11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (3358)

363. mál, lækkun vaxta

1) Með svofelldri grg.:

Ég var nú að vísu ekki einn af þeim tólf hv. þm., sem voru svo lukkulegir að vera á fundi til kl. 9 í gærkveldi, en mér er sagt, að það hafi farið fram nafnakall, til þess að fá það bókað, hverjir væru þeir ástundunarsömu þdm. Ég hefi nú heyrt, hverjir þessir 12 voru, og vil láta þess getið, að ég tel sex þeirra hafa unnið til þess bæði fyrr og síðar, en um sex þeirra er það að segja, að þeir eru sízt þess verðugir að bókast sem sérstaklega þaulsætnir á fundum og ástundunarsamir, og vil ég þar til nefna sjálfan flm. till., hv. 2. þm. Árn., hæstv: forseta (BSv) og hæstv. forsrh. og fleiri. (Forseti: Þetta átti að vera grg. fyrir atkv.) Já, en ég vildi aðeins taka þetta fram áður en lengra er farið.

Ég skal gera þá grein fyrir mínu atkv., að ef hæstv. atvmrh. telur sig hafa aðstöðu til þess að fá vextina lækkaða, sem vel má vera, að hann hafi, vegna hins nána sambands hans við bankaráð þjóðbankans, og ennfremur ef hæstv. atvmrh. telur það bæta sína aðstöðu til þess, að þessi till. verði samþ. — þótt mér þyki það með ólíkindum — þá greiði ég hiklaust till. atkv. mitt.