03.02.1930
Neðri deild: 12. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Sigurður Eggerz:

Það var aðeins dálítil fyrirspurn, sem ég vildi leyfa mér að gera til hæstv. stj. Ég get auðvitað tekið undir, að það er dálítið illa farið, að landið skuli ekki hafa getað fengið betri kjör á láninu en þetta. En ég vildi spyrja hæstv. stj., hvernig stendur á því, að fast lán hefir ekki verið tekið. Mér sýnist það í sjálfu sér athugavert að taka bráðabirgðalán og byggja á því stórar framtíðarráðstafanir. Ég geri ráð fyrir, að starfsemi Landbúnaðarbankans eigi m. a. að hefjast á grundvelli þessa bráðabirgðaláns. En mér virðist það ákaflega óaðgengilegt að byggja framtíðina á slíkum bráðabirgðalánum. Og þess vegna verð ég að spyrja: Ef hægt hefir verið að fá lán til langs tíma — eins og tilætlunin var — með sæmilegum kjörum, hvernig stendur á, að þetta hefir ekki verið gert? Það hlýtur öllum að vera ljóst, hve miklu öruggara fast bankalán er, þegar á að byggja á því ráðstafanir til langframa. Því að bæði geta orðið ýmsar breyt. í heiminum, eins og nýlega hefir sýnt sig, þegar vaxtahækkun sú hin mikla var úti í heimi, og svo getur fyrir ýmsar óhentugar ráðstafanir farið svo, að það land, sem í gær hefði getað náð láni með góðum kjörum, verði í dag að sæta afarkjörum. Seinustu viðburðir hjá oss vekja til umhugsunar um þetta.

Ég ætla ekki að fara inn á þá atburði frekar nú, en ég vil aðeins vekja athygli hæstv. stj. á því, að svo framarlega sem hún gat fengið gott lán til langs tíma, þá var mjög óheppilegt að kasta allri áhyggjunni á bráðabirgðalánið.

Ég veit að vísu, að á þessu tímabili, sem heimildin nær yfir, hefir ekki alltaf verið hægt að fá lán með góðum kjörum, en það er ekki nema eðlilegt að spyrja, hvort stj. hafi gert tilraun til þess að ná betri kjörum og hver niðurstaðan hafi orðið. Á því má m. a. sjá, hvernig Ísland stendur á lánamarkaðinum.

Ég orðlengi ekki frekar um þetta, heldur bið aðeins um upplýsingar, sem ég geri ráð fyrir, að allir óski að fá. Ég spyr ennfremur, hvort það sé meiningin að búa áfram við þetta bráðbirgðakassalán eða hvort meiningin sé að leitast við að fá fast lán.