10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (3331)

363. mál, lækkun vaxta

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Það væri eiginlega ástæða til að taka þetta mál af dagskrá líka, af því að hæstv. fjmrh. er ekki við. En ég sé, að hæstv. dómsmrh. er í deildinni.

Þessi þáltill. ræðir um mjög mikilsvert mál, sem sé lækkun vaxta hjá bönkunum og öðrum lánsstofnunum. Það er ekkert aðalatriði í atvinnumálunum, hvort framleiðslan er rekin með samvinnufélagsskap eða einkarekstri; en það er undirstöðuatriði fyrir því, að framleiðslan geti borið sig, að hún hafi nægilegt rekstrarfé. Ég vænti þess, að öllum hugsandi mönnum sé það ljóst, að eins og veltan er orðin mikil hjá okkur, hlýtur rekstrarfé að vera tilfinnanlega lítið, og þetta er ein aðalorsökin að dýrtíðinni í landinu, t. d. hinni afarháu húsaleigu. Það er eðlilegt, að húsaleigan sé há, þegar mikill hluti af húsunum er byggður fyrir okurvexti af lánum frá einstökum mönnum. Þetta er því að kenna, að eftir að peningaveltan hefir aukizt svo mjög, hefir stj. vanrækt að útvega rekstrarfé erlendis. Það ætti þó ekki að vera erfitt, þar sem kunnugt er, að landið er gott framleiðsluland.

Ég get gjarnan sagt það hér, þó að það skipti ekki miklu máli, að ég komst í andstöðu við þá stj., sem sat að völdum frá 1919–1923, af því að ég áleit, að hún hefði vanrækt að útvega nóg rekstrarfé til framleiðslunnar. Það var einn af „lánspostulunum“, sem svo hafa verið kallaðir, sem sá, að óhjákvæmilegt var að taka lán, þáverandi fjmrh. Magnús Guðmundsson. Hann lagði fyrst nokkuð á móti því, en lét undan eftir að þingið hafði fallizt á, að framleiðslufé yrðum við að fá. Lánið var tekið, en með slæmum kjörum. Ég efast samt um, að hægt hefði verið að fá það betra, og ég tel það mjög ódrengilegt að liggja þeim mönnum svo mjög á hálsi, sem að lántökunni stóðu, eins og gert hefir verið. Lánið var tekið í mesta peningalandinu, Englandi, og þó að kjörin væru slæm, varð lántakan til þess, að hægra varð að komast inn á peningamarkaðinn. Ég er hræddur um, að núv. stj. eigi eftir að misskilja þetta atriði og verði ekki eins stórtæk og hún þarf að vera í því að taka lán. Ég þyrði að senda annanhvern mann úr hv. d. með túlk í hvaða land sem er og fá betra lán en núverandi bankavexti.

Hér eru vextir Landsbankans 7½% víxlavextir og ½% framlengingargjald, og þar sem þetta eru forvextir, verða vextirnir allt að 9%. Ef maður ber þetta saman við vexti í erlendum bönkum, liggur næst að taka Englandsbanka, sem stjórnar að mestu peningamarkaðinum í heiminum. Þar eru vextirnir 3½%, í seðlabanka Hollands 3% og í þjóðbanka Svía 3½%: Ég skal fúslega viðurkenna, að ekki er rétt að heimta sömu vexti hér, enda má eitthvað á milli vera 3% og 8–9%. Ég hefi ekki fengið tíma til að kynna mér nákvæmlega innlánsvexti erlendra banka, en ég hefi hér vaxtatöflu frá Hambros Bank, sem eftir samning við ýms firmu hér hefir sent þeim yfirlit yfir vexti af innstæðum og hlaupareikningi, sem miðaðir eru við þá, sem ekki eiga minna en 100 £ inni. Í desember eru vextirnir 2%, en í byrjun aprílmánaðar eru þeir komnir niður í 1½%. Nú skulum við taka bankana hér. Hér eru innlánsvextir 4½%, sparisjóðsvextir 5% og hlaupareikningsvextir 2–4½%. Og hvorki innláns- né. útlánsvextir hafa breytzt að neinu leyti. Það er ófyrirgefanlegt, og ég verð að segja, að ég veit ekki, til hvers Alþingi er, ef það á ekki að skipta sér af þessu. Ég veit, að hæstv. stj. mun bera því við, að hún hafi ekki tök á að ráða þessu til lykta beinlínis; en ég veit líka, að hún hefir enga tilraun gert til þess. Og ef hæstv. stj. ræður ekkert við þá menn, sem eiga að sjá um þessi mál, verður hún að reyna að losna við þá.

Til þess að sýna, að þingið hefir áður látið sig þessi mál skipta — en sumir hv. þm. telja, að þetta heyri ekki undir þingið — , skal ég benda á, að hv. 2. þm. Árn. bar fram þáltill. árið 1927, sem ekki varð afgr., en þáv. fjmrh. tók mjög vel í, enda er það tvímælalaust, að þetta heyrir undir þingið. Ég veit ekki, til hvers þingið er, ef ekki til að stjórna aðallínunum í fjármálum landsins. Ég vil nú skora á hæstv. stj. að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til að kippa þessu máli sem fyrst í lag, og ég vænti, að hver einasti dm. greiði þessari þáltill. atkv. sitt.