyrirgreiðslu björgunar á bátum. Þetta eru nú þær einu „örvar“, sem ég hefi beint að skipshöfninni á Hermóði.

Þá þykir mér það furðulegt tiltæki hjá hæstv. ráðh., er hann reynir að dreifa hugum manna frá meginatriði þessa máls, með því að vekja upp gamla sögu (um greiðslur fyrir netatjón Vestmannaeyinga 1926), sem engu máli skiptir í þessu sambandi. Hyggst hann sennilega að vekja andúð gegn þessari till. á þann hátt. Mjög er þeim manni vopnavant, er til slíkra gripur. Í blaðsnepli einum, sem ráðh. stóð að hér um kosningarnar, er sagt, að ég hafi stungið þessum umræddu 25 þús. kr. í vasa gæðinga minna. Er þetta að vísu stór framför til réttari frásagnar frá því í fyrra, þegar hæstv. ráðh. hagaði orðum sínum á þann veg, að ómögulegt var að skilja öðruvísi en að ég hafi stungið fénu í eiginn vasa. Ég skal reyndar geta þess, að þennan umrædda tíma, sem Þór yfirgaf netin til að handsama togarana 4, vann hann landinu inn milli 60 og 70 þús. kr., svo að vel mátti landið við una að greiða 25 þús. kr. fyrir netatöpin, sem orsökuðust af fjarvist hans. Annars er hæstv. ráðh. nú að draga þetta inn í umr. til þess að reyna að eyða málinu fyrir mér. Hæstv. ráðh. talaði um drengskap og brá okkur Eyjamönnum um drengskaparleysi í þessu máli. Ég verð nú að segja það, að einkennilega finnst mér orðið drengskapur hljóma í munni hæstv. dómsmrh., og ætti hann sízt að frýja öðrum drengskapar. Ég hefi komið fram með fullum drengskap í þessu máli; ég hefi skýrt satt og rétt frá málsástæðum og teflt fram rökum málsins með fullkominni kurteisi. En „drengskapur“ hæstv. ráðh. er fólginn í því að reyna að eyða þörfu og góðu máli með hinum lúalegustu aðferðum. Tekur mig það sárt, ekki mín vegna, heldur þeirra, er hér eiga líf sitt og efnalega afkomu undir, ef þau verða afdrif málsins, sem hæstv. ráðh. vill vera láta.

Ég hefi áður fært rök að því, að dómar hæstv. ráðh. um rétt Vestmannaeyja eru tveir. Annar upp kveðinn á Alþingi 1928, hinn er upp kveðinn af honum í stjórnarráðinu í vetur, og brýtur algerlega í bága við hinn fyrri dóm hans um hið sama atriði. Ég vil hinsvegar leggja höfuðáherzlu á sanngirnishlið málsins, og væri ekki úr vegi að athuga þá hlið dálítið nánar. Er það sanngirni af landsstj. að senda Þór í snattferð norður á Húnaflóa um dimmasta skammdegið til þess að skila tveim gæðingum sínum heim til sín, og því næst, eftir að svo illa tókst til sem kunnugt er, að láta þá sjómenn í Vestmannaeyjum gjalda fyrir afleiðingarnar af þessari vanhugsuðu og óverjandi sendiferð? Er það drengskapur, að láta Þórs-slysið bitna á saklausum sjómönnum og sjómannakonum suður í Vestmannaeyjum? Hvers eiga þeir eða þær að gjalda? Til frekari stuðnings máli mínu skal ég leyfa mér að lesa hér upp álit hæstv. dómsmrh. á þinginu 1928 um það, hvað sé vit og hvað ekki um sendiferðir varðskipanna. Þar segir hæstv. dómsmrh. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er og álit þeirra, sem vit hafa á, að Þór sé of lítill til þess að vera á ferð í ofviðrum fyrir norður- og austurströnd landsins“.

Þessi er þá dómur þeirra, sem vit hafa á, að því er hæstv. ráðh. sjálfur segir. Ég get fyllilega tekið undir þessi ummæli. En hvernig breytir nú hæstv. ráðh. eftir þeim? Í skammdeginu 1929 er hann búinn að gleyma þeim. Ég skal annars hlífa hæstv. ráðh. við því að fara mikið inn á þetta mjög svo óvarlega tiltæki ráðh., þegar hann án nokkurrar skynsamlegrar ástæðu stofnaði skipi með 20 manna áhöfn í þá hættu, sem eftir hans eigin orðum leiddi af ferðalagi, sem „ekkert vit var í“.

Hæstv. ráðh. ætti að hverfa frá þeirri villu síns vegar að láta saklausa gjalda þess, að hið gamla happaskip Þór hlaut af þessu að bera beinin á skeri norður á Húnaflóa. Jafnvel þó að í samningi þeim, sem ég gerði um Þór, sé ekki skýrt um svona tilfelli talað.

Hvernig getur hæstv. ráðh. hugsað sér að nota þennan atburð til þess að koma fram samningsrofum og gerræði gegn Eyjamönnum, sem enga sök áttu á því, að förin var farin eða að skipið strandaði? Hvaða sanngirni er annað eins og þetta? Hvar er nú „drengskapur“ ráðh.? Jú, hann felst í þeirri vinsamlegu orðsendingu ráðh. til okkar Eyjamanna: Nú skuluð þið bara kaupa ykkur skip sjálfir. Ykkur er ekki vandara um að gera það nú en áður. — Ég ætla nú engar getur að því að leiða, hverju kjósendur mínir muni svara þessari vísbendingu hæstv. ráðh. En ef það á enn fyrir okkur Eyjamönnum að liggja að verða eins beygðir af sjóslysum eins og þegar við réðumst í að kaupa Þór forðum, þá gæti svo farið, að hæstv. ráðh. fyndi til — þó að það þá ef til vill yrði nokkuð seint — þeirrar þungu ábyrgðar, sem óhjákvæmilega mun hvíla á herðum þess manns, sem með köldu blóði sviptir þetta hérað þeim björgunarráðstöfunum, sem það hefir löglegan og samningsbundinn rétt til.

Hæstv. ráðh. kvað mig hafa talað óskýrt og ekki tekizt að klæða hugsanir mínar og till. í heppilegan búning. Þetta má vel vera rétt, að hann líti svo á. En ég held þó áreiðanlega, að ég hafi hagað orðum mínum á þann veg, að vel mátti skiljast. En ef hæstv. ráðh. álítur, að ég hafi ekki talað nógu skýru máli til þess að d. mætti sannfærast um réttmæti míns máls, þá vil ég segja honum, að sá er til, sem talar nógu ljóst og kann að klæða hugsanir sínar í nægilega skýran búning. Sjórinn og veðrin kringum Vestmannaeyjar tala sínu skýra máli um, hvað gera þurfi fyrir sjómenn þá, sem þar stunda atvinnu sína erfiðasta tíma ársins í stöðugri baráttu við storma, stórsjói og krappar leiðir. Þetta hefir Alþingi áður viðurkennt og ber vonandi gæfu til þess að gera það líka í þetta sinn.

Þá fór hæstv. ráðh. mörgum orðum um það atriði, að Vestmannaeyingar hefðu ekki goldið afborgunina, 15 þús. kr., til ríkissjóðs á tilsettum tíma. Gaf hann í skyn, að við hefðum ekki haft efni á því. Þessu vil ég hér með mótmæla. Af okkar hálfu var um óþarfan drátt en ekki annað að ræða. Fjárupphæð þessi var á fjárhagsáætlun bæjarins, og hafa þeir hlotið stór ámæli, sem sök áttu á því, að féð var ekki greitt í tæka tíð. En fé þetta mun verða greitt áður en samningstíma lýkur. Getur því hæstv. ráðh. sparað sér að svo stöddu að brýna okkur um svik. Vitanlega var tilgangur ráðh. með þessu einungis sá, að reyna að vefja málið og fá menn til að halda, að þetta væri svo athugavert mál, að það þyrfti að ganga gegnum báðar deildir og nefnd, og ennfremur að reyna að kasta rýrð á Vestmannaeyjar og koma því inn hjá hv. þdm., að þær verðskulduðu ekki, að ríkið héldi uppi eftirlits- og björgunarstarfsemi þar, enda hefði ríkið ekki ráð á því.

Ég þarf svo ekki að segja fleira að þessu sinni, svo að hæstv. ráðh. getur komizt að með það, sem hann þykist hafa fram að færa. Ég vil þó benda honum á, að Vestmannaeyjar, sem hann taldi ekki hafa getað staðið í skilum um 15 þús. kr., hafa þó greitt til ríkissjóðs 589557 kr. árið 1928 og 570 þús. kr. árið 1929 í opinberum sköttum og gjöldum. Ég get því ekki annað en talið það hina mestu ósanngirni af ráðh. hendi, er hann aftekur með öllu að nota vátryggingarfé Þórs til kaupa á nýju skipi eða láta Óðin eða Ægi líta eftir við Eyjarnar, þegar þörfin er brýnust. Sé ég ekki, að hann fari svo sæmilega fram í þessu máli, sem kröfu verður að gera til af manni í hans stöðu. Veit ég vel, að hæstv. ráðh. hefir aðstöðu og vald til þess að gera Vestmannaeyjum erfitt fyrir um stundarsakir, en ég vil beina því til hv. deildar um leið, að allur dráttur á afgreiðslu þessa máls getur orðið mjög afdrifaríkur. Ég vil gera þá kröfu til þingsins, að það staðfesti, að gefnu tilefni, þann samning, sem gerður var um björgunar- og eftirlitsstarfið við Vestmannaeyjar, og sem vitanlega er enn í gildi, þótt Þór sé strandaður, þótt hæstv. ráðh. haldi nú hinu gagnstæða fram. Sé ég þess enga þörf, að málið sé látið ganga gegnum báðar deildir, því fjárhagshlið málsins snertir í bili einungis vátryggingarupphæðina, sem þegar er fyrir hendi. Ég mótmæli öllum óþarfa töfum og vífilengjum, er miða til þess að hindra sjálfsagða og réttmæta afgreiðslu þessa nauðsynjamáls.

Að endingu vil ég leyfa mér að skírskota til réttlætistilfinningar hv. þdm. um það, að Vestmannaeyjum sé ekki frádæmdur réttur til björgunar- og eftirlitsskips um vetrarvertíðina, þó að Þór sé strandaður. Get ég ekki skilið, að hv. d. vilji fara að dæmi hæstv. dómsmrh., að setja sig í spor harðdrægra „prokuratora“. Vil ég brýna fyrir mönnum að líta með skilningi og velvild á kröfur Vestmannaeyinga og annara, sem hlut eiga að þessu máli.