28.02.1930
Neðri deild: 39. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3376)

154. mál, milliþinganefnd

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það orkar ekki tvímælis, að það er mjög nauðsynlegt að fá fullkomna tryggingarlöggjöf. Tryggingarmálin þurfa mikinn undirbúning, og hafa þau á einstökum sviðum legið fyrir Alþingi að undanförnu, eftir því sem stj. hefir unnizt tími til að láta búa þau í frumvarpsform. Má þar til nefna lög um búfjártryggingar og um slysatryggingar. Á þinginu 1928 var skorað á stj. að undirbúa frv. um vátryggingu sveitabæja, og hefir það nú verið lagt fyrir þetta þing, ásamt frv. um breyt. á lögum um Brunabótafélag Íslands. Stj. hefir ekki haft yfir að ráða vinnukrafti til þess að undirbúa fleiri frv. fyrir þetta þing. En út af þáltill., shlj. þessari, sem kom fram á sama þingi, sneri stj. sér til hins eina sérfræðings í þessum efnum hér á landi, Brynjólfs Stefánssonar skrifstofustjóra Sjóvátryggingarfélags Íslands, og beindi til hans ósk um að athuga málið og skila áliti um það, og í gær skilaði hann till. sínum um einn lið þessara mála, vátryggingu sveitabæja.

Það var ekki fyrri en síðastl. haust, sem kostur var á manni, er getur helgað þessum málum alla krafta sína, en það er Árni Björnsson hagfræðingur frá Syðri-Ey í Húnavatnssýslu. Þessir tveir menn, hann og Brynjólfur Stefánsson, vinna nú saman að undirbúningi þessara mála, en þau eru svo umfangsmikil, að ég veit ekki, hvað fljótt þeir geta afgr. till. um þau. En þeir voru til aðstoðar við samningu frv. um Brunabótafélag Íslands og vátryggingu sveitabæja. Þeir eru báðir sérfræðingar í þessum greinum, og annar þeirra hefir gefið sig óskiptan að þessu starfi síðan í haust.

Þessar upplýsingar vildi ég gefa í sambandi við þá þáltill., sem fyrir liggur; og ennfremur lýsa samúð minni með þessum málum.

Hv. þm. Ísaf. spurðist fyrir um það starf, sem kvenfélögin hefðu innt af höndum í þessum málum, sérstaklega viðvíkjandi mæðratryggingum. Mér er alveg ókunnugt um það og get engar upplýsingar gefið því viðvíkjandi.

Ég er ekki viss um, hvort það er ástæða til að skipa sérstaka mþn. til þess að athuga þessi mál. Það starf mætti fela þessum tveimur sérfræðingum, sem ég áður hefi nefnt.

Ég er því samþykkur, að þáltill. verði vísað til n., og eftir eðli sínu ætti hún að fara til fjhn.