10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3349)

363. mál, lækkun vaxta

Pétur Ottesen:

Ég vil til frekari áréttingar því, sem ég sagði áðan, að eins stæði á nú og 1927, þegar þáltill. var borin fram um lækkun vaxta, bæta þessu við: Á því sama þingi voru samþ. lög um Landsbanka Íslands, þar sem sú breyt. var gerð á yfirstjórn hans, sem nú gildir. Framkvæmd slíkrar till. byggist því alveg á sömu aðstæðum. (BÁ: Það var ekki orðið að lögum!). Nei, en það var vitanlegt, að það yrði að lögum. Er því hér um algerða hliðstæðu að ræða.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Mýr. sagði um vextina, vil ég aðeins benda á, að það er alveg sérstök ástæða til, að ríkisstj. skerist nú í leik. Vextirnir hækkuðu um 1% nú í haust, á sama tíma og vextir hækkuðu almennt í heiminum. Nú hafa vextir stórlækkað erlendis, en hér hafa þeir aðeins lækkað um ½%. Er því alveg sérstök ástæða til að bera fram slíka till. nú. Ég vænti því, að hæstv. landsstjórn neyti fyllstu krafta til að sjá um, að vextir verði lækkaðir.

Hv. þm. Mýr. var að lýsa undrun sinni yfir því, að hæstv. forsrh. tók vel í þessa till. Mér virðist sízt ástæða til að finna að því. Ég tek orð hæstv. forsrh. sem vott um góðan vilja og að hann komi auga á, að stj. geti hlutazt til um, að bankarnir lækki vextina.