10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (3339)

363. mál, lækkun vaxta

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla aðeins að segja fáein orð út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, af því að hann hefir máske ekki lagt alveg réttan skilning í mín orð. Ég tók það skýrt fram með rökum, eins og hv. 1. þm. Reykv., að bankaráðið er nú sem stendur, ásamt bankastjórunum, einrátt um það, hvaða vexti það hefir.

Ég býst við, að hvert bankaráð líti á málið út frá fjárhagslegu sjónarmiði, en geri ekki mikið fyrir góðvini sína, eins og Alþingi og landsstjórn. Það, sem máske hefir gefið hv. 1. þm. Skagf. ástæðu til að segja það, sem hann sagði, að ég viðurkenndi tilgang till. og stefnu hjá hv. 2. þm. Rang., að það sé gott að geta lækkað vexti, og ég er honum persónulega samþykkur um það. En á hinn bóginn benti ég á, að það eru miklar skuldir frá liðnum árum, og þess vegna hafði ég litlar vonir, en það getur verið, að bankaráðið sjái sér fært að gera eitthvað, — vonandi halda þeir ekki vöxtunum í 7½ –8% til eilífðar. En af þeim miklu töpum, sem orðið hafa, sérstaklega á lánum til sjávarútvegsins, leiðir vitaskuld yfirleitt, að vextirnir verða hærri en góðu hófi gegnir.

Ég vildi aðeins segja þetta til þess að skýra mína afstöðu til málsins; en það er töluvert mikið rétt í því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, en ég vildi þó ekki, að orð mín væru misskilin.

Ég álít það alltaf eðlilegt af þingi og stj. að reyna að halda vöxtum niðri, en til þess að reyna að fyrirbyggja misskilning á því, hvaða möguleikar væru fyrir að stj. og þing gætu það, útskýrði ég það, að hinar stóru, gömlu skuldir eru sá varanlegi þröskuldur í framkvæmd þessa máls eins og nú er hagað málum.