12.04.1930
Sameinað þing: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3365)

466. mál, frestun á fundum Alþingis

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég kæri mig ekki um að segja nema örfá orð út af þeim aths., sem hv. 3. landsk. hefir látið falla um það, hvaða fyrirkomulag yrði á þessu haft. Ég vildi benda á eina mótbáru, sem hv. 3. landsk. hefir borið fram, nefnil. að þetta þing sé kvatt til fundar í Reykjavík og þá sé vafasamt, hvort heimilt sé að halda áfram á öðrum stað. En samkv. 33. gr. stjskr. er það vafalaust. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta :

….. „Þegar sérstaklega er ástatt, getur konungur skipað fyrir um, að Alþingi skuli koma saman á öðrum stað á Íslandi“.

Ég skil ekki, að það geti orkað tvímælis, að það getur alveg eins átt við eftir að þingi hefir verið frestað, að láta það koma saman á öðrum stað, eins og að setja nýtt þing.

Um það, hvaða störf þinginu sé ætlað að leysa af höndum, er það að segja, að hugsað hefir verið til að binda enda á einhver þau mál, sem gæti orðið nokkurn veginn samkomulag um, því að það er ómögulegt að halda uppi umr. um deilumál þarna. Það mál, sem talað hefir verið um í hátíðarnefndinni og utanríkismálanefndinni, er það, að Ísland ákveði að ganga í Þjóðabandalagið. Það hefir að vísu ekki orðið samkomulag um það, en ég vildi mega gera ráð fyrir, að það sé mál, sem við getum orðið sammála um. Hinsvegar er mjög óviðkunnanlegt, að slík ákvörðun sé tekin án þess að fram fari nokkrar umr. um það á Alþingi, og þess vegna var hugsað til að hafa það fyrirkomulag, að í till., sem bornar yrðu fram í sameinuðu þingi, yrðu ákveðnar tvær umr., aðalumr. færi fram hér í Reykjavík, en svo á Þingvöllum talaði annaðhvort einn maður af hverjum flokki, eða ekki það. Hvort hægt er að fá samkomulag um fleiri atriði, veit ég ekki. Hv. þm. er kunnugt um það, að utanríkismálanefnd hefir haft til meðferðar fleiri mál, þ. á. m. er eitt, sem vel mundi fallið til að binda enda á á Þingvöllum, sem er að samþykkja gerðardómssamninga við öll hin norðurlandaríkin, en því miður er ég ekki viss um, að hægt sé að ganga frá því fyrir þann tíma.

Að því leyti, sem hv. þm. talaði um, að æskilegt væri að koma að hátíðlegri athöfn í sambandi við setningu hátíðarinnar, þá er það atriði, sem sýnist allmiklum erfiðleikum bundið, og ekki sízt eru erfiðleikar við það að láta setningu Alþingis fara fram á Þingvöllum, þannig að það gæti orðið að öllu leyti ánægjulegt.