10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3348)

363. mál, lækkun vaxta

Bjarni Ásgeirsson:

Ég held það séu einir þrír hv. þm., sem hafa andmælt mér og tekið undir það sama, að ríkisstj. hafi nákvæmlega sömu aðstöðu gagnvart Landsbankanum nú og 1927. (GunnS: Ég sagði, að stj. gæti sett þetta fyrir þingið). Þá var það fjmrh. og bankastj., sem höfðu ráðin í sameiningu. Nú er það bankaráðið og bankastj. í sameiningu, sem ráða vöxtunum. Hæð vaxtanna er eitt af þeim fáu málum, sem bankastj. hefir atkvæðisrétt um með bankaráðinu. Jafnvel þó að nokkuð mikill hluti bankaráðsins vildi lækka, hefði það ekki vald yfir stj. bankans. (GunnS: Þingið hefir valdið). Og þó að ríkisstj. og flokkur hennar skipti um sína bankaráðsmenn, nægir það ekki.

Mér þykir það undarlegt, að hæstv. forsrh. skuli skora á þingið að samþykkja þessa áskorun á stjórnina. Ég held hann geri það til þess að vera samkvæmur orðum sínum frá 1927, fremur en að hann sjái ekki, að sú áskorun er einskis virði, þar sem valdið vantar.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að meiri munur væri á vöxtum hér og erlendis nú en 1927. Þegar bankavextir hækkuðu hér í haust, voru íslenzkir bankavextir jafnháir og 1927, en vextir í aðalpeningalöndum heimsins, í Bandaríkjunum og í London, voru 2% hærri en þeir voru 1927. Hafi þá ekki verið ástæða til að lækka vextina hér, hefði nú verið ástæða til að hækka þá löngu áður en það var gert. Nú munu vextir erlendis vera komnir niður í það sama og 1927.

Till. 1927 var svæfð. (JS: Vísað til fjhn. með 20 shlj. atkv.). Það sýndi sig, að þm. kærðu sig ekki um, að hún gengi fram. Þá er það skrítið, að þessir hv. þm. vilja samþ. till. nú, þegar sýnt er og sannað, að stj. stendur miklu hallara fæti til að hrinda þessu í framkvæmd.

Þá vil ég aðeins svara hv. þm. N.-Þ. nokkrum orðum. Hann hélt skemmtilega ræðu, eins og hans er vandi, þegar hann stendur upp. Hann lagði áherzlu á tvö atriði. Auðmagn heimsins réði yfir bankavöxtunum og léki sér að því að hækka þá og lækka. Það er rétt. En við Íslendingar erum jafndauðir og áður, þó að við vitum það, þar sem við erum upp á auðvaldsþjóðirnar komnir um lán til atvinnuvega okkar. Og þá er það alveg út í bláinn gert að koma með áskoranir til sjálfrar ríkisstj. hér úti á Íslandi um að hún skuli stjórna þessu. Og á meðan ekki er hægt að sýna fram á, að við getum fengið ódýrt fé handa bönkunum, þá þýðir ekki um það að tala, þótt vextir séu háir. Svo hlýtur að vera, meðan féð er dýrt, töp bankanna mikil og þeir eiga ekkert. Bankarnir verða að taka þá vexti, sem áhætta atvinnuveganna krefst, miðað við dýrleika þess fjár, er þeir starfa með.

Viðvíkjandi því, sem talað hefir verið um forsjón bankanna, er það að segja, að seðlabankar eiga að vera nokkurskonar forsjón í atvinnu- og peningamálum. Þeir eiga að játa vexti falla eða stíga, eftir því sem þeir álíta, að atvinnulífinu sé hollast í hvert sinn. Ég held, að íslenzku bankarnir hafi einmitt gert langt of lítið til þess að vera atvinnulífinu hér slík forsjón, og miklu minna en erlendir seðlabankar hafa verið sínum þjóðum. Úr þessu hlutverki bankanna má alls ekki gera of lítið. Það er að vísu gott og æskilegt, að vextir séu lágir. En það þýðir ekkert að lækka vexti fram yfir það, sem getur staðizt, því það hefnir sín geipilega.

Hv. þm. N.-Þ. vildi líkja bönkunum við allskonar illhveli og taldi upp nokkrar tegundir þeirra. Líklega er þá Landsbankinn búrhveli, Búnaðarbankinn hrosshveli og Íslandsbanki náhveli — og bústofnslánadeildin þá líklega nauthveli.

Það var alger misskilningur hjá hv. flm., að ég hefði sagt, að við Íslendingar ættum að byggja alla okkar framtíð á fátæktinni. Þetta sagði ég vitanlega aldrei. En hitt sagði ég, að meðan við værum fátækir og yrðum þess vegna að taka dýr lán, þá yrðum við líka að sætta okkur við háa vexti. — Það var vegna fátæktar, að taka þurfti svona dýrt lán 1921. Og það eru töp og fátækt bankanna, sem valda því, að við verðum enn um stund að sætta okkur við háa vexti.