04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (3320)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Sigurjón Á. Ólafsson:

*) Ég hefi skrifað undir nál. meiri hl. sjútvn. með fyrirvara, og vil því gera nokkra grein fyrir afstöðu minni.

Ég býst ekki við, að sagt verði, að sjútvn. greini á um kjarna þessa máls, en hann er sá, hvílík nauðsyn er á því, að björgunar- og eftirlitsskip starfi við Vestmannaeyjar yfir vertíðina.

Till. minni hl. bera því vitni, að hann viðurkenni þá þörf, sem er á þessari gæzlu við Vestmannaeyjar, en lengra ná þær heldur ekki. Aftur á móti lítur meiri hl. sjútvn. svo á, að björgunar- og eftirlitsstarfið við Vestmannaeyjar hafi verið svo þýðingarmikið, að það megi ekki rýrast frá því, sem það var, þegar það var bezt og Þór hafði það með höndum.

Þór var annars merkilegt skip í sögu okkar Íslendinga. Hann er okkar fyrsta björgunarskip og okkar fyrsta varðskip. Af þessu tvennu þykir mér meira um vert, að Þór var okkar fyrsta björgunarskip. Þótt ég kunni vel að meta nauðsyn landhelgisgæzlunnar, þykir mér þó björgunarstarfsemin miklu merkilegri. Og með Þór vaknar fyrst fyrir alvöru áhuginn fyrir því að gera allt, sem unnt er, til þess að bjarga mannslífunum úr greipum hafsins.

Þór var merkilegt happaskip, hvað sem hann tók sér fyrir hendur. Og endalok hans urðu þau, sem þau hlutu að verða, hér við okkar stórgrýttu og skerjóttu strönd. Hann strandaði í aftakaveðri norður á Húnaflóa. Um það verður enginn áfelldur, nema þeir Kári og Ægir, en hitt má vera okkur gleðiefni, að allir menn björguðust úr skipinu. Svo mikil var gifta Þórs gamla allt fram til þess síðasta.

Um það atriði, hvort samningurinn, sem gerður var milli ríkisins og Vestmannaeyinga, þegar það keypti Þór, sé enn í gildi, get ég fyrir mitt leyti lýst yfir því, að ég álít, að sá samningur hafi verið bundinn við Þór eingöngu og því fallið úr gildi með honum. Hinsvegar sé ég enga ástæðu til þess að vera áð þrátta um það, hvort þessi samningur hafi gildi yfir lengri eða skemmri tíma. Aðalatriðið er það, að ríkið verður að hlaupa undir bagga með Vestmannaeyingum í þessu efni, og um það, hvernig það megi verða, skilst mér, að hér eigi að ræða. Með till. meiri hl. sjútvn. er málið fjarri því að vera leyst, af því að þar felst engin fjárhagsleg samþykkt á bak við. En fyrir hv. Ed. liggur nú frv., sem gengur út á það, að nýtt skip verði byggt til að starfa að strandvörnunum; og verði það skip látið leysa Þór gamla af hólmi, þá er þetta mál fullleyst frá þingsins hálfu. Eftir er þá aðeins hlutur stj., en þess er að vænta, að hún fari að vilja þingsins um að byggja þetta nýja skip, ef þingið hverfur að því ráði.

Hv. minni hl. sjútvn. leggur mikla áherzlu á það, að fram verði látin fara rannsókn á þessu efni. Ég verð nú að játa það, að ég gruna hv. minni hl. um að hafa fundið þetta upp til þess að draga málið á langinn, því að vitanlegt er það, að annaðhvort verður slík rannsókn, sem þeir gera ráð fyrir, ekki framkvæmd, eða að hún tekur mjög langan tíma. En Vestmannaeyingar geta ekki beðið eftir því, að slík rannsókn fari fram, né þeir aðrir, sem njóta mundu góðs af þessu skipi, því að vitanlega er því ætlað meira hlutverk en að vera björgunarskip við Vestmannaeyjar.

Hv. frsm. minni hl. drap á það, að hagkvæmara mundi að nota smærri skip til gæzlunnar en nú eru notuð. Get ég ekki farið að rökræða við hann um þetta á þessu stigi málsins, en þó vil ég benda á það, að gæzluskip okkar verða að vera úti á hafi í öllum veðrum, ýmist til landhelgisgæzlu eða til þess að leita að skipum, eða til þess að bjarga mönnum í sjávarháska, og verða þau því að vera það stór, að þau þoli öll veður og hægt sé að leggja þeim í allan sjó. Skipverjarnir á Hermóði hafa sagt mér, að í óveðrahamnum í vetur hafi þeim liðið mjög illa um borð, og að ekki sé viðlit að hafa annað skip við Vestmannaeyjar en hægt sé að beita í öllum sjó. Ég þykist vita, að hv. frsm. minni hl. muni hér til svara, að hægt sé að grípa til Ægis og Óðins, þegar svo ber undir, en ég lít svo á, að þau skip megi ekki staðbinda. Það er reynslan, að það skip, sem gegnt hefir gæzlunni við Vestmannaeyjar, hefir verið staðbundið þar í 3–4 mán., og verður vitanlega lítið úr landhelgisgæzlu fyrir því á meðan. Hin skipin hafa haft gæzluna frá Snæfellsnesi til Austfjarða. Verður hvorugt þeirra staðbundið við Vesturland, á meðan skipin eru ekki nema tvö, og er mér það, m. a., röksemd fyrir því, að þriðja skipið þurfi að koma.

Ég veit, að mörgum þykir ganga há upphæð til landhelgisgæzlunnar, og gæta þess þá síður, hversu mikinn óbeinan hagnað við höfum af henni. Eðlileg afleiðing aukinnar landhelgisgæzlu er vitanlega það, að sektarféð minnkar. Síðast1. ár nam það t. d. 500 þús. kr., en þá var rekstrarkostnaður skipanna 700 þús. kr.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja, hvort við höfum látið okkur dreyma sem svo, þegar við tókum landhelgisgæzluna í okkar hendur, að hægt væri að halda uppi góðri gæzlu án þess að leggja af mörkum mikið fé í því skyni. Af aukinni landhelgisgæzlu leiðir meira fiski á smábátana, og verður það seint metið svo sem skyldi, og megum við því ekki skera við neglur okkar það, sem við þurfum að leggja af mörkum til landhelgisgæzlunnar umfram það, sem hún gefur í aðra hönd.

Ég hefi þá gert nokkra grein fyrir því, að með því að samþykkja þessa till. vil ég stuðla að því, að það björgunarstarf, sem þegar hefir verið hafið í Eyjum, megi halda áfram. En ég vil að endingu taka það fram, að ég lít ekki á samningshlið þessa máls, heldur á mannúðarhliðina og björgunarþörfina, og vona, að þeir verði fleiri hér í hv. deild, sem líta á þetta mál eins og ég.

*) Stjarna (*) aftan við nafn ræðumanns táknar, að þm. hafi óskað þess getið, að ræðan sé prentuð eftir óyfirlesnu handriti innanþingsskrifara.