15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (3413)

154. mál, milliþinganefnd

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Á síðasta þingi var borin fram í Nd. till. til þál. um að skipa mþn. til þess að undirbúa og gera frv. um almannatryggingar. Þeirri till. var, að því er ég ætla, vísað til n., en varð ekki útrædd á því þingi. En till. varð eftir í syrpu þeirri, sem óafgreidd var þegar hæstv. stjórn lét slíta þinginu.

Það er ekki efamál, að það verður að hefjast handa og koma alþýðutryggingunum í betra horf en nú er. Það má segja, að nú sé engin slík trygging til, nema ef telja má sjúkrasamlög og það, sem varið er af ríkisins hálfu til berklavarna. Mæðra-, elli- og atvinnuleysistryggingar eru ýmist ekki til eða þá svo lítilfjörlegar, samanborið við það, sem er hjá nágrannaþjóðum okkar.

Það er ekki svo auðvelt að semja frv. um þessar tryggingar fyrir einstaka þm. Þetta er náttúrlega á færi stj., en til þess að ýta þessu máli áleiðis er bezt, að skipuð sé n. í málið, svo sem farið er fram á með þessari till. Slysatryggingalagatill. hafði verið hér fyrir þinginu ár eftir ár og verið vísað til stj. Það hafði margsinnis verið skorað á stj. að hefjast handa og semja frv. um það mál, en hún hafði aldrei tíma til þess og lét það því dragast úr hömlu. En þegar sú regla var upp tekin að skipa nefnd manna í málið, komu till. hennar eftir eitt ár. Nú telja allir, að það hafi verið sjálfsagt að gera þessi lög, slysatryggingarlögin. Einnig þeir, sem á sínum tíma voru á móti þeim. Hér er nú farið fram á, að sama leið verði farin og nefnd skipuð til að undirbúa málið.

Það er náttúrlega lítið efni, sem hægt er að leggja n. í hendur. Þó ætla ég, að kvenfélag hér í bænum hafi gert einhverjar athuganir á kjörum ekkna og munaðarlausra barna, en hversu langt því er komið, veit ég ekki.

Ég geri ráð fyrir, að þeir menn, sem til slíks starfa yrðu fengnir, mundu bæði leita til þeirra og annara, sem að þessu hafa eitthvað unnið, og hagnýta sér þá undirbúningsvinnu, sem gerð kann að hafa verið til undirbúnings tryggingamálunum.

Stj. hefir í mörg ár haft þetta mál til meðferðar og lofað að flytja frv. um það, en úr því hefir ekkert orðið. Ég veit, að það er þyrnir í augum margra manna, að af nefndarskipun leiðir nokkurn kostnað. En ég verð að segja það, að það kostar líka nokkuð að semja sum stjfrv., þótt sá kostnaður komi hvergi beint fram, heldur sé talinn sem aukagreiðsla til embættismanna. Það er því misskilningur, að það sé nokkuð ódýrara að vísa málinu til stj. heldur en að skipuð sé n. manna í það.

Loks vænti ég þess, að hv. deild samþ. þessa till. Meiri hl. fjhn. hefir haft hana til meðferðar og leggur til, að hún verði samþ. óbreytt. Þegar þetta mál var tekið fyrir í n., var einn nm. (BK) ekki á fundi, og fyrir þá sök er hún stíluð frá meiri hl. Það getur því vel verið, að hann sé þessari till. sammála eða vilji samþ. hana með lítilsháttar breyt. En miklar breyt. má ekki gera, því eins og nú er komið þingstörfum, þolir þetta mál ekki, að það sé hrakið milli deilda. Ég mæli því með því, að þetta þarfa mál verði látið ganga áleiðis og samþ.

Loks vil ég benda þeim, sem eru móti alþýðutryggingum, á það, að slysatrygging ríkisins hefir nú allmikið fjársafn. Og öll tryggingarstarfsemi safnar fé, ef skynsamlega er öllu fyrir komið. Og það er ekki vafi, að bæjar- og sveitarfélögum mundi verða þetta mikill stuðningur, því vafalaust þyrftu margir, sem trygginganna njóta, annars að leita á náðir sveitarfélaganna.