10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (3335)

363. mál, lækkun vaxta

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Hér er enginn viðstaddur úr hæstv. stj., og þykir mér það leitt, þar sem ég neyðist til að svara hæstv. dómsmrh. nokkrum orðum. Ég skal unna honum sannmælis og þakka, að hann tók vinsamlega í till., hvað sem verður um efndirnar. Hann kvaðst vera mér sammála í aðalatriðum, en sagði, að stj. gæti lítið gert. Ég skal koma nánar að þessu, þegar ég fer að svara hv. 1. þm. Landsbankans, — Reykvíkinga, vildi ég sagt hafa, og þeim ummælum hans, að í till. væri óskýrt tekið fram, hvað stj. ætti að gera og hvað bankaráðið.

Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., að setji bankaráðið sig á móti lækkun, þá á stj. erfiða aðstöðu. En hún á þó eitt ráð: hún getur ögrað bankaráðinu með að láta það fara; það getur hún, ef hún hefir meiri hl. í þinginu.

Hæstv. ráðh. talaði almennt um málið og sagði hag Landsbankans ekki góðan. Það er hverju orði sannara, enda alkunnugt. Ég hefi haft sömu aðstöðu gagnvart báðum bönkunum síðan 1921. Ég vildi þá láta gera þá báða upp; vissi, að þeir voru báðir jafnilla staddir. Um þetta var engum einstökum að kenna, heldur varð það fyrir rás viðburðanna, og margir voru þá svo óheppnir að missa aleigu sína, sbr. milljónatapið á síldinni. Þetta hlaut að koma niður á bönkunum, og er ekkert við því að segja. En menn vildu ekki taka afleiðingunum og gera þær ráðstafanir, sem þurfti, gera upp bankana, einnig Landsbankann, og koma bankamálunum á heilbrigðari grundvöll. Hæstv. ráðh. sagði, að Íslandsbanki hefði ekki verið góð stofnun. Þar er ég honum sammála, en ég veit, að Útvegsbankinn verður mun betri og á að þola miklu lægri vexti en Íslandsbanki og Landsbankinn. Og þá verð ég að segja hv. 1. þm. Reykv., að það væri mjög óeðlilegt, að þjóðbankinn hefði hæsta vexti. Þá vildi ég heldur gera bankann upp, svo að hann gæti verið jafn öðrum bönkum um vaxtakjör.

Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., að Búnaðarbankinn hefir vonandi og á að hafa lægri vexti en þeir bankar, sem vinna að útgerð. Það er auðsætt, að miklu minni áhætta er að lána landbúnaðinum en sjávarútvegi. En það hlýtur líka svo að verða í framtíðinni, og einhverjir af hv. þdm. munu sjálfsagt verða svo gamlir, að þeir lifi það, að þjóðbankinn hafi ekki hærri vexti en aðrir bankar.

Ég hefi bent á ráð til þess að hægt sé að lækka vextina. Það er að komast í beint samband við erlendan peningamarkað. Ég álít, að allar stjórnir hafi gert of lítið til þess að reyna það.

Hæstv. ráðh. drap á, að bankavextir væru hér allt of háir, en ekki gott við því að gera. Benti hann á Þjóðverja í sambandi við þetta. Það mun rétt vera, að þar í landi séu til bankar, sem taka 10–12%, en ég veit, að vextir þjóðbankans eru 6% og margir viðskiptabankar hafa 7–8%. En ég tel rangt að setja Ísland, með öllum þeim framtíðarmöguleikum, sem það hefir, á borð við hálfgjaldþrota lönd, svo sem Pólland, eða hálfgerðar villimannaþjóðir. Ég vil leggja áherzlu á, að hagstæðir vextir mundu hjálpa til að styrkja lánstraust vort á heimsmarkaðinum.

