10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (3336)

363. mál, lækkun vaxta

Magnús Jónsson:

* Ég vil fyrst víkja að hv. 1. þm. Skagf. nokkrum orðum. — Ég viðurkenni það fúslega, að ég furða mig ekki á því, þó að þingmenn kvarti undan vöxtunum fyrir hönd kjósenda sinna. Háir vextir valda ávallt erfiðleikum í atvinnulífinu. En þetta er engin algild ástæða fyrir því, að vextirnir eigi að vera lægri heldur en þeir eru. En þessu ruglar hv. flm. saman. Hann tekur ekki með í reikninginn, að það er atvinnulífið sjálft, sem skapar vextina.

Hv. 1. þm. Skagf. fannst ég vera afundinn í svari mínu. Það vil ég nú ekki kannast við. Hann ætlaðist til, að ég gæfi skýringu á því, hvernig á hinum háu vöxtum stæði. Ég þóttist hafa gert það í fyrri ræðu minni. Fyrir mitt leyti vildi ég óska, að ég gæti fylgt því, að vextirnir yrðu lækkaðir. Það væri mjög hagkvæmt fyrir mig persónulega, því að ég er skuldugur maður.

Ég er sammála hv. 1. þm. Skagf. um það, að töp bankanna eru ekki frumorsök hinna háu vaxta. Það var fullkominn misskilningur hjá hæstv. dómsmrh.

Hv. 1. þm. Skagf. kvaðst greiða till. atkv. af því, að ekki gæti það skaðað að skora á stj. að gera eitthvað í málinu. Ég held líka, að þetta sé skaðlaust. Stj. hefir dálitla möguleika til að gera eitthvað, en bankaráðið enga. Stj. gæti aukið starfsféð í landinu með því að taka lán, svo að vextirnir lækkuðu. Þó færi árangurinn af þeirri lántöku eftir því, hve dýrt lánið yrði. En aukið fjör í atvinnurekstri er það eina, sem lækkað gæti vextina. — Bankaráðið hefir engin ráð önnur en að meta peningaástandið eins og það er.

Það er ekki rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að ég hafi verið að svara hér fyrir Landsbankann. Ég tók það einmitt fram, að ég talaði í þessu máli sem þm., en ekki sem bankaráðsmaður, sökum þess hve lítinn tíma ég hefði haft til að kynnast þessu máli síðan ég kom í bankaráðið.

Hv. þm. óskaði eftir skýringu á vaxtahækkuninni í haust. Mér er ekki fullkunnugt um ástæðurnar, en ég tel óheppilegt, að vaxtahækkun erlendis skuli hafa verið færð sem ástæða, úr því að ekki var hægt að lækka vextina að sama skapi, er þeir lækkuðu erlendis. En ég held, að þessi hækkun eigi rætur sínar í atvinnulífinu. Afkoma Landsbankans er lakari nú en í fyrra. Innieignir hans í útlöndum eru minni og meiri seðlar í umferð nú en þá, og af því leiðir örara atvinnulíf. Nú hefir bankinn svo mikið af seðlum úti, að ískyggilegt væri fyrir hann að hleypa meira fjöri í atvinnulífið með lækkun vaxta. Þetta tvennt virðist benda á það, að vextir séu ekki hærri en þeir þurfa að vera. Hvort sem vextirnir hafa hækkað í haust sökum vaxtahækkunar erlendis eða ekki, þá er víst, að þessar eru orsakirnar til þess að þeir hafa ekki lækkað meira en þeir hafa gert. Og svo bættist lokun Íslandsbanka ofan á allt laust eftir árámótin.

Hv. flm. þarf ég litlu að svara. Hann sagði, að hæstv. dómsmrh. hefði tekið vel í málið. En hann tók í málið á svipaðan hátt og ég, að það væri leiðinlegt að hafa háa vexti, en hann taldi þetta óviðráðanlegt fyrirbrigði. Þá sagði hv. flm., að þá gengi allt öfugt, ef Búnaðarbankinn hefði lægri vexti en seðlabankinn. En það fór framhjá honum, að ýmsar deildir Búnaðarbankans starfa með lágum vöxtum, sem studdir eru með opinberum fjárframlögum. Annars gætu vextirnir auðvitað ekki verið lægri. Annars sagði hv. flm. í öðru orðinu, að Búnaðarbankinn ætti að geta haft lægri vexti af því að landbúnaður væri áhætttuminni en verzlun og sjávarútvegur. Svo sagði hann á eftir, að engin hætta væri að lána til útgerðar. „Logikin“ er þessi: 1) Það er öfugt, að Búnaðarbankinn hafi lægri vexti en Landsbankinn. 2) Eðlilegt að vextir Búnaðarbankans séu lægri. 3) Engin ástæða til þess, að vextir Búnaðarbankans séu lægri.

Þá vildi hv. flm. láta setja af bankaráðið. Hvað skyldi nú hafast upp úr því? Ekkert annað en það, að í staðinn kæmi nýtt bankaráð, sem hefði sömu aðstöðu og hið fyrra og liti sömu augum á silfrið.

En ef það skyldi nú vilja lækka vextina af hlýðni við óvitra menn, hverjar yrðu þá afleiðingarnar? Hverjar verða afleiðingarnar, ef vextirnir verða lægri en peningamálin segja til? Ekki aðrar en þær, að bankinn missir peningana. Menn, sem eiga fé inni, taka það út og leggja í fyrirtæki. Þetta er alveg eins og ef bankinn ætlaði sér að halda uppi óeðlilegu gengi, sbr. þegar Landsbankinn ætlaði að halda uppi sterlingspundinu. Það voru nógir aðrir, sem seldu það lægra en bankinn, svo að hann tapaði á gjaldeyrisverzluninni.

Þá var hv. flm. að tala um prósentuhlutföllin milli vaxta í Englandsbanka og Landsbankanum fyrir og eftir vaxtalækkunina, 6½% og 8% og 3½% og 7½%. Það er eins og hann haldi, að Landsbankinn sæki fé sitt í Englandsbanka. (GunnS: Eigum við að reyna það?). En hv. flm. veit, að almennir peningavextir hafa ekki lækkað svona. Hvortveggja vextirnir, hinir fyrri og síðari, eru óeðlilegir vextir. Háu vextirnir fyrir „krísuna“ voru til að hindra peningastrauminn frá Ameríku, en síðar voru vextir lækkaðir til að fjörga atvinnulífið.

Hv. flm. sagði, að ég misskildi bankaráðsstöðu mína, ef ég hvetti bankann til að okra á viðskiptalífinu. Það er langt frá, að ég ætli mér það. Hlutverk bankaráðsins er að kynna sér fjármálaástandið eins og það er.

Hv. flm. hefir ekki dregið fram neitt í viðskiptalífi okkar, sem réttlæti lækkun vaxta. Hækkun vaxta er til að draga úr óeðlilegri þenslu, en lækkun vaxta á að lækna deyfð og drunga, sem kominn er í atvinnuvegina. (GunnS: Ég benti á að opna fyrir oss erlendan peningamarkað). Já, það er stjórnarinnar að gera það, og hún ræður, hvað hún gerir.

Ég skal ekki leggjast á móti samþykkt till. En hálfhjákátlegt finnst mér þó að vera alltaf að koma fram með slíkar till. fyrir kosningar, þegar vitanlegt er, að ekkert verður gert. Það hefir kannske einhverja þýðingu sem kosningabeita, en ekki á annan hátt.