05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (3405)

154. mál, milliþinganefnd

Hákon Kristófersson:

Það er rétt hjá hv. þm. Vestm., að þetta framferði hæstv. forseta er næsta undarlegt. Hv. 1. þm. Reykv. bjóst við að geta staðið hér sem málsvari till. sinnar, enda hnigu orð hæstv. forseta ótvírætt í þá átt, að umr. myndu ekki hefjast um þetta að nýju fyrr en eftir kl. 5. Annars skal ég geta þess, að gefnu tilefni, að enda þótt mér séu milliþinganefndir fremur ógeðfelldar, að fenginni reynslu undanfarinna ára, þá er það nú samt svo, að ég vil ógjarnan, að ekki frekar könnuðu máli, vera á móti þessari till. hv. þm. Ísaf. Ég hefi ekki enn getað gert það upp fyrir mér, hvort till. hv. 1. þm. Reykv. muni ekki vera heppilegri til framkvæmda en upphaflega till. Ég tel það nokkurn kost á till. hv. 1. þm. Reykv., að í henni er slegið föstu um það, hve lengi n. á að starfa. Er slíkt til mikilla bóta frá því, sem nú tíðkast um slíkar nefndir. Mér virðist því, sem hv. flm. síðari till. hafi gengið vel frá henni í alla staði og að hún sé yfirleitt aðgengilegri en frumtillagan. Ég sakna þess, að hæstv. stj. skuli ekki hafa látið til sín heyra um þetta mál. Mér er tjáð, að tryggingarmálin séu þegar undir rannsókn að tilhlutun stj., en hv. flm. virðast ekki vilja gera sig ánægða með þau bráðabirgðamálalok. Ég sé nú, að tveir hæstv. ráðh. eru viðstaddir, og er þá þess að vænta, að þeir leiði okkur fáfróða í fullan skilning á þessum mikilsverðu hlutum.