Ég vil enda svar mitt til hæstv. dómsmrh. á því, áð ég tel, að hann hafi talað sanngjarnlega og með velvilja um málið. Vænti ég þess, að hann beri kveðju til hæstv. fjmrh. og að hæstv. stj. láti hendur standa fram úr ermum og geri eitthvað í þessu máli. Ég mótmæli því, að stj. geti ekkert gert til þess að lækka vextina, ef bankaráð Landsbankans snýst á móti, eins og ég mun koma að í svari mínu til hv. l. þm. Reykv.

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um missmíði á till. minni, enda gerði hann allt, sem hann gat, til að mæla á móti því, að till. yrði samþ. Hann sagði, að Landsbankinn væri ekki sambærilegur við þjóðbanka í öðrum löndum. Ég hélt því heldur aldrei fram, að svo væri, né heldur að sanngjarnt væri að krefjast sömu vaxta af Landsbankanum og seðlabönkum erlendis. Það er ekkert annað en hártogun, að skilja orð mín þannig. Ég veit vel, að atvinnuvegir vorir eru sumir áhættusamir, en eitthvað ætti þó Landsbankinn að vera búinn að læra af töpum undanfarinna ára, og auk þess getur ekki nein sérstök áhætta verið í því fólgin að lána 60 kr. út á hvert skippund fiskjar, eins og nú kvað vera gert. Annars mun það mála sannast, að bankarnir hafa sjaldnast tapað á því að lána út á veð, heldur á óveðtryggðum víxlum.

Hv. þm. var ennfremur að tala um, að ræða mín hefði verið óskýr. Ég skal játa það, að ég hafði ekki búið mig sérstaklega undir að tala um málið nú, þar sem ég vissi ekki, að málið yrði á dagskrá. Ég gæti þó skýrt það betur, ef ég teldi þess þörf, en mér finnst málið liggja svo ljóst fyrir, að ekki ætti að þurfa að útskýra hvert smáatriði, eins og fyrir börn. Annars skal það tekið fram, að sízt situr á hv. þm. að tala um óljósar ræður.

Hv. þm. sagði, að ég ruglaði sífellt saman stjórn og bankaráði. Ég tók það fram, að stj. hefði erfiða aðstöðu í þessu máli, ef bankaráðið legðist á móti henni, en ég gat þess líka, að hægt væri að setja bankaráðið frá, og það álit ég að eigi að gera, ef með þarf.

Hv. þm. tók að sér að svara fyrir vaxtalækkunina í haust. Þegar vextir Englandsbanka voru 6½%, hækkaði Landsbankinn vexti sína upp í 8%. Nú eru vextir Englandsbanka 3½%, en vextir Landsbankans 7½%. Er ekki samræmi í þessu?

Skýring hv. þm. á því, hvers vegna vextir hefðu lækkað erlendis, var óljós mjög. Hann kenndi það deyfð í viðskiptalífinu, en lækkunin er alls ekki af þeim rótum runnin. Hún stafar af gullflutningnum frá Ameríku til Evrópu, sem byrjaði síðasta haust, eftir hrunin miklu í Ameríku.

Ég álít hv. þm. skilja hlutverk sitt næsta ranglega, ef hann heldur, að það sé hlutverk sitt sem bankaráðsmaður að hvetja bankann til að okra á atvinnuvegum landsins og hafa vexti sem hæsta, hvað sem þeim líður erlendis. Það, sem við þurfum að gera, er að komast inn á hinn erlenda peningamarkað, og til þess á að nota aðstöðu okkar hátíðarárið 1930.

Ég áttaði mig ekki á því í fyrstu, hvers vegna þessi ákafi hljóp í hv. 1. þm. Reykv. út af þessu máli, því að mig minnti, að búið væri að reka hann úr bankaráðinu, en svo mundi ég eftir, að hann var kominn þangað aftur, og þá fór ég að skilja, hvers vegna hann kemur nú fram sem vikadrengur bankans.

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um, að ég væri að reyna að koma mér í mjúkinn hjá kjósendum mínum með því að bera þessa till. fram. Hann má halda hvað sem hann vill um það, en ég er sannfærður um, að þetta mál á fram að ganga, hvað sem forsvarsmenn peningastofnananna segja.