04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3319)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Ólafur Thors:

Ég geri ekki ráð fyrir að bæta neinum nýjum upplýsingum við hina ítarlegu ræðu, sem hv. þm. Vestm. hélt í þessu máli við fyrri hl. þessarar umr. En mér fannst rétt, að það kæmi fram frá fleiri þm., og á greinilegri hátt en við atkvgr. eina saman, að hér er um svo mikið réttiætismál að ræða, að sá, sem settur er til að gæta hagsmuna hlutaðeigandi héraðs, á ekki að þurfa að standa að flutningi þess einn, heldur eiga aðrir þm. að taka þar undir með honum.

Hv. frsm. minni hl. n. talaði eins og við værum nú fyrst að gera samning við Vestmannaeyjar í þessu efni. Taldi hann hina mestu þörf, að rannsakað yrði, á hvern hátt landhelgisgæzlunni væri bezt fyrir komið, og þótti sem samrýma mætti hina staðbundnu og samningsbundnu gæzlu ýmsum öðrum þörfum, svo sem þörfum vita og síma.

Gallinn á þessu er sá, að ríkið hefir gert samning við Vestmannaeyjar í þessu efni, samning, sem enn er í gildi frá mínu sjónarmiði, og ég því vil standa við, hvort svo sem það kemur sér betur eða verr fyrir ríkið.

Annað mál er það, þó að athugað verði, þegar þingið hefir lýst yfir því, að það ætli að standa við þennan samning, á hvern hátt gæzlan við eyjarnar verði sem bezt samrýmd öðrum þörfum ríkisins, svo sem þörfum vita og síma, eins og hv. frsm. minni hl. talaði um.

Ég man ekki nákvæmlega orðalagið á þessum margumtalaða samningi, sem gerður var milli ríkisins og Vestmannaeyja um þessi viðskipti, en höfuðefni samningsins var það, að Vestmannaeyingar seldu Þór með því skilyrði, að ríkið héldi áfram þeirri vörzlu við eyjarnar, sem Þór til þess tíma hafði haldið uppi. Ég er ekki í vafa um það, að ef Vestmannaeyingar hefðu ekki verið þess fullvissir, að þetta yrði haldið, hefðu þeir aldrei selt skipið, sem þeir höfðu keypt í þeim eina tilgangi að hafa þetta starf á hendi. Það var engin ástæða fyrir þá að fara að afsala sér skipinu, nema tryggt væri, að þessari þörf yrði fullnægt. Vestmannaeyingar voru ekki verr stæðir, þegar þeir seldu Þór, en þegar þeir keyptu hann. Þörfin á honum var jafnmikil og þegar þeir keyptu hann. Reynslan hafði að vísu sýnt, að útgerð Þórs var dýr, en þó ekki svo dýr, að hún væri eyjarskeggjum ofvaxin. Það er því alveg víst, að Vestmannaeyingar hefðu ekki afsalað sér Þór, ef þeir hefðu ekki talið sig vissa um, að þó að þeir seldu hann, væri höfuðáhugamáli þeirra fullnægt.

Hvað sem orðalagi þessa samnings líður, er enginn vafi, hver andi hans er, eins og þeim mun vera minnisstætt, sem hlýddu á fyrri hl. þessarar umr. Íslenzka ríkið skuldbatt sig til að halda uppi staðbundinni gæzlu við eyjarnar með Þór, og það þýddi vitanlega hið sama sem að segja, að ef Þór heltist úr lestinni, skyldi gæzlunni haldið áfram með þeim skipakosti, sem fyrir hendi væri á hverjum tíma, á meðan ríkið væri þess megnugt á annað borð að standa við samninga sína. Auk þessa liggur fyrir yfirlýsing þess manns, sem þessa samninga gerði, hv. 1. þm. Skagf. — og hann hefir ekki farið dult með þá yfirlýsingu — á þá leið, að hann skildi samningana svo, sem ríkið væri bundið við þá.

Ég vil leyfa mér í þessu máli að taka undir þau orð, sem hæstv. forseti þessarar deildar viðhafði í sambandi við annað mál hér á dögunum —, að hvað sem líður hinum lagalegu skuldbindingum, er ekki vafi um þær siðferðislegu.

Það er talið, að ein l. séu æðri þeim l., sem við, sem hér á Alþingi sitjum, setjum, og það eru hin siðferðislegu lög. Og hinn siðferðislegi réttur Vestmannaeyinga í þessu máli er svo mikill, að kröfum þeirra verður að sinna. Það verður aldrei komizt hjá því að sinna kröfum, sem byggjast á siðferðislegum rétti.

Þó að ég álíti till. hv. minni hl. sjútvn. meinlausa að því leyti, sem á yfirstandandi vertíð er ekki kostur betri gæzlu við eyjarnar en till. gerir ráð fyrir, álít ég hana ekki fara nógu langt að því leyti, að Alþingi skuli alltaf standa við þær skuldbindingar, sem það hefir gert, eða ríkisstj. í umboði þess.