06.02.1930
Neðri deild: 16. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (3310)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. Vestm. hefir tekið þá aðstöðu að vera mótfallinn því, að þessu máli sé sýnd full alvara, með því að láta það ganga til n. og að það sé rætt sem hvert annað alvarlegt mál. Svo mikið kapp leggur hv. þm. á að koma þessari till. sinni í gegn nú þegar á ólöglegan og óformlegan hátt. Hv. 1. þm. Skagf. var þó í vafa um, hvort tvær umr. í báðum deildum þingsins gætu talizt nægileg heimild fyrir stj. til að láta byggja nýtt skip. Til glöggvunar á því, hvað það muni kosta að láta byggja nýtt skip, skal ég geta þess, að sá maður, sem vanastur og kunnugastur er skipakaupum, E. Nielsen framkvæmdarstjóri, hefir fyrir stj. hönd leitað tilboða um skip til Borgarnesferða. Og hið eina tilboð, sem hann fékk, var meira en helmingi hærra en það, sem Þór var talinn kosta. Þar sem því jafneinfalt skip er svona dýrt, þá vil ég ekki að ókönnuðu máli slá því föstu, að hér sé ekki um stórt fjárhagsmál að ræða. En sennilega liggur annað og meira bak við till. hv. þm. Vestm. Hann vill vitanlega fá sem allra stærst og virðulegast skip til þess að gæta neta sinna og annara góðra manna í Vestmannaeyjum. Hv. þm. telur, að Hermóður sé ekki fullnægjandi til þessarar gæzlu. En þetta eru aðeins fullyrðingar hv. þm., óstuddar af rökum. Og þær koma algerlega í bága við umsögn og yfirlýsingu þess embættismanns, sem kunnugastar er skipinu. Sjálfur hefir hv. þm. játað, að skipshöfnin sé góð.

Um hið sorglega slys, sem vildi nýlega til í Vestmannaeyjum, er það að segja, að ekkert skip mundi hafa getað bjargað þeim bát, sem eftir því sem sjónarvottar herma fórst á skeri í heimleið. (JJós: Það sker er ekki til!). Þetta hafa þó eins greinagóðir menn úr Eyjum og hv. þm. sagt mér. — Ég veit, að dylgjað hefir verið um það í flokksblöðum hv. þm., að Hermóður hafi legið inni þennan dag og verið að taka kol og vatn. Og þar var því dróttað að skipshöfninni á Hermóði, að hana hefði brostið kjark til björgunartilrauna. Ég veit, að þetta er alrangt. En hv. þm. ætti að gæta þess, að blöð hans færu ekki með svona dylgjur. Ég minnist þess, að eitt sinn er Þór átti að gæta neta þeirra Vestmannaeyinga — ég held það hafi verið 1923 —, þá var hann staddur hér á höfninni til að taka kol og fleira.

Gerði þá rok, svo hann slitnaði upp, rak út af höfninni og strandaði inni við Laugarneskletta. Vestmannaeyingar leigðu þá sjálfir bát til að gæta veiðarfæranna og gegna björgunarstarfi. Sá bátur hét Þórður Kakali og var, að því er ég held, mótorbátur. (JJós: Hann var gufuskip, línubátur). Það hefir þá verið lítill línubátur. (JAJ: Það var togari). Það var þó ekki togarinn af Vesturlandi, sem stjórnað var úr landi með skeytum, svo hann gæti óáreittur togað í landhelginni. Annars var víst Kakali verra og minna skip en Hermóður. Og þó gerðu Vestmannaeyingar sig ánægðan með hann um langan tíma, meðan verið var að gera við Þór. Til hins sama ráðs hefir verið gripið nú, þegar Þór er frá. Er því farið eftir fordæmi Vestmannaeyinga sjálfra. Hér hefir því verið bætt úr þörfum og kröfum þeirra eins og við varð komið. Enda þótt Vestmannaeyingar óski eftir að fá stórt og gott skip til þessara þarfa sinna, þá vil ég þó eindregið mótmæla aðferð hv. þm. þeirra, að ætla að lauma inn till. um skipakaup með einni umr., hér í deild. Og það skal hv. þm. vita, að enda þótt till. hans verði samþ. hér í deildinni, þá mun stj. þó ekki treysta sér að taka neitt tillit til hennar, fyrri en tillögur um skipakaup hafa verið samþ. sem lög og fjárveiting heimiluð. Ekkert sýnir eins glögglega og það, að hv. þm. vill ekki láta athuga þetta mál í n., að hann treystir illa sínum málstað. Ég er hræddur um, að ef Óðinn yrði látinn vera meiri hluta vertíðar við Vestmannaeyjar til að gæta neta þar, þá heyrðust raddir annarsstaðar frá áður langt liði. (JJós: Vill ekki hæstv. ráðh. minnast þess, að við höfum aldrei farið fram á, að Óðinn yrði bundinn við Eyjar allan veturinn). Já, að vísu. En hvar væri trygging fyrir því, ef þeim væri réttur litli fingurinn, að þeir vildu ekki hafa hendina alla? Og líklega væri betra að hafa þann samning vel gerðan, er að gæzlu Óðins lyti þar, ef hv. þm. ætti ekki einusinni að geta gert tilraun til þess að fá út úr honum allt annað en í honum stæði. Ef Óðinn ætti að hafa þetta starf með höndum, þá er ég hræddur um, að heyrðist í hv. þm. Borgf. og hv. þm. Snæf. og, fleirum, þegar togararnir færu að vaða uppi í landhelgi um Faxaflóa og Vestfirði og víðar. Enda væri von, að slíkar raddir yrðu háværar. Það er því ekki nema rétt og viturlegt hjá hv. þm. að óttast alla athugun á þessari fjarstæðu. Hinir einu, sem yrðu glaðir við samþ. þessarar till., ef farið yrði eftir henni, væru þeir togaraeigendur, sem vilja láta togara sína fiska óáreitta í landhelginni. Þeir myndu að vísu ekki senda opinber þakkarskeyti, en þeir yrðu þeim mun glaðari í hjarta sínu. Þá mundu togarar þeirra skjótast óáreittir inn í landhelgina og útlendu togararnir elta þá þangað. — Þetta er því einhver sú hættulegasta till., sem fram hefir komið gagnvart landhelgisgæzlunni. Ekkert væri hættulegra en það, að binda varðskipin við eitt ákveðið svæði.

Þá er það alveg rangt hjá hv. þm., er hann telur, að Þór hafi verið stofnað í sérstakan voða með því að láta hann fara norður fyrir land, af því að veður séu þar verri. Hafi Þór verið nógu sterkbyggður til að vera við Vestmannaeyjar, þá átti að vera hættulaust að láta hann skreppa norður fyrir, því allir vita, að veður eru miklu meiri fyrir sunnan land. — En ég vil ekki afsaka hv. þm. né blöð hans fyrir afstöðu hans og þeirra til björgunar mannanna á Þór. Það var ekki hægt að reka sig úr vitni um það matarhljóð, sem í þeim var yfir þeim möguleika, að mennirnir hefðu getað farizt, eins og t. d. þegar Forseti fórst hér suður frá, vitanlega af því hann hafði verið sendur til veiða. En ég vísa algerlega frá mér öllum ásókunum um manndráp, og segi það eitt að ef fara ætti út í slíka sálma, þá mundu það frekar vera einhverjir aðrir en ég, sem slíkt hefðu á samvizkunni. Það, sem olli strandi Þórs, var það, að stýrið bilaði og skipið rak á sker. Ef þetta hefði nú t. d. komið fyrir við Vestmannaeyjar, þegar Þór var þar að björgunarstarfi, hefði þá verið rétt að segja, að hann hefði verið sendur út í opinn dauðann? Ég spyr hv. þm. Vestm. En sé það ekki rétt, þá er ekki heldur rétt að segja þetta um þá ferð, er Þór fór norður. Hún var á engan þátt óforsvaranlegri en hversdagsleg vinna varðskipanna. Ég vil, að þetta komi skýrt fram, af því að sum þau blöð, sem eru brjóstmylkingar íhaldsmanna, hafa sagt, að mennirnir á Þór hafi verið sendir út í opinn dauðann í þetta sinn. Ég hygg þó, að íhaldið hafi hvorki sóma né pólitískan hagnað af slíkum ummælum.

Ég þarf þá ekki að fara mikið lengra út í þetta mál. Mér finnst það ofrausn mikil hjá hv. þm. Vestm., að ætla að lauma stóru fjárhagsmáli inn á þing á þennan hátt, í því trausti, að hv. þdm. séu svo mikil börn, að þeir sjái það ekki. En hafi það verið meining hans, að byggt verði skip, þá átti hann að koma með það í frv.formi sem hvert annað þingmál. Þessi aðferð hv. þm. er bara til þess að fæla þá frá stuðningi við þarfir Vestmannaeyja í þessu máli, sem annars voru því hlynntir. Má hann sjálfum sér um kenna, ef það tekst, sem ég þó hefi ekki trú á, að takist. Hv. þm. hélt því fram, að ég hefði fyrr á árum haldið því fram, að samningur Jóns heit. Magnússonar væri bindandi um aldur og æfi fyrir landið gagnvart Eyjamönnum. Ég játa, að þegar ég hélt þessari skoðun fram, byggði ég á vitnisburði hv. þm. Vestm., sem jafnan hefir haldið fram þessari skoðun. Ég játa, að það var ógætilegt að trúa slíku vitni, og ég mun varast að trúa því sama vitni framvegis, nema aðrar sannanir komi til. Því að niðurstaðan varð sú, er ég kynnti mér sjálfur samninginn, þá var allt tóm endileysa, sem þm. hafði sagt, og þess vegna varð ályktun mín röng, meðan ég byggði á framburði hans. En eins og ég hefi áður sagt, þá er það óforsvaranlegt að ætla að drífa stórt fjárhagsmál í gegn með einni umr. í annari deild þingsins. En sé það meiningin með till. að binda þau skip við þetta starf hjá Vestmannaeyjum, sem eiga að verja strendur alls landsins, þá er það líka óforsvaranlegt.