12.04.1930
Sameinað þing: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3364)

466. mál, frestun á fundum Alþingis

Jón Þorláksson:

Mér þykir það nú dálítið undarlegt að heyra borna fram þá ástæðu fyrir þessari ákvörðun, að það sé einfaldasta og óbrotnasta leiðin að haga þessu svo. Undarleg þykir mér þessi ástæða, af því að mér sýnist hún vera í svo miklu ósamræmi við allt annað, þessum hátíðarhöldum viðkomandi.

Það er ekki verið að halda upp á þúsund ára minningu Alþingis með það sérstaklega fyrir augum að gera allt sem óbrotnast, því ef sú ástæða væri látin ríkja, myndu engin hátíðarhöld vera látin fram fara. Ég get þess vegna alls ekki viðurkennt þetta sem neina ástæðu út af fyrir sig; að öðru leyti hefi ég ýmislegt á móti þeirri tilhögun, sem till. stingur upp á, sem sé þeirri, að fresta fundum þessa þings og taka svo upp framhald af því á þessari þúsund ára hátíð á Þingvöllum.

Það er nú fyrst sú formlega ástæða. —

Ég veit ekki betur en þetta þing hafi verið kvatt til fundar í Reykjavík, og það virðist þá vera dálítið undarlegt a. m. k., ákaflega formlaust og vafasamt, hvort löglegt er, að það þing, sem kvatt er saman hér, frestar fundum og hleypur svo saman til framhaldsfunda á öðrum stað. En í öðru lagi er það nú svo, að ef á að halda þing á Þingvöllum í sambandi við þessa hátíð, hygg ég, að það myndi einmitt þykja hið allra eðlilegasta, að þar færi fram þingsetning með venju fremur hátíðlegu móti. Það er svo annarsstaðar, að setning þinga er oft gerð, og jafnvel venjulega gerð í sumum ríkjum að sérstaklega hátíðlegri athöfn, og ég er alveg viss um það, að margir fulltrúar erlendra þinga, sem þarna eru boðnir, myndu sakna þess, og þeim myndi þykja það undarlegt, ef þarna ætti að halda þing án þess að nokkur þingsetningarathöfn, sem samsvaraði hátíðahaldinu, hefði fram farið.

Hæstv. forsrh. tjáði sig hafa einhverjar fleiri ástæður móti því að halda þarna nýtt þing með nýrri þingsetningu heldur en þessa, sem hann nefndi og sagði, að væri óbrotnasta leiðin, en hann sagði, að sumar þær ástæður væru þess eðlis, að ekki væri rétt að gera þær að umtalsefni. Ég get ekki gert mér neina grein fyrir því, hvað hæstv. ráðh. átti við, og ég hefi ekki fundið neitt; hitt er mér alveg ljóst, að það væri sjálfsagt að hafa að nokkru leyti sérstök þingsköp fyrir þetta þing, sem kemur saman á Þingvöllum, en það er eðlileg afleiðing af því, að þingið getur ekki starfað með sínum venjulega hætti, hvorki í sínum venjulegu húsakynnum, enda ekki ástæða til að framkvæma þar allar þær athafnir, sem fylgja venjulegri þingsetningu og byrjun þingstarfa. Mér hefði þess vegna fundizt það miklu betur viðeigandi, að hæstv. stj. hefði borið fram einhverja till., sem miðaði að því að gera sem einfaldast það starf, sem þarf að ganga á milli sjálfrar hinnar hátíðlegu þingsetningar og hinna eiginlegu þingstarfa, og mér hefði sýnzt, að það mætti gera þetta enn; jafnvel þótt nú sé orðið æðiáliðið þingtímans, þá er þó ennþá hægt að koma í gegn með samkomulagi frv., sem leggur það í vald forseta sameinaðs Alþingis að gera þær breyt. á þingsköpum, sem nauðsynlegar þættu til þess, að hin fyrirhugaða athöfn tæki ekki of langan tíma, og ég hafði hugsað mér, að í þessu gæti falizt það, að skipun deilda og forseta í þinginu mætti haldast hin sama og nú er á þessu þingi. En hinu finnst mér við, vegna hátíðahaldanna sérstaklega, ekki megum sleppa að hafa þarna um hönd. Hátíðleg setning Alþingis verður það eina af þingstörfum, sem vekur athygli aðkomugestanna, og ef við sleppum henni, er í raun og veru ákaflega lítið erindi fyrir þingið til að sýna sig frammi fyrir innlendum og útlendum gestum, og það er hægt að hafa hana hátíðlega á ýmsan hátt. (JBald: Hvað er hátíðlegt við setningu Alþingis? — HV: Á hvern hátt er hægt að gera setningu Alþingis hátíðlega?). Þessir hv. þm., sem taka fram í, mega vita það, að hátíðlegar athafnir eru framkvæmdar við þau tækifæri, jafnvel í flestum löndum, og þessum hátíðlegheitum er þá hagað eftir því, sem er í samræmi við menningu og smekk hverrar þjóðar. (HV: Ceremoniur!). Ég er þess vegna því mótfallinn að veita þetta samþykki til að fresta fundum Alþingis. En í sambandi við þetta er annað, sem mér er sérstaklega annt um að fá að vita, og það er það, hvaða störf þinginu myndi verða ætlað að framkvæma við þennan fund á Þingvöllum, hvort sem það verður fundur í framhaldi af þessu þingi, sem nú situr, eða það verður fundur í ný settu þingi þar á staðnum. Áður en ég fer lengra út í þetta mál, vildi ég þess vegna beiðast þess, ef unnt væri, að skýrt yrði frá því, hvað fyrirhugað er um þetta.