05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (3389)

154. mál, milliþinganefnd

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég vil þakka hv. 1. þm. Skagf. undirtektir hans við þetta mál.

Ég hefi ekki fallið frá þeirri skoðun minni, að heppilegra sé að skipa mþn. í þetta mál en að fela stj. það, því að ef svo færi, að stj. sinnti því ekki, væri mikið unnið við að fá það undirbúið af n. (MG: Þm. fær málið ekki fram með því móti). Ég ber engan ótta fyrir því, að málið nái ekki fram að ganga, þegar réttur undirbúningur hefir átt sér stað. Ég átti sjálfur sæti í n. ásamt tveim íhaldsmönnum, sem vann að undirbúningi frv. um slysatryggingar. Frv. náði fram að ganga og var þó enginn þm. í n.

Ég hefi ekkert umboð frá n. til að segja um það, hvort þessi mþn. skuli skipuð eintómum þm. eða ekki, en mitt álit er það, að í þessari n. þurfi að vera menn, sem geta litið almennt á þessa hluti.

Hv.1. þm. Reykv. tók ekki eins vel í þetta mál og flokksbróðir hans, hv. 1. þm. Skagf., enda var varla við því að búast, eftir því viðhorfi, sem hann hefir til fátæklinganna og þeirra, sem erfiða mest í landinu.

Það er kunnugt, að tryggingamálin koma aðallega að gagni þeim, sem verða sárfátækir af slysum, sem þeir geta ekki gert við, og þeim, sem eru orðnir svo gamlir, að þeir eiga erfitt með að sjá fyrir sér. Þessir menn hafa ekkert gagn af blómlegum atvinnufyrirtækjum, En tryggingalöggjöfin gerir það að verkum, að ólán þeirra hverfur, fjárhagslega séð.

Hv. þm. var að tala um nefndabein í þessu sambandi. En yfirleitt getur það ekki skoðazt sem bein, að taka þátt í mþn. Hv. 1. þm. Reykv. hefir raunar verið í mþn., svo að hann hefir fengið tækifæri til að mynda sér skoðun á því, af hverju honum hlotnaðist það sæti. En annað getur gilt fyrir starfshæfa menn heldur en þennan hv. þm. Annars er það alveg rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að jafnaðarmannaflokkarnir fylgja alstaðar þessum málum, þó að það hafi því miður ekki verið þeir, sem áttu upptökin að þeim, heldur ójafnaðarmaðurinn Bismarck. Það er auðvitað sjálfsagt að láta sér annara þjóða víti að varnaði verða, og það á n. að sjá um, en í þessu máli eru vítin á þann veg, að aðrar þjóðir eru alltaf að gera sín tryggingarmál víðtækari, en ekki draga úr þeim. Ég legg því eindregið á móti hinni skriflegu brtt. hv. 1. þm. Reykv. Eftir hans ummælum að dæma, hlýt ég að líta svo á, að þeir, sem greiða henni atkvæði, séu alls ekki hlynntir tryggingamálum. Hv. þm. benti á bækling eftir Kristin Björnsson lækni, sem nú dvelur í París og skrifar um viðhorf lækna gagnvart tryggingamálum. Það er auðvitað, að alstaðar þar, sem um útborganir er að ræða til einstakra manna af opinberu fé, koma fram kvartanir um misbeiting. Það er ómögulegt að búa algerlega tryggilega um löggjöfina, en þó að misbeiting eigi sér stað við og við, er það hverfandi í hlutfalli við hin mörgu tilfelli, þar sem lögin ná virkilega sínum tilgangi. Hinsvegar er ekki um misbeiting að ræða, nema fyrir sök læknanna, og það er það, sem Kristinn Björnsson er að ráðast á. Læknar reyna stundum að gera sér þetta að féþúfu, en ágæti tryggingalöggjafarinnar eru auðvitað söm fyrir því. Ef hv. 1. þm. Reykv. hefir þá trú á íslenzku læknastéttinni, að hún gefi fölsuð vottorð í þessu efni til þess að afla sér fjár, þá skil ég, að hann finni hvöt hjá sér til að bera fram brtt. sína, en annars ekki.