03.02.1930
Neðri deild: 12. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Fjhn. hefir öll orðið á einu máli um að leggja til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt. Frv., er að mestu leyti aðeins endurnýjun lánsheimildar þeirrar, er samþ. var á þinginu í fyrra. Í grg. frv. og við 1. umr. hefir verið gerð grein fyrir því, sem nýtt er í frv.

Við 1. umr. var spurt um kjörin á lántöku þeirri við Barclays Bank, sem um getur í 2. gr. frv. Hefir n. séð lánssamninginn. Lánið er venjulegt reikningslán, sem á að greiðast upp einu sinni á ári. Í fyrsta sinni 31. okt. 1930. Hinsvegar er gert ráð fyrir því í lánssamningnum, að framlengja megi lánið um eitt ár í senn með sömu skilyrðum, að óbreyttum ástæðum landsins. Vextir af láninu skulu vera ½% yfir vexti Englandsbanka, eins og þeir eru á hverjum tíma. Þó aldrei lægri en 5% og aldrei hærri en 6% nema vextir Englandsbanka verði 6% eða meira; þá fylgja þeir vöxtum hans. Auk þess á að vera 1% viðskiptagjald af allri upphæðinni. Ennfremur er það út af ákvæðum samningsins, sem í 2. gr. frv. er farið fram á, að þetta lán hjá Barclays Bank skuli teljast hluti af láni því, sem stj. var gefin heimild til að taka með lögunum í fyrra.