06.02.1930
Neðri deild: 16. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (3312)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég vil mótmæla því sem persónulegri áreitni hjá hæstv. dómsmrh., er hann segir, að ég hafi hælzt um, að Þór fór í strand. Nei, ég hefi aldrei hælzt um það. Ég syrgi þetta góða og happasæla skip, eins og allir aðrir Vestmannaeyingar. En ég var nauðbeygður til að benda á orsökina til þess, að Þór strandaði, vegna þess að hæstv. ráðh. ætlar að láta strandið bitna á okkur Vestmannaeyingum. Það varð því ekki okkur til happa, heldur þvert á móti. Ég leiði algerlega hjá mér að svara hótunum hæstv. dómsmrh. um, að þessi till. mín muni fæla menn frá því að vilja sinna réttmætum kröfum okkar, svo að þeir, sem fyrr voru velviljaðir, muni snúast á móti málinu. — Björgunarmálið er ekkert flokksmál í Vestmannaeyjum, og ég verð að segja það, að sá maður, sem fylgir því vegna flokkshagsmuna eingöngu, hann fylgir því ekki af hinu rétta hjartalagi. Fylgi hans er ekki eins affarasælt og þess, er fylgir málinu af því að hann sér þörfina.

Mér þótti vænt um, að hv. 2. þm. Reykv. fylgir þessu máli og sér nauðsyn þess. Og með því að ég vil stuðla að sem beztri úrlausn á þessu máli og mótmæli því jafnframt, að ég flytji mál þetta af svo mikilli léttúð, að ég vilji ekki leyfa að það sé athugað sem bezt, þá get ég vel fallizt á, að því verði vísað til sjútvn. þessarar deildar, án þess að því veiði vísað til hinnar deildarinnar líka. Og ég geri það með því fororði, að það sé innan viku komið hingað aftur til umr. og atkvgr.