10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (3354)

363. mál, lækkun vaxta

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Ég vil einnig beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að atkvgr. verði frestað til morguns.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um samanburð á vöxtum nú og 1927, þá vil ég geta þess, að 1927 voru vextir Englandsbanka ½% hærri en þeir eru nú. Aðstaðan er því að þessu leyti betri nú. Og þar sem vextir eru orðnir svona lágir erlendis, þá vil ég, að þeir lækki hér innanlands líka.

Ef till. verður samþ. og stj. megnar ekki að fá bankann til að lækka vextina, þá álit ég sjálfsagt að breyta skipulagi bankans með lögum á næsta þingi.

Það var ekki rétt hjá hv. þm. Mýr., að ég segði, að bankarnir byggðu framtíð sína á fátæktinni. Ég sagði bara, að bankarnir héldu fátæktinni við með því að lána gegn háum vöxtum. Ég vil ekki bíða eftir því, að sú bankaforsjón geri menn ríka. Ég vil, að bankarnir rétti við efnahag manna, með því að lækka vextina.

Mér datt í hug, þegar hv. 1. þm. Reykv. var að tala um þessa miklu bankaforsjón, sem menn ættu að trúa í blindni, „vittighed“, sem stóð í Mogga. (MT: Var vittighed í Mogganum?). Já, og hún var þannig, að drengur var spurður að því, hvers vegna jörðin gengi kringum sólina. Drengurinn svaraði því, að það væri af því, að hann pabbi sinn segði það, landafræðin segði það og kennarinn segði það. (MJ: Er það þá ekki rétt, að jörðin gangi kringum sólina?). Jú, hún gerir það, en röksemdafærslan er jafnvitlaus fyrir því. (BÁ: Það skiptir mestu, að niðurstaðan sé rétt!). Ég er hræddur um, að það sé eins með hv. 1. þm. Reykv., að einhver bankapabbi hafi sagt honum þetta, en niðurstaðan er bara ekki eins rétt og í skrítlunni í Mogga.

Það, sem gera þarf til þess að lækka vextina, er að tryggja sér aðgang að erlendum peningamarkaði og játa seðlabankann taka þau lán, sem atvinnuvegirnir heimta. Stj. ber fyrst og fremst að ganga ötullega fram í þessu.