10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (3351)

363. mál, lækkun vaxta

Bjarni Ásgeirsson:

Ég þarf ekki að tala mikið um þáltill. þá, er borin var fram 1927. Ég var þá ekki orðinn þm. og þarf því ekki fyrir þá till. að svara. En ég verð þó að líta svo á, að afstaða stj. til bankans hafi verið önnur þá en nú. Það er að vísu satt, að frv. um Landsbankann lá fyrir því þingi og var samþ. af því. En það var þó ekki orðið að lögum þá, svo að ef þáv. stj. hefði eitthvað viljað gera í vaxtamálinu, þá gat hún hraðað ákvörðunum sínum og verið búin að koma þeim fram, áður en 1. gengu í gildi.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um ástæður til vaxtahækkunar þeirrar, er varð á síðastl. hausti, þá er það að vísu rétt, að ein ástæðan til þeirrar vaxtahækkunar var sú, að vextir höfðu hækkað erlendis. En það var ekki einasta ástæðan. Aðrar ástæður lágu líka til grundvallar fyrir þeirri hækkun. Og þær ástæður hafa ekki breytzt, þótt vextir hafi lækkað erlendis. Og þær ástæður, ásamt fleiru, sem fram hefir komið síðan, eru þess valdandi, að Landsbankinn hefir enn ekki séð sér fært að lækka vextina meira en um ½%.

Hv. þm. Borgf. og hv. þm. N.-Þ. hafa verið að setja ofan í mig fyrir það, að ég hafi verið að átelja ræðu hæstv. forsrh. — Ég er alls ekki að átelja hæstv. stj. fyrir það, því hún gerði ekkert í þessu máli, því hún getur ekkert í því gert. En þar sem þetta er svo, þá var heldur ekki rétt af hæstv. forsrh. að mæla með þessari till.

Ég vil segja það eitt við hv. þm. N.-Þ., að hann getur vitanlega talað fyrir þeim áskorunum, sem hann vill, og þá líka um þetta. En hann gæti allt eins vel skorað á stj. um að láta kolaverðið eða saltverðið lækka. Eða að S. Í. S. lækkaði verð á nauðsynjavöru, eða hvað annað. Slíkar áskoranir þurfa að vera á viti byggðar, ef þær eiga að gera gagn. En á meðan hv. þm. færir engin rök fyrir því, að skynsamleg ástæða sé fyrir hendi til að lækka vextina, þá er ekki hægt að taka þetta mál alvarlega. Hv. þm. líkti bankanum við vél, sem ætti að vinna í þarfir alls almennings og sem ekki þyrfti að taka sérlega mikið tillit til. Við skulum segja, að bankinn sé vél. En ég vil þá minna hv. þm. á, að vélar vinna svo bezt sín verk vel, að þeim sé ekki ofboðið. Sé það gert, eyðileggjast þær og verða að engu gagni. Sama er um bankana að segja. Séu vextir ákveðnir svo lágir, að þoli bankanna sé ofboðið, þá hætta þeir fljótlega að vera þjóðinni til nytja.