12.04.1930
Sameinað þing: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (3366)

466. mál, frestun á fundum Alþingis

Jón Þorláksson:

Mér fundust upplýsingarnar, sem hæstv. forsrh. gaf, vera heldur á huldu og eiginlega allt í óvissu um þær. Hann sagði, að ef til vill yrði lögð fyrir þingið till. um inngöngu í Þjóðabandalagið, en þó var ekkert víst um það mál.

Það var að heyra, að ekki væri vissa um, hve gott samkomulagið yrði innan þings um að nota þetta tækifæri til að ganga í Þjóðabandalagið. Ég hefi ekki orðið var við, að flokkurinn, sem ég telst til, hafi rætt um þetta mál, og um það hefir yfirleitt hvergi verið talað að ráði. (Forsrh.: Utanríkismálanefndin). Getur verið. En aldrei hafa verulegar umr. farið fram um það, þegar ég hefi verið viðstaddur þar. Ég ætla ekki að fara að ræða málið efnislega núna, aðeins undirstrika það, sem hæstv. forsrh. sagði, að þetta er allt í óvissu ennþá. Sama má næstum segja um samningana við Norðurlandaríkin. Það er alveg óvíst, hvort þeir verða komnir svo langt, að hægt sé að binda enda á þá á Þingvöllum.

Hitt þótti mér torskilið, þegar hæstv. forsrh. talaði um einhverja dularfulla erfiðleika við þingsetningu á Þingvöllum. Ef svo báglega er ástatt, að menn treysti sér ekki til að setja Alþingi á Þingvöllum án hátíðarspjalla, þá ætti þingið að sleppa því að koma saman. Ég veit ekki, hvað hæstv. forsrh. hefir átt við þarna. Meðan svo stendur, verð ég að gera ráð fyrir, að þetta sé ekki annað en hugarburður úr honum. Ég get a. m. k. ekki getið í þær eyður. En hitt er það, sem bæði landsmenn og gestir búast við, að Alþingi sjálft haldi afmæli sitt hátíðlegt, ekki bara með því að setjast niður og taka til umr. einhverja till., sem búið er að flytja áður, heldur með því að láta fara fram sæmilega virðulega minningarathöfn, sem langeðlilegast væri, að kæmi fram í sambandi við setningu Alþingis, þegar það kemur þar saman.

Mig minnir, að í dag væri borinn meðal þingmanna listi, sem kveðja á til einkafundar síðdegis á morgun til þess að hlusta á, og kannske ræða, hvernig eigi að haga þessum hátíðahöldum á Þingvöllum.

Ég heyri hjá hæstv. forsrh., að það er eitthvað, sem hann kveinkar sér við að ræða hér fyrir opnum dyrum. Það kemur líklega í ljós á lokaða fundinum á morgun. En þá hefði mér þótt réttara, ef hægt væri, að fresta afgreiðslu þessarar þáltill., unz lokið er þessum einkafundi á morgun og menn eru búnir að heyra þessar leyndardómsfullu ástæður fyrir því, að þingið geti ekki komið fram á þessu hátíðlega afmæli sínu. Ég vil þess vegna skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki skjóta atkvgr. um till. á frest, þangað til lokið er þessum einkafundi, sem á að halda á morgun.