10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (3352)

363. mál, lækkun vaxta

Magnús Jónsson:

* Ég ætla aðeins að minnast á ræðu hv. þm. N.-Þ. — Ræða hv. þm. var nú talsvert skemmtileg. Hann talaði um sjávarskrímsli og sólkerfi og margt annað. Yfirleitt var rökfærsla hans mjög góð, en niðurstaðan var röng og alveg í mótsetningu við röksemdir hans. Það var t. d. alveg rétt, sem hann sagði um fisksalana. En hann dró alveg rangar ályktanir af því, sem hann sagði um þá. Hv. þm. talaði líka um illhveli, sem ekki mætti nefna á sjó. Þetta er nú einmitt sláandi dæmi, að það eru til ýms illhveli, sem ekki má nefna eða kalla á. Og menn bera einmitt ekki nógu mikla virðingu fyrir því. Í lok stríðsáranna var t. d. í sífellu kallað á meiri peninga, og það var alltaf lánað meira og meira. En hver varð svo afleiðingin? Jú, peningarnir féllu alltaf meira og meira, af því menn höfðu ekki vit á að hlusta á þessi goðmögnuðu rök, sem vöruðu við hættunni. Við ætluðum sannarlega ekki að sinna þeim röddum, en afleiðingin varð líka sú, að krónan okkar féll niður í 47 aura. Umr. nú byggjast einmitt á þessum sama misskilningi og þá réði.

Um það atriði, hver ráði vaxtahæð Landsbankans, vil ég segja það, að það er alveg rétt hjá hv. þm. Borgf., að það eru alveg sömu aðstæður fyrir hendi um ákvörðun vaxtanna nú og var 1927. Það eru bara aðstæðurnar og markaðsverðið, sem ráða þessu nú, eins og þá. Og meðan þær aðstæður eru óbreyttar, er ekki til nokkurs hlutar að vera að skora á neinn að breyta vöxtunum